12.03.1970
Efri deild: 54. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

11. mál, skipun prestakalla

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og frsm. n. hefur þegar skýrt frá, stendur n. öll að þeim þremur brtt., sem fluttar eru við frv. á þskj. 399. Ég hef svo leyft mér að flytja þrjár aðrar brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 389, og skal ég fara um þær fáeinum orðum, en tel, að ég geti orðið stuttorður, þar sem ég ræddi nokkuð um þau atriði, sem þær fjalla um, við 2. umr. þessa máls og gerði þá jafnvel ráð fyrir að flytja við þau atriði brtt., eins og ég hef nú gert. Um þessar till. varð ekki fullt samkomulag í n., þó að vitað væri, að þær hefðu meiri eða minni hljómgrunn innan n., og er það því rétt hjá hv. frsm. menntmn., að um þær og aðrar till. en tili. sameiginlegu á þskj. 399 hafa nm. algerlega óbundnar hendur.

1. brtt. mín er við 45. tölul. 1. gr. frv., þar sem eru talin upp prestaköll og prófastsdæmi, og þetta fjallar um Stafholtsprestakall í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Ég legg til, að þar verði sú breyting á, að í stað þess að prestakallið og prestssetrið verði í Stafholti, skuli það framvegis vera á Varmalandi. Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, er sú, að sú er skoðun a.m.k. ýmissa heimamanna í þessu prestakalli, að það sé heppilegra og eðlilegra að gera þessa breytingu. Það er svo með þetta prestssetur, að þar hefur verið eða var prestslaust um nokkurt skeið. Nú er nýkominn þangað að vísu ungur prestur, og það liggur ekki ljóst fyrir, hvort hann hyggur á búskap eða ekki, en þó mun það nú ekki vera líklegt, og þá er viðbúið, að horfið verði að því ráði að leigja jörðina bónda, ef hann fengist til þess að nytja hana, en sú hefur orðið reynslan, þar sem sá háttur hefur verið á hafður að leigja prestssetursjarðirnar frá ári til árs, að þetta hefur valdið margvíslegum erfiðleikum og oft orðið til þess, að þessar jarðir, sem oft eru hinar ágætustu bújarðir, hafa ekki verið byggðar upp og nytjaðar á þann hátt, sem eðlilegt og heppilegt verður að teljast. Hins vegar stendur þannig á, að í prestakallinu skammt frá er nú komin upp byggð, þar sem fyrst og fremst er um að ræða nokkra skóla, þar sem er Varmaland, og það er enginn efi á því, að það er líklegri prestssetursstaður en aðrir staðir í þessu prestakalli, og ég tel, að það eigi að opna fyrir því í þessum l., að presturinn geti setið þar. Það þarf ekki að fara um það öllu fleiri orðum, að þróunin er öll í þá átt, að prestarnir flytjist í þéttbýliskjarnana í prestaköllunum, og það er vissulega eðlileg þróun. Prestsstarfið er ekki sízt, þar sem það er vel rækt, orðið ýmislegt, margháttað æskulýðsstarf og því verður eðlilega hvað bezt gegnt með því, að prestar sitji þá á þeim stöðum, þar sem til að mynda skólahald fer fram.

2. till. mín er á þá leið, að 8. gr. frv. falli niður, en það er sú gr., þar sem svo er kveðið á, að biskupi sé heimilt með samþykki ráðh. að ráða prestvígða menn til sérstakrar sjúkrahúsaþjónustu og setji biskup þeim erindisbréf. Ég geri ekki ráð fyrir, að um það geti orðið að ræða annars staðar en í þéttbýlinu og þá fyrst og fremst í Reykjavík og e.t.v. nágrenni, að ráðnir verði sérstakir, prestvígðir menn til þessarar sérstöku sjúkrahúsaþjónustu. Og ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki aðeins álitamál, heldur býsna hæpið að gera þá ráðstöfun, að sérstakir prestar eða sérstakur prestur skuli annast sjúkrahúsaþjónustuna. Ég veit ekki betur en það hafi verið þannig hér í Reykjavík, þar sem þetta kæmi nú helzt til greina, að prestar hér hafi verið fúsir til þess, þegar þeir hafa verið til kvaddir, að annast alla þá kirkjulega og prestlega þjónustu, sem um er að ræða og eðlileg má teljast í sambandi við sjúkrahús, og ég tel það í hæsta máta hæpið að ráða til að mynda einn sérstakan prest, sem hefði það hlutverk að gegna þessari þjónustu. Það er nú svo, að viðhorf fólks til presta er eðlilega misjafnt, og það kemur jafnvel enn þá fremur fram, þegar menn liggja sjúkir á sjúkrahúsum, að þeir vilja þá gjarnan og eðlilega ráða því sjálfir, hvaða prestsþjónustu þeir hljóta. Ég held, að það sé í hæsta máta hæpið að fara að binda það hér í þéttbýlinu við einn ákveðinn kennimann, að hann skuli vera sérstakur sjúkrahúsaprestur. Þessu tel ég, að sjúklingarnir og vandamenn þeirra eigi að ráða, eins og löngum hefur verið.

Þriðja og veigamesta brtt. mín er við 20. gr. frv. og er alger umorðun á henni. En þar eru liðirnir b, c og d dregnir saman í eitt, og í stað þess að til kristnisjóðs renni, eins og segir nú í 20. gr., árlegt framlag úr ríkissjóði, er samsvari hámarkslaunum presta í þeim prestaköllum, sem lögð eru niður samkv. lögum þessum, og laun þau, sem sparast á hverjum tíma, þegar prestakall er prestslaust, svo að ekki komi til greiðslu prestslauna eða hluta þeirra, falli niður, en í stað þess komi, að tekjur kristnisjóðs skuli vera árlegt framlag úr ríkissjóði. Ég leitaðist við að rökstyðja það við 2. umr. þessa máls, að þetta væri miklu eðlilegri háttur, að ákveða í þessu tilfelli fasta upphæð árlega úr ríkissjóði til þessara hluta, en að slá því föstu, að allt, sem sparast við þessa breytingu, þessa fækkun á prestum, og allt, sem sparast við það, ef prestsembætti standa óveitt um lengri eða skemmri tíma, eigi að renna í kristnisjóð. Ég tel, að þessi hugmynd sé ekki rétt, hún sé röng og óskynsamleg. Það hafi í fyrsta lagi gengið mjög út í öfgar hjá okkur að ákveða sérstaka tekjustofna til þess að standa undir einhverjum ákveðnum þörfum, og í öðru lagi hljóti það að vera eðlilegra að miða við hinar raunverulegu þarfir en eitthvað, sem kemur út úr slíku reikningsdæmi eins og þessu og enginn veit, hvað verður í framtíðinni.

Það er enginn vafi á því, að það er mjög óheppileg stefna, sem hér hefur ríkt á undanförnum áratugum, að þeir, sem hafa sýnt fram á það eða hafa viljað sýna fram á það, að ýmis nauðsynjaverkefni skorti fjármagn, hafa lagt sig fram um það að finna einhvers konar nýja tekjustofna eða nýjar álögur, svo sem eldspýtnagjald, vindlingagjald, pappagjald og þar fram eftir götunum, til þess að standa undir ýmiss konar kostnaði við nauðsynlegar framkvæmdir. Hæstv. núv. fjmrh. hefur oftar en einu sinni, bæði í fjárlagaræðum og við önnur tækifæri, bent á það alveg réttilega að mínum dómi, að þessi þróun sé óheppileg og það sé miklu eðlilegra, að ríkissjóður eigi hér beinan hlut að máli. Til hans renni fyrst og fremst þeir skattar, sem lagðir eru á, og síðan sé það metið hverju sinni af þeim, sem með fjárveitingavaldið fara, hvað eigi að leggja til hverrar og einnar af þeim nauðsynlegu framkvæmdum, sem þarf að leggja fé til.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. fjmrh. sé enn sömu skoðunar um þetta efni og hann hefur áður verið. Ég tel þá skoðun hans algerlega rétta, og í samræmi við það er þessi brtt. flutt, 3. brtt. mín á þskj. 389, að aðaltekjustofn kristnisjóðs skuli vera ákvarðaður hverju sinni, miðaður þá við raunverulegar og sannanlegar þarfir sjóðsins, og það skuli vera framlag úr ríkissjóði, en ekki þetta óákveðna framlag, sem ómögulegt er að reikna út upp á framtíðina, hvort er of mikið eða of lítið til þess að standa undir þeirri starfsemi, sem þarna yrði um að ræða.

Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vænti þess, að hv. d. meti þau rök, sem ég hef nú reynt að færa fram fyrir brtt. mínum, og taki síðar afstöðu til þeirra á grundvelli þess mats.