20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

11. mál, skipun prestakalla

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. til l. um skipun prestakalla og prófastsdæma og kristnisjóð, sem hér er til 2. umr., var lagt fram í hv. Ed. snemma á þessu þingi. Ég held, að það sé óhætt að segja það, að frv. hafi hlotið ítarlega athugun í menntmn. beggja d., og var frv. samþ. frá Ed. með nokkrum breyt. Það náðist ekki samstaða í menntmn. þessarar hv. d. um frv. Við, sem skipum meiri hl., leggjum til, að það verði samþ., eins og það kom frá Ed., og flytjum ekki við það neinar brtt., en áskiljum okkur hins vegar rétt til þess að fylgja brtt., sem kunna að verða bornar fram við frv., og raunar eru komnar fram margar brtt. við það nú í dag hér í deildinni.

Auk þess sem við leggjum til, að frv. verði samþ., mælum við, meiri hl. og raunar öll n., með, að brtt. á þskj. 431, sem hv. 2. þm. Vestf. flutti við 1. umr. málsins, verði samþ. Efni þessarar till. er það, að Árnespresta kall á Ströndum verði ekki sameinað Hólmavíkurprestakalli, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur fái að haldast. Að vísu mun það vera svo, að ýmsir álíta, að um þetta prestakall sæki enginn prestur. Það hefur raunar enginn prestur sótt um það á undanförnum árum, en allt fram til ársins í fyrra, ef ég man rétt, hefur þó verið settur prestur í þessu prestakalli, en því miður er hann nú farinn þaðan. Í þessu prestakalli munu vera eitthvað á þriðja hundrað manns, og hafa þinginu borizt eindregnar áskoranir um það frá íbúum prestakallsins, að það fái að haldast. Eins og hv. þm. er kunnugt, er hér um afskekkt prestakall að ræða, vegalengdin frá Hólmavík og norður í Árnes mun vera fullir 100 km, og nær alla vetur er sá vegur ófær. Svo kemur það einnig fyrir, að ís liggur við Strandir, svo að þá lokast sjóleiðin líka, svo að það hlýtur að vera mjög óhægt fyrir Hólmavíkurprest að þjóna þessu kalli. N. vill því láta reyna á það, hvort enginn prestvígður maður fáist til að sækja um þetta kall og lifa lífinu með þessu fólki, sem af þrautseigju byggir þessa norðlægu byggð.

Meðan frv. var til afgreiðslu hjá n., bárust henni þrjú símskeyti úr Núpsprestakalli í Vestur-Ísafjarðarsýslu frá öllum þremur sóknarnefndunum í því prestakalli, og óskuðu þær eftir, að Núpsprestakall yrði ekki sameinað Þingeyrarprestakalli, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ein sóknarnefndin, sóknarnefnd Sæbólssafnaðar, óskar eftir því, ef til þess kæmi, að prestakallið yrði sameinað Þingeyrarprestakalli, að sú sókn fengi fremur að renna inn í Holtsprestakall í Önundarfirði. Okkur sýndist í n., að með ákvæðum 1 I. gr. frv. væri hægt að verða við þessari ósk safnaðarins að fullnægðum þeim skilyrðum, sem sett eru í þeirri gr. Árið 1968, í árslok, voru íbúar í þessu prestakalli 173, en þess ber þá líka að gæta, að í þessu prestakalli er staðsettur einn af héraðsskólum okkar, Héraðsskólinn að Núpi, og er þá að sjálfsögðu að vetrinum til prestakallið miklum mun fjölmennara. En á s.l. árum hafa samgöngur mjög batnað í þessum landshluta, og engan veginn er þarna um að ræða slíkar vegalengdir eins og þær, sem eru á Ströndum á milli Hólmavíkur og Árness.

Eftir að frv. hafði verið afgr. frá n., eða s.l. föstudag, barst eitt símskeyti enn til hennar frá Grímsey, frá oddvitanum í Grímsey og formanni sóknarnefndar í því prestakalli, með sömu óskum, þeim, að prestakallið yrði ekki lagt niður, að það fengi sem sagt að haldast áfram. Í Grímsey hefur ekki prestur átt búsetu í mörg ár, og enginn prestur hefur, eftir því sem mér er kunnugt, sótt um það prestakall. Því hefur verið þjónað af öðrum prestinum á Akureyri nú í mörg ár. Íbúar í þessu prestakalli munu vera á milli 80 og 90, og ég hygg jafnvel, að þó að þetta prestakall sé á eyju norður í hafi, búi það jafnvel við betri samgöngur en Árnes á Ströndum, því að samgöngur við Grímsey hafa vissulega mjög svo batnað, síðan flugvöllur var byggður á eynni.

Hæstv. kirkjumrh. rakti við 1. umr. málsins hér í d. efni þess, og sé ég ekki ástæðu til þess að gera það nánar. Ég vil aðeins minnast á tvö atriði, sem mér virtist einna helzt verða ágreiningur um í hv. menntmn. Það var í fyrsta lagi ákvæði 6. gr. frv. um það, að presti á Þingvöllum yrði gert að þjóna jafnframt prestsstarfinu starfi þjóðgarðsvarðar. Hér er í rauninni ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem nú er, því að svo hefur það verið í mörg undanfarin ár, að einn og sami maðurinn hefur gegnt þessum störfum. Það mun hafa verið árið 1953, að Jóhann Hannesson, núverandi prófessor við Háskóla Íslands, var gerður að þjóðgarðsverði á Þingvöllum, og nokkru síðar gerðist hann sóknarprestur þar einnig, og frá árinu 1959 hefur séra Eiríkur J. Eiríksson gegnt þessum störfum báðum. Ég hef ekki orðið var við neina óánægju út af þessu starfi eða hvernig það er skipað, og það er ekki annað að sjá af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af starfi þessara tveggja manna, en að þessi tvö embætti geti farið saman. Eins og ég segi, hef ég ekki heyrt um annað talað en að vel hafi skipazt um störf þeirra, enda eru þessir menn báðir mjög hæfir menn, margfróðir og kunna glögg skil á sögu staðarins og sögu landsins. Færi hins vegar svo, að ekki fáist maður í þetta starf, sem að dómi veitingarvaldsins er hæfur til þess, hlýtur að gefast tími og tækifæri til þess að breyta þá þessum ákvæðum frv. og gera það, sem ráðlegast þykir, um skipun þessara embætta.

Síðara atriðið, sem ég vil leyfa mér að drepa á, er ákvæði 8. gr. frv., en þar er biskupi heimilað með samþykki ráðh. að ráða prestvígða menn til sérstakrar sjúkrahúsaþjónustu. Mér virtist sú skoðun koma fram í n., að hér væri um óþarft embætti að ræða, því að sóknarprestarnir gætu fyllilega sinnt þessu starfi. Við beindum nokkrum spurningum til biskups, sérstaklega vegna óska hv. 1. þm. Vestf., og m.a. spurðum við hann um álit hans á þessu starfi. Og ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp umsögn biskups um þetta atriði. En umsögn hans er svar við spurningunni, sem við beindum til hans, sem hljóðar svo: „Hvaða störfum eiga sjúkrahúsaprestar að gegna umfram það, sem sóknarprestar gegna nú í sjúkrahúsum?“ Biskup svarar þessari spurningu á þessa lund:

„Hér er opnuð leið til þess, að stærstu sjúkrahúsin, sem jafnframt eru í fjölmennustu prestaköllum landsins, geti notið óskiptra krafta prests. Skilningur á nytsemi og nauðsyn andlegrar aðhlynningar gerist almennur hjá læknum. Þeim er ljóst, að batahorfur sjúklinga eru mjög háðar hugarástandi, auk þess sem það skiptir miklu fyrir líðan þeirra og aðstandenda. Það þykir því sjálfsagður þáttur í góðri aðbúð sjúkra, að þeir geti haft greiðan aðgang að presti, er geti varið sér alls kostar í þeirra þágu. Jafnframt er til þess ætlazt, að sjúkrahúsaprestar hafi sérmenntun á sínu sviði. Vitaskuld rækja sóknarprestar sjúkrahús, eftir því sem þeir fá við komið, og munu hafa samband við sóknarbörn sín, sem dveljast á sjúkrahúsum, eftir sem áður. En prestar, sem gegna embættum í fjölmennustu prestaköllum, hafa ekki tíma né krafta aflögu til þess að sinna þessum verkefnum, svo vel sé og þeir vildu. Einnig er á það að líta, að hér er um starfssvið að ræða, sem krefst sérhæfingar. Geta má þess, að á Landsspítalanum einum eru yfir 300 sjúklingar nú. Borgarsjúkrahúsið hefur 255, og alls eru á sjúkrahúsum hér í Reykjavík um hálft annað þúsund sjúklinga. Á sjúkrahúsi Akureyrar eru 128.“

Þetta er það, sem herra biskupinn hefur að segja um þetta atriði frv. Ég hef einnig aflað mér álits nokkurra lækna hér í höfuðborginni um þetta atriði, og ég vil, herra forseti, leyfa mér að lesa nokkur orð úr þessum álitum og hef fengið leyfi hjá viðkomandi til að gera það. Dr. med. Friðrik Einarsson hefur þetta að segja um þetta starf:

„Ég hef oft verið spurður um álit mitt á því að hafa presta þjónandi við spítala. Ég álít það mjög gagnlegt. Samvinna presta, lækna og hjúkrunarliðs að velferð og heill sjúklinga er áreiðanlega öllum aðilum til blessunar. Manneskja er ekki bara líkami, heldur einnig sál. Og þó læknar og hjúkrunarfólk sé allt af vilja gert til þess að sinna þörfum sjúklinga eftir föngum, þá held ég, að þarna sé ein hlið málsins, þar sem góður og skilningsríkur prestur getur lagt mikið lið.“

Þetta var umsögn dr. med. Friðriks Einarssonar. Og ég hef hér einnig fyrir framan mig umsögn Sigurðar Samúelssonar prófessors, og skal ég leyfa mér að lesa nokkuð upp úr hans bréfi. Hann segir svo:

„Varðandi starfsemi sjúkrahússprests við Landsspítalann í Reykjavík vildi ég taka fram eftirfarandi: Þau s.l. 20 ár, sem ég hef starfað við Landsspítalann, hefur enginn fastráðinn sjúkrahússprestur starfað hér né heldur sérlærður félagsfræðingur. Á hvorum tveggja þeirra er nauðsyn til að tryggja sem bezt andlega og líkamlega velferð sjúklinga, enda hefur þessi háttur verið á hafður í öllum nágrannalöndum okkar um áratuga skeið. Bæði í læknaráði og í byggingarnefnd Landsspítalans hefur verið rætt um starfsaðstöðu sjúkrahússprests með tilliti til byggingar líkkapellu, þar sem stuttar minningarathafnir gætu farið fram, svo og húsnæði fyrir trúarathafnir og skrifstofuhald. Mér er kunnugt um, að ráðandi læknar Landsspítalans eru sammála um gildi prestsþjónustu í spítala, og get ég nefnt hér tvo hópa sjúklinga. Í fyrsta lagi mjög veika og langt leidda, í öðru lagi þá, sem komnir eru langt að, þekkja fáa og þurfa á ýmiss konar þjónustu og fyrirgreiðslu að halda. Í því þjóðfélagi, sem við nú lifum í, vil ég benda á, að læknisstörf í sjúkrahúsi verða ekki nægilega vel af hendi leyst, nema til komi aðstoð frá sérlærðum presti í sjúkrahúsmálum og vel lærðum félagsfræðingi. Ég tel því brýna þörf á því, að hið háa Alþ. sjái sér fært að veita leyfi til starfsemi sjúkrahússprests við Landsspítalann.“

Ég hef raunar fleiri umsagnir um þetta mál hér fyrir framan mig, t.d. frá borgarlækni, Jóni Sigurðssyni, og yfirlækninum á Kleppi, Þórði Möller. Umsagnir þeirra eru mjög á sömu lund, og ég vil ekki tefja fundartímann með því að lesa þær einnig. Vitaskuld kann það svo einnig að vera, að aðrir læknar séu á annarri skoðun í þessu efni, en ég tel, að það sé mikið að marka álit þeirra merku manna, sem ég hef hér vitnað í.

Þetta frv., frv. um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð, gerir ráð fyrir því, að kristnisjóður verði stofnaður. Ég þarf ekki að rekja ákvæði frv. um þetta. Það er þegar kunnugt. Ég vil aðeins til upplýsingar geta þess, að það er ætlazt til þess, að meðal stofnfjár sjóðsins sé kirkjujarðasjóður og prestakallasjóður, en eignir kirkjujarðasjóðs munu nú vera um 3.2 millj. kr. og prestakallasjóðs um 5.6 millj. kr.

Eins og ég gat um áðan, liggja hér fyrir fjölmargar brtt. frá hv. minni hl., ég held 15 að tölu, og auk þess þrjár frá hv. 6. þm. Reykv. Ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér þessar brtt. neitt náið, þær lágu hér fyrst á borðum í þd., þegar við settumst hér á fund í dag. En mér sýnist á öllu, að þessar brtt. muni gersamlega umhverfa frv., og ég hygg, að ég muni ekki greiða atkv. með einni einustu þeirra, enda gæti ég næstum trúað því, að þær væru fluttar í þeim tilgangi, a.m.k. að einhverju leyti, að drepa þessu máli á dreif.