20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

11. mál, skipun prestakalla

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það var á fyrstu þingmannsárum mínum, að ég var einstaka sinnum að tala um sparnað. M.a. stakk ég upp á því eða sagði, að það væri hægt að spara mikið í kirkjumálunum, það þyrfti ekki svona marga presta og það væri þeim sjálfum fyrir beztu að hafa nægileg verkefni. Það væri rétt að launa þá sæmilega, en þeir þyrftu að hafa nóg að gera, því að sannleikurinn er sá, að ef maðurinn hefur ekki verkefni, svo að hann sé nokkurn veginn nægilega upptekinn í sínu starfi, verður hann að engu. Ég held, að það hafi verið þannig um ýmsa presta hér á Íslandi. Söfnuðirnir voru orðnir fámennir og kirkjur lítið sóttar, og einkum eftir að útvarpið var komið á hvern bæ, voru verkefnin ekki nægileg fyrir þá. Það er ekki nema eðlileg breyting vegna samgangna og ýmissa annarra hluta, að prestum fækki. Og það er engan veginn ráðizt á stéttina fyrir það.

Ég hef talað um þetta oftar en einu sinni og látið þess jafnan getið, að í raun og veru stöndum við í menningarlegri þakklætisskuld við prestana. Þetta voru einu mennirnir, sem höfðu eitthvað ofurlítið lært, þó að lærdómur þeirra væri ekki að öllu leyti hagnýtur, en þeir lærðu latínu og glugguðu eitthvað í guðfræðina, og þetta var þó meiri lærdómur en alþýða manna hafði. Þeir kenndu ýmsum efnilegum drengjum, og við stöndum í raun og veru í talsverðri þakklætisskuld við prestana sem slíka. En nú er þetta allt saman breytt. Nú vilja þessir herrar ekki vera nema þar, sem fjölmennið er. Ég veit ekki betur en t.d. í Skagafirði séu óveitt prestaköll, einu skemmtilegasta héraði á landinu. Það vantaði prest á Miklabæ, og ég veit ekki betur en það vanti prest að Mælifelli, þannig að meira að segja í beztu héruðunum eru erfiðleikar á að fá presta til þess að gegna störfum.

Hv. 6. þm. Reykv. hélt hér ræðu áðan. Mér er persónulega kunnugt um, að hann er ekki mikill trúmaður. Ég spurði hann einhvern tíma að því, hvort hann tryði á annað líf, og mér skildist, að það væri ekki meira en svo. En ég trúi á annað líf, þannig að það er ekki af þeim ástæðum, sem ég er ekki neitt hrifinn af þessu frv. En þetta er í raun og veru alveg satt, sem þessi hv. þm. sagði um frv. Það gengur eins og rauður þráður í gegnum það og þess er alls staðar gætt, að það megi ekkert spara. Og frv. hefur aukna eyðslu í för með sér, því að það má á engum lið spara. Þess er gætt. En auðvitað fjölgar prestunum og hefur þegar fjölgað í fjölbýlinu, þannig að frv. sem slíkt stefnir í eyðsluátt. Þegar ég talaði fyrst um þetta, að það þyrfti að breyta þessu kerfi, vakti fyrir mér, að við gætum sparað fjármuni á því.

Þessi hv. þm. var að tala um það, að það væri nær að styrkja stúdentana, að þeir hefðu að borða erlendis. Sannleikurinn er sá, og við vitum það, að það eru margir stúdentar bláfátækir, sem eru að basla við lærdóm. En það er bara þetta, að fjármunir okkar eru takmarkaðir, og það, sem við þurfum fyrst og fremst að gera, er, að við eigum að láta stúdenta okkar hafa nokkurn veginn viðunanlega styrki, en það á ekki að styrkja þá nema til þess náms, sem þjóðin hefur þörf fyrir, að þeir læri. Það á að skipuleggja menntunarmálin miklu betur en gert er, en ekki að lofa öllum að hlaupa út í lönd og kannske læra eitthvað, sem þjóðin hefur ekki þörf fyrir, eða jafnvel að vera að slæpast. Það á að skipuleggja þetta, og svo eigum við að launa þessa menn þannig, að þeir þurfi ekki að vera klæðlausir eða svangir eða lifa eins og betlarar. Við þurfum að gera þetta hagnýtara, og væri miklu nær að reyna að spara eitthvað viðvíkjandi þessum kristnisjóði, eða hvað hann nú heitir, og hjálpa mönnum til nauðsynlegrar þekkingar, þekkingar, sem þjóðin hefur þörf fyrir og not af. Og sannleikurinn var sá, að hjá þessum hv. ræðumanni, 6. þm. Reykv., var eiginlega mjög lítið um vitleysur, ef þær voru þá til. Hitt er annað mál, að þegar menn tala í svona máli, leggja þeir kannske heldur mikla áherzlu á einstaka liði. Það var snilld hjá þessum hv. ræðumanni, þegar hann var að tala um prestinn á Þingvöllum. Það er allt annað að vera þjóðgarðsvörður en klerkur, og er ákaflega skoplegt að hafa þetta eitt embætti, því að þjóðgarðsvörðurinn á að líta eftir girðingum og reka rollur úr þjóðgarðinum og gá að skrílmennum, sem safnast þarna saman. Ég held, að það sé allt annað að vera góður að reka niður girðingarstaura og strengja net og negla kengi en að vera góður að messa. (Gripið fram í: Það hafa nú margir prestar verið góðir búmenn.) Já, þeir hafa bögglazt við þetta, fáir framúrskarandi. En þetta bara fer ekki að öllu leyti saman og í mörgum tilfellum ólíklegt, og sannleikurinn er sá, að presturinn á Mosfelli hefði ekki nema gott af því að fara yfir heiðina, þegar vegurinn er góður. Ekki þarf að messa í stórhríð, það er ekki ráðlegt að vera að því. Þegar maður les gamla annála, má sjá, að algengt var, að fólk yrði úti fyrir þá sérvizku að fara í kirkju vegna einhverra tíðagerða í slæmu veðri. Þetta var algengt. Það var talinn glæpur að koma ekki til kirkju. Lesið þið gamla annála, og þið sjáið það. Það er nú meiri kærleikurinn þetta hjá mannskepnunni.

Það er náttúrlega ekkert skrýtið með kirkjuna og þessa peninga. Við getum lesið sögur um kaþólska kirkjuvaldið. Það voru ekki meiri fjárplógsmenn eða ágirndarpeyjar til en þessir biskupar okkar hér áður fyrr. Þó að þeir hefðu verri aðstöðu, eftir að lúterskan kom, urðu þeir stórauðugir. Nei, þeir hafa hugsað um peninga, svona rétt eins og ég og aðrir, þessir blessaðir menn. Og sannleikurinn er sá, að það er enginn sómi fyrir þingið að láta frv. fara, eins og það er. Og jafnvel þó að við álítum þennan hv. 6. þm. Reykv. eitthvað rauðleitan svona á aðra hliðina, er rétt að viðurkenna það, sem hann segir vel og réttilega þrátt fyrir það, og ég álít, að hann hafi talað mjög viturlega og sanngjarnlega í þessu máli. Ég bar þetta undir einhvern mesta gáfnasnillinginn af þm. Hann sagði, að þetta væri yfirleitt snilldarræða og yfirleitt sönn. Ég ætla ekki að nafngreina manninn, en viturlegast væri nú, held ég, að fresta afgreiðslu þessa frv. og endurskoða það aftur. Það er búið að liggja í salti í 2– 3 ár, svo að ég held, að það skemmdist ekkert úr því sem komið er, þó að það væri geymt í eitt ár enn.