20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

11. mál, skipun prestakalla

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er nú ekki svo oft, sem málefni Grímseyinga ber á góma hér í hv. Alþ., og ég er hér með fyrir framan mig dálítið plagg, sem Grímseyingar sendu fyrir einum þremur árum eða svo, þegar þetta mál var til umr. síðast, þetta frv. um skipun prestakalla, en þá sendu Grímseyingar bréf til menntmn. Alþ., þar sem þeir skora á Alþ. að fella ekki niður Grímseyjarprestakall. Þeir rökstyðja málaleitan sína með dálitlu bréfi eða ávarpi, sem er undirritað af fjölmörgum Grímseyingum, og ég vil leyfa mér með leyfi hæstv. forseta að lesa þetta bréf. Þar segir svo:

„Í frv. því um nýskipan prestakalla, sem nú liggur fyrir hinu háa Alþ., er gert ráð fyrir því, að Grímseyjarprestakall verði lagt niður og sóknin sameinuð Akureyrarprestakalli, þannig að öðrum presti þar sé falin þjónustan. Við Grímseyingar viljum hér með fara fram á það, að þetta verði aldrei gert. Óskir okkar byggjum við á því, að íbúum fjölgar í Grímsey gagnstætt því, sem á sér stað í afskekktum byggðarlögum annars staðar á landinu. Grímsey hefur og sérstöðu að því leyti, að hún er langt frá öðrum prestaköllum í landi. Djákninn, sem starfað hefur í eyjunni í 5 ár, ráðgerir að flytjast í land á næsta sumri og við það verður prestur til eyjarinnar enn meira aðkallandi nauðsynjamál fyrir íbúana.

Ef litið er til baka yfir það tímabil, sem starfandi prestur hefur verið í eyjunni, þá má minna á, hvílík lyftistöng það var öllu menningar- og félagslífi Grímseyinga auk þeirrar þjónustu, sem að kirkjunnar málum laut. Viljum við sérstaklega benda á störf séra Péturs Guðmundssonar og séra Matthíasar Eggertssonar, sem hér störfuðu lengst allra presta í Grímsey og voru forsvarsmenn í málefnum eyjarinnar á svo mörgum sviðum. Þó að erfitt hafi verið síðustu ár að fá hingað prest, þá er engan veginn hægt að segja, að svo verði í framtíðinni, að eigi fáist á ný kennimenn, sem gerast vilja boðberar trúar og siðgæðis í þessu fornmerka prestakalli, sem verið hefur frá fyrstu kristni í landinu. Að þessu athuguðu vonum við, að hið háa Alþ. verði við beiðni okkar og sjái sér fært að leggja ekki niður prestakallið.“

Undir þetta skjal skrifuðu á sínum tíma fjölmargir Grímseyingar, eldri og yngri, og með því skeyti, sem þeir hafa nú sent menntmn., ítreka þeir þessa beiðni, og hygg ég, að ég geti ekki rökstutt öllu betur þeirra mál en þeir gera sjálfir í því skjali, sem ég var að lesa hér upp.