16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1970

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er hér flm. ásamt 2 þm. öðrum að fjórum till. á þskj. 185.

1. till. fjallar um það að hækka framlag til Iðnskólans í Reykjavík úr tæpl. 4.4 millj. kr. í 6 millj. kr. Eins og hv. þm. er kunnugt, voru á þingi 1963 sett ný iðnfræðslul. sem vafalaust voru mjög til bóta og stefndu í rétta átt, en hins vegar hefur framkvæmdin ekki gengið eins hratt og skyldi. Í þessum l. var gert ráð fyrir því að koma upp við iðnskólana sérstökum verknámsdeildum, sem skyldu að vissu leyti leysa af hólmi nám iðnnema hjá meisturum, þannig að þeir, sem stunduðu nám í 8 mánuði í verknámsdeild, skyldu fá nám sitt stytt hjá meisturum í eitt ár. Þetta var tvímælalaust spor í rétta átt, bæði á þann veg, að þetta tryggði eða tryggir tvímælalaust betri menntun iðnnema, auk þess sem sú kvöð styttir það að vinna mjög lengi fyrir takmarkað kaup hjá meistara. Hér við Iðnskólann í Reykjavík er framkvæmd iðnfræðslulöggjafarinnar að þessu leyti ekki komin lengra en það, að það er tekin fyrir nokkru til starfa sérstök deild fyrir málmsmíði eða málmsmíðadeild, en í innréttingu er húsnæði, sem á að vera fyrir trésmíðadeild og fyrir verknámsdeild bifvélavirkja og rafvirkja. Stjórnendur iðnskólans munu að þessu sinni hafa sótt um 12 millj. kr. fjárveitingu til ríkis og bæjar og mér skilst, að sú fjárveiting ætti að nægja til þess að gera þessar tvær deildir starfhæfar, þ.e. verknámsdeild fyrir trésmíðanema og verknámsdeild fyrir bifvélavirkja og rafvirkja. Samkvæmt þessu ætti framlag ríkisins að vera um 6 millj. kr. eða helmingur þess, sem stjórnendur iðnskólans hafa farið fram á. Hins vegar er í till. hv. fjvn. ekki gert ráð fyrir hærri fjárveitingu en 4.4 millj. kr. Það er þess vegna sem við flm. leggjum það til, að þessi fjárveiting verði hækkuð í 6 millj. Hér er svo hóflega í sakirnar farið og jafnframt um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að við treystum því, að hv. alþm. fallist á þessa till. Það er búið að halda margar snjallar og fagrar ræður um það hér á Alþ. í sambandi við EFTA–málið og mörg önnur mál, hve mikilvægt það sé að auka iðnmenntunina, því að hún sé ein mikilvægasta undirstaðan að aukinni iðnþróun í landinu og þess vegna treystum við flm. á það alveg sérstaklega, að þessari till. verði vel tekið.

Tvær næstu till., sem við flytjum, þremenningarnir, eru um að hækka framlagið til eflingar iðnþróunar, úr 2.5 millj. kr. í 5 millj. kr. og að hækka framlagið til að stuðla að nýjungum í iðnaði, úr 2.5 millj. kr. í 5 millj. kr. Eins og sést á því, hvernig þessir liðir eru orðaðir í fjárl., þá er ætlazt til, að það fé, sem er veitt samkvæmt þeim, verði notað með nokkuð mismunandi hætti til eflingar iðnaði og nýjum iðngreinum í landinu. Það liggur nú ljóst fyrir, að þörf er fyrir stóraukið fjármagn í þessum efnum, ef úr aðild að EFTA verður, sem gert er ráð fyrir, að verði samþ. innan fárra daga hér á Alþ. Ef við eigum að standast þá raun, sem þessari aðild mun fylgja, þá er óhjákvæmilegt, að við gerum stórt átak til þess að auka iðnþróunina og bæta aðstöðu iðnaðarins á margvíslegan hátt og þess vegna er það tvímælalaust, að þó að við flm. förum hér fram á verulega hækkun, eða helmingshækkun þessa framlags, þá þyrfti það að vera miklu meira, ef rétt væri. En við töldum ekki líklegt, að öllu meiri hækkun, en þetta mundi fást fram og stilltum þess vegna till. okkar svo í hóf sem raun ber vitni. En vegna þess viljum við vænta þess, að þessar till. hljóti góðar undirtektir hjá hæstv. fjmrh. og þingmeirihl.

Fjórða og seinasta till., sem við flytjum, er á þá leið, að tekinn verði upp nýr liður til námskeiða fyrir iðnverkafólk, 500 þús. kr. Það hefur oft verið vikið að því, m.a. í sambandi við EFTA–umræðurnar, hve nauðsynlegt það væri að veita iðnverkafólki okkar meiri þjálfun og aðstöðu til þess að öðlast meiri menntun í sínu starfi. Það hefur nokkuð verið rætt um þetta, m.a. í sambandi við iðnskólana og talað um að taka þar upp námskeið fyrir iðnverkafólk og sérstaklega mun það hafa verið athugað í því sambandi að efna til námskeiðs fyrir starfsfólk í fataiðnaði. Hins vegar hefur ekkert framlag verið veitt til þessarar starfsemi sérstaklega á fjárl. Ég hygg, að í þeim rekstrarkostnaði, því yfirliti yfir rekstrarkostnað, sem stjórnendur iðnskólans hafa sent til menntmrn., hafi verið gert ráð fyrir nokkru framlagi til slíks námskeiðahalds, en það ekki verið tekið upp í fjárl. né till. fjvn. um þetta efni. Þess vegna leggjum við þremenningarnir til, að þessi nýi liður verði tekinn upp, námskeið fyrir iðnverkafólk og varið verði til hans 1/2 millj. kr. Það er að sjálfsögðu ekki há upphæð, en þó sennilega nógu há upphæð til þess að unnt ætti að vera að hefja þessa starfsemi á þessu ári. En till. okkar er að sjálfsögðu þannig skorin við nögl, að við væntum þess, að þá verði auðveldara að fá hana samþ. hér á Alþ. og hún finni náð fyrir augum hæstv. fjmrh. og hæstv. stjórnarmeirihluta. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessar till. að sinni, en vænti þess, að þær fái góðar undirtektir hjá hv. alþm.