27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég er einnig farinn að hafa dálítil kynni af hæstv. flugmálarh., og ég þekki það vel, að þegar hann kemur upp í þennan ræðustól og setur upp ljómandi sakleysissvip, þá kemur einhver fullyrðing, sem er algerlega fjarstæð. Hæstv. ráðh. sagði áðan mjög sakleysislegur í framan, að því færi fjarri, að hann hefði staðið að þeim samningum, sem gerðir voru milli flugfélaganna og flugliða, eftir að þessi brbl. voru sett. Nú veit ég það fullvel, að ráðamenn flugfélaganna ræddu það mál sérstaklega við hæstv. ráðh., áður en þeir gerðu þennan samning, og fengu hjá honum samþykki til þess, því að að sjálfsögðu treystu þeir sér ekki til þess að gera slíkan samning, nema það væri gert í samvinnu við hæstv. ráðh. Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að ég hef engin gögn í höndunum til þess að sanna þessa staðhæfingu. Hins vegar vita þetta allir menn, sem eitthvað komu nálægt þessum málum. Það vita það allir, að hæstv. ráðh. tók þátt í því sjálfur, að gerðir væru samningar, sem brutu niður þau brbl., sem hann var nýbúinn að setja. Þetta framferði hjá hæstv. ráðh. er vægast sagt furðulegt og brýtur, eins og ég sagði áðan, í bága við lög.

Hæstv. ráðh. vildi vefengja það, sem ég sagði, að þau brbl., sem ríkisstj. hefði sett um lausn kjaradeilna, hefðu verið einhliða til stuðnings við atvinnurekendur, og í sambandi við þau brbl., sem hér eru til umr., setti hann upp sakleysissvip á ný og sagði, að þarna væri aðeins gert ráð fyrir því, að skipaður yrði þriggja manna gerðardómur af hæstarétti, og hvernig dytti mér í hug að halda því fram, að valinkunnir menn, sem hæstiréttur skipaði, færu að reka erindi ríkisstj. Þetta væru hlutlausir menn, sem mundu kveða upp sinn dóm af fyllstu sanngirni. Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti að vita, hvað fólst í þessum lögum, sem hann var sjálfur að setja. Í l. eru fyrirmæli til gerðardómsins um það, hvernig hann eigi að fara að því að vinna. 2. gr. laganna hljóðar svo:

„Gerðardómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara atvinnuflugmanna og flugvélstjóra miða í meginatriðum við þá samninga stéttarfélaga þeirra við Flugfélag Íslands hf. og Loftleiðir hf., sem gilt hafa, og þær launa- og kjarabreytingar, sem samið var um milli fulltrúa vinnuveitenda og Alþýðusambands Íslands 19. maí 1969.“

Þarna er gerðardómnum fyrirskipað, hvernig hann eigi að vinna. Og þetta á ég við, þegar ég segi, að ríkisstj. hlutist til um kjaradeilu og ákveði einhliða, hvernig kveða skuli upp úrskurð í samræmi við afstöðu atvinnurekenda, eins og gerist í þessu dæmi og eins og gerzt hefur í öllum dæmum, þegar ríkisstj. hefur sett lög um þessi mál. Það er einmitt sérkenni á hæstv. ráðh., þegar hann stóð hér áðan og var að tala um þennan gerðardóm, sem gæti kveðið upp úrskurð eftir sinni innstu sannfæringu án þess að þurfa að fara eftir nokkru, sem ríkisstj. segði á sama tíma og dómnum eru sett lög, sem hann verður að fylgja.

Hæstv. ráðh. talaði um það á hjartnæman hátt, að hann hefði orðið að bjarga afkomu flugfélaganna, sem væru mikilvæg fyrirtæki fyrir þjóðarbúskapinn, og ef um það væri að ræða að bjarga þeim eða hlutast til um slík málefni með löggjöf, þá mundi hann ekki hika. En málið er ekki svona einfalt. Ástæðan til þess, að þetta mál komst í harðan hnút í vor, var einmitt sú vitneskja flugfélaganna, að hæstv. ríkisstj. mundi grípa inn í deiluna með brbl. Afleiðing af slíkri vitneskju er sú, að það kemur ekki til neinna raunverulegra samninga. Ef annar aðili veit, að hann hefur vissu fyrir því, að hans málstaður geti náð fram að ganga, fæst hann að sjálfsögðu ekki til þess að semja. Flugmennirnir höfðu boðað, ef ég man rétt, tveggja daga verkfall til þess að ýta á eftir kröfum sínum. Ég man ekki betur en þeir væru veikir í tvo daga, og ég varð ekki var við, að flugfélögin færu um koll af þeim sökum.

Hins vegar vitraðist ráðamönnum flugfélaganna sú staðreynd, að það er ekki hægt að reka neitt fyrirtæki, allra sízt flugfélög, nema starfsfólkið starfi þar af sæmilega góðum hug. Á því veltur allur reksturinn, og á því veltur afkoma slíkra fyrirtækja. Sú harka, sem komin var í málin hjá flugfélögunum, var orðin mjög hættuleg rekstri flugfélaganna sjálfra, og það var af þeim ástæðum, sem þau sáu sér þann kost vænstan að semja, eftir að l. höfðu verið sett, og semja um miklu meiri árarangur en felst í þeim gerðardómi, sem var kveðinn upp í september. Það er mikill munur á þeim greiðslum, sem flugmenn fá nú í raun og veru og ákvæðum gerðardómsins. Og þess vegna er það, að hæstv. ráðh. hefur ekki gert neina tilraun til að framkvæma 6. gr. l., sem segir svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi, og skulu kaup- og kjaraákvæði í úrskurði gerðardómsins gilda frá gildistökudegi 1.“ Hæstv. ráðh. hefur ekki gert neina tilraun til þess að framkvæma þetta. Hann veit, að greiðslurnar eru mun hærri en gert er ráð fyrir í gerðardómnum, en hann reynir ekki að framkvæma l. Þessa athyglisverðu staðreynd ber hæstv. ráðh. að viðurkenna, og ég tel, að fyrst hæstv. ráðh. fæst ekki til þess að segja hér úr ræðustóli frá því, um hvað var samið í raun og veru í leynisamningunum milli flugfélaganna og flugliðanna, þá eigi sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að kanna það til hlítar og skýra svo frá því hér á þingi, hverjir þessir samningar eru í raun og veru.