30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls vakti ég athygli á því, að í kringum þessi brbl. hefðu gerzt býsna fróðlegir atburðir. Þessi lög voru sett, eins og hv. 9. þm. Reykv. minntist á hér áðan, vegna þess að flugliðar höfðu boðað verkfall í 48 stundir. Eftir að l. voru sett, gerðust þau tíðindi, að flugliðarnir urðu veikir jafnlengi og verkfallið hefði átt að standa. Auðvitað vita allir, hvað á bak við þetta var. Þarna var verið að brjóta á bak aftur þessa lagasetningu hæstv. ríkisstj. Við þurfum ekki að hafa neina tæpitungu um það. Og þetta hafði ekki aðeins þær afleiðingar, að þessi ákvæði í brbl. væru að engu gerð, heldur leiddi þetta til þess, að flugfélögin sömdu við flugliða nokkrum dögum eftir að þessi brbl. voru sett. Þau gerðu nýja kjarasamninga við flugliða með mun hærri ákvæðum um kaup og kjör en mælt er fyrir um í þessum brbl. Ég spurði hæstv. flugmálarh. um það við 1. umr. þessa máls, hverjir þeir samningar hefðu verið, um hvaða kaup hefði verið samið í raun og veru og hvaða kjör, en hæstv. ráðh. fór undan í flæmingi. Ég beindi þá þeim tilmælum til þeirrar hv. d., sem fengi málið til meðferðar, að hún aflaði sér vitneskju um þessi atriði, en af ræðum framsögumanna að dæma virðist n. ekki hafa fengið þessa vitneskju. Engu að síður skiptir þessi vitneskja verulegu máli. Við þurfum að fá að vita það hér á Alþ., um hvað var samið í kjölfar þessara brbl., vegna þess að þessi l., sem hér er lagt til að verði staðfest á Alþ., eru algert pappírsgagn, hafa ekkert annað gildi en þessi pappír, sem þau eru prentuð á, því að vinna flugmanna fer fram eftir allt öðrum ákvæðum. Það eina, sem staðizt hefur í þessum brbl., er ákvæði 4. gr.: Laun gerðardómsmanna greiðist úr ríkissjóði eftir ákvörðun ráðherra. — Þetta er hið einasta, sem staðizt hefur í þessari lagasetningu. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, vafalaust þarf ekki neina nýja lagasetningu til þess að tryggja það, að gerðardómsmennirnir fái kaupið sitt. Það tel ég alveg víst.

En þetta skiptir einnig talsverðu máli af annarri ástæðu. Í brbl. getur að líta þessa fróðlegu setningu: „Væri samið við atvinnuflugmenn og flugvélstjóra nú á grundvelli krafna þeirra, mundi raskað því jafnvægi og vinnufriði, sem komizt hafði á með hinum víðtæku samningum 19. maí þ.á.“ Þessi brbl. átti sem sé að setja til að raska ekki því samkomulagi sem gert hafði verið við verkalýðsfélögin 19. maí. Ástæðan til þess, að samningarnir voru faldir, var sú, að ríkisstj. telur og hefur lýst því yfir, að samningar flugliða séu fordæmi fyrir aðra launþega. Og þetta er yfirlýsing, sem ástæða er til þess að veita sérstaka athygli.

Nú rétt nýlega var skýrt frá því í blöðum, að gerður hefði verið samningur um kaup flugliða í sambandi við þotuflug, sem Loftleiðir hafa í hyggju að hefja á næstunni. Í þessari frétt var greint frá launakjörum, sem um hafði verið samið, og mörgum þóttu þau fróðlega há. Þau hámarkskjör, sem þar var rætt um, voru 105 þús. kr. á mánuði. Samningurinn tók til þriggja ára, og þar voru einnig ákvæði um það, að hann skyldi hækka um 5% á ársfresti. Einnig skyldi hann hækka um 5%, ef upp væri tekið flug með stærri þotum, þannig að þau hámarkslaunaákvæði, sem felast í þessu samkomulagi, eru yfir 120 þús. kr. á mánuði eða hálf önnur millj. kr. á ári. Eftir þessu verður að sjálfsögðu tekið, ekki sízt vegna þess að fyrir liggur yfirlýsing hæstv. ríkisstj. um það, að kaup flugliða sé fordæmi fyrir aðra launamenn. Þess vegna teldi ég, að það væri ákaflega fróðlegt að fá að heyra mat hæstv. flugmálarh. á því, hvaða launakröfur væri eðlilegt að gera fyrir aðra launamenn, út frá þeim samningum, sem þegar hafa verið gerðir í góðu samkomulagi við hæstv. ríkisstj. við flugliðana.

Raunar væri einnig fróðlegt af öðrum ástæðum að heyra mat þessa hæstv. ráðh., vegna þess að hann mundi tala einnig sem málsvari Sjálfstfl., en framkvæmdastjóri þess flokks hefur fyrir örfáum dögum skýrt frá kaupkröfum sínum fyrir hönd lögfræðinga í opinberri þjónustu. Þar voru bornar fram kröfur um það, að kaup lögfræðinga í opinberri þjónustu skyldi vera að lágmarki til 40 þús. kr. á mánuði, og hámarkið 110 þús. kr. á mánuði. Þessi till. var borin fram af framkvæmdastjóra Sjálfstfl., og ég dreg ekki í efa, að hann hafi ráðgazt við nánustu samverkamenn sína í flokknum um þessa kröfugerð. Einnig af þessum ástæðum væri fróðlegt að heyra mat hæstv. ráðh. á þessu atriði, og vil ég fara þess á leit við hann, að hann greini okkur frá því.