30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég taldi alveg óþarft að hafa mörg orð um þetta mál. Það eina, sem máli skiptir, er það, hvernig menn taka afstöðu til þess, hvort menn verða með því eða hvort menn sameinast um að fella það, eins og minni hl. hv. samgmn. leggur til. Málið, sem brbl. fjalla um, er löngu leyst, eins og fleiri en einn hv. þm. hefur hér upplýst, og allir í þingsalnum vita. Þess vegna er í rauninni algerlega þarflaust að samþykkja það. En vegna þess, að þetta er „prinsip“-mál, á ekki að leggja það til hliðar. Það á ekki einu sinni að leyfa því að verða sjálfdautt. Það á að fella það. Það er skylda Alþ.

Þeir, sem taka þátt í að samþykkja frv. eins og þetta, eru ekki bara að taka afstöðu til afskipta ríkisstj. af flugmannadeilunni. Þeir eru að taka undir það við hæstv. ríkisstj., að frjálsan samningarétt sé sjálfsagt að sniðganga og grípa inn í frjálsa samninga með setningu brbl. hvenær sem ríkisstj. þóknast. Þeir eru í raun og veru að vanvirða samningaréttinn, og þess vegna hlýtur að verða tekið eftir því út frá því sjónarmiði, hvaða alþm. láta setja á sig handjárn og taka þannig þátt í því að óvirða frjálsan samningarétt í landinu. Það er miklu meira, sem þeir taka afstöðu til í atkvgr. um þetta frv. en bara um þetta ómerkilega, ógilda frv., sem ekki hefur verið framkvæmt og er orðin markleysa ein út af fyrir sig.

Mér blöskraði nú kokhreysti hæstv. ráðh., þegar hann stóð hér í ræðustólnum áðan með frv. í hendinni, frv. um að grípa inn í löglega launadeilu flugmannanna. Með það í hendinni sagði hann: „Ríkisstj. hefur aldrei blandað sér í frjálsa samninga.“ Það er ekki heilsuleysið þarna.

Það er viðurkennt, að þarna hafi verið samið um há laun, en það sé vegna þess, að þessir menn séu svo mikið frá heimilum sínum. Það væri gaman að vita, hve mikið af hinu umsamda kaupi er þóknun og umbun fyrir að vera í starfi fjarri heimili sínu. Það hlýtur að vera talsverð upphæð miðað við 105 þús. kr. laun á mánuði a.m.k. En ég hygg, úr því að fengizt hefur ráðherrayfirlýsing um það, að slíkt tillit beri að taka í launasamningum, þá verði þess einhvern tíma minnzt, þegar verið er að semja fyrir íslenzka sjómenn og íslenzka farmenn, sem vissulega þurfa líka að vera fjarri heimilum sínum, stundum um langan tíma. Ég hygg, að þessara orða ráðh. verði einhvern tíma minnzt í samningum við sjómenn og farmenn.