27.04.1970
Efri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Um nál. minni hl. samgmn. um þetta mál gildir hið sama og frsm. meiri hl. tók fram um nál. meiri hl., að þau eru ekki komin fram. Í minni hl. erum við hv. 1. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Austurl. Við mælum gegn því, að frv. hljóti samþykki.

Ástæðulaust er að hafa mörg orð um þetta frv., eins og málum er komið. Það er flutt hér til staðfestingar á brbl., sem ríkisstj. gaf út hinn 18. júní 1969 til þess að stöðva það verkfall, sem flugmenn og flugvélamenn höfðu boðað þá, og ríkisstj. mat það svo, að það verkfall stefndi svo í voða þjóðarhagsmunum Íslendinga, að ekki væri annað réttlætanlegt en að koma í veg fyrir, að verkfallið kæmi til framkvæmda. Verkfallið kom að vísu til framkvæmda eigi að síður, og er nú máske ekki þörf á að rekja þá sögu hér. Það kom í framkvæmd í því formi, að flugmenn og starfsmenn flugsins voru slegnir sótt nokkurri og flugið truflaðist í nokkra daga, en engu að síður varð ekki úr þessu stór vinnustöðvun.

Nú er það svo, að ef menn meta það, hvert er kaup flugmanna, og bera það saman við aðrar starfsstéttir hérlendis, þá má auðvitað fá út þá útkomu, að þeir séu ekki sem verst settir, en þeir eiga hægara með að bera kaupgreiðslur sínar saman við kaupgreiðslur starfsbræðra sinna í öðrum löndum, og hallar þar verulega á þá.

Einkanlega verð ég þó að taka undir það, að ekki sé rétt að setja lög eins og þarna voru sett, vegna þess að þessu hefur áður þrásinnis verið beitt einmitt við þessa sömu stétt manna. Við stöndum frammi fyrir því, að ýmsir hópar í þjóðfélaginu gerast uppivöðslusamir og hávaðasamir og fara ekki að lögum í sinni baráttu. Ég mæli ekki með slíku. En ef við viljum forðast slíkt, þá verðum við líka að forðast það að höggva hvað eftir annað í sama knérunn, þannig að með lagasetningu sé komið í veg fyrir eðlilega og löglega stéttabaráttu, eins og gert hefur verið við flugmenn hvað eftir annað. Þess vegna leggur minni hl. n. til, að frv. verði fellt.