09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það er vor í lofti, og þess eru nú ýmis merki, að kosningar eru ekki langt undan. Dagblöðin okkar eru nú farin að skrifa í þá veru. Ég minnist þess, þegar ég hef litið í Alþýðublaðið, að ég hef séð, að það er meira að segja farið að skamma íhaldið í borgarstjórn Reykjavíkur öðru hverju, og það ganga um það sögur, að borgarfulltrúar, sem að sögn hefur naumast hafzt upp úr orð í fjögur ár, séu nú farnir að halda uppi hrókaræðum, og það er ekki alveg laust við það, að hæstv. ríkisstj. sé einnig að byrja að viðra kosningafötin sín. Það fór að vísu dálítið illa fyrir þeirri fallegu slaufu, sem átti nú að gera stjórnarflokkana enn fýsilegri en þeir hafa verið í augum kaupmanna. Og eins og allir vita, þá var það nú hæstv. sjútvrh., sem kom því ákvæði flokksbróður síns, viðskrh., fyrir kattarnef, eins og frægt er orðið. Þess minnumst við um afgreiðslu mála núna síðustu dagana, að það er búið að hækka ellilífeyri, það er búið að hækka hann, held ég, um 170 kr. á mánuði eða um full 5%. Mörgum þótti þetta að vísu lítið, en þetta er þó vafalaust kosningaundirbúningur. Þá er komið fram mikið frv. um húsnæðismál, og má vissulega um það margt segja, bæði til lofs og lasts, og það er auðséð á Alþýðublaðinu, ég held í fyrradag, að það á að vera eitt helzta skrautblómið í hnappagati Alþfl. við komandi sveitar- og borgarstjórnarkosningar. Það er ljóst m.a. af því, að Alþýðublaðið, opna þess og rúmlega það, er viðtal eitt mikið við hæstv. félmrh. um þetta mál. Og loks er svo komið, að hér hefur séð dagsins ljós frv. um togarakaup, og ég held ég hafi lesið það í Alþýðublaðinu í gær, að nú í dag muni birtast þar allmikið viðtal við hæstv. sjútvrh. um þetta mál. Ég efa það ekki, að þar kemur af honum falleg mynd og hann fær þar lof fyrir framtak og dugnað í þessum efnum. Eins og ég segi, þá eru þess ýmis merki, að vorið sé komið og kosningar séu í nánd.

Það er nú ekki í fyrsta sinn, a.m.k. ekki hjá hv. Alþfl. og forystumönnum hans, sem endurnýjun togaraflota er lofað fyrir kosningar og höfð um það góð orð að gera eitthvað í þeim málum. Ég held, að ég fari ekki rangt með, að um þetta hafi verið gefin fyrirheit og höfð allsterk orð fyrir tvennar síðustu kosningar a.m.k. af Alþýðuflokksmönnum. Ég held, að það hafi farið minna fyrir því hjá þeim hv. sjálfstæðismönnum. Nú er þetta mál þó lengra komið en ella. Það er nú komið í frv.-formi hér til þessarar hv. d. Ef ráða má af því, að áhugi hv. Alþfl. eða forystumanna hans á því að endurnýja togarana birtist aðeins fyrir kosningar, ef það verður hin almenna regla, eins og virðist nú hafa verið núna fyrir tvennar síðustu kosningar og þá í þriðja sinn núna, þá sýnist mér, að miðað við það og miðað við þetta frv., sem fjallar um heimild til þess að kaupa sex togara, þá reiknast mér til, að ef ætti að endurnýja togaraflotann svona á eðlilegan máta, þá þurfi að kjósa ekki sjaldnar en tvisvar á ári, bæði vor og haust, ef það ætti að takast, að eitthvað yrði gert, svona fyrir þriðju hverjar kosningar.

Það er vissulega ástæða til þess af þessu tilefni, að frv. um togarakaup er nú loksins lagt fram, að rekja sögu togaraútgerðarinnar nokkuð og það dálítið ítarlegar en hæstv. sjútvrh. gerði. A.m.k. suma þætti hennar ætti að rekja öllu betur en hann gerði í framsögu sinni og þá ekki sízt sögu síðustu 10–12 áranna, þá hrakfallasögu, þegar togurunum hefur stöðugt verið að fækka og útgerð þeirra verið að dragast saman. Ég ætla nú samt að láta það farast að mestu fyrir að þessu sinni. Það hefur verið gert oft áður, og m.a. gerði ég það hér fyrr á þessu þingi, og læt ég það að mestu leyti nægja, sem áður hefur verið sagt um það efni. Þó get ég ekki látið hjá líða að minna á það, að öll þessi ár, þegar togurunum hefur stöðugt verið að fækka og þeir að eldast og úreldast, sem til hafa verið, þá höfum við Alþb.-menn, bæði hér á Alþ., í borgarstjórn Reykjavíkur og annars staðar, þar sem tök hafa verið á og þessi mál hefur borið á góma eðli málsins samkvæmt, flutt frv. og till. um það, að togaraflotinn verði endurnýjaður, og bent á, að það verði ekki gert nema að frumkvæði ríkisvaldsins og með meiri eða minni tilstyrk þess, enda þótt aðrir aðilar kæmu gjarnan til greina til þess að reka togarana. Lengi var það svo, að það var hreint og beint ekki á okkur hlustað. Við lögðum hér fram till. og frv. Þeim var í bezta falli vísað til n. umræðulaust fyrir utan það, sem við sögðum við 1. umr., og síðan lágu slík mál í n., og þau fengust aldrei afgreidd.

Smám saman breyttist þetta að vísu, og þó einkum eftir að farið var að þrýsta á af ýmsum aðilum og menn fóru að finna til þess víða, þar sem togararnir höfðu verið verulegur þáttur í því að tryggja varanlega atvinnu, að það væri nauðsynlegt að fara að endurnýja flotann. Það var líklega fyrir fjórum árum, sem fyrst fengust nokkrar umr. um þessi mál til að mynda hér á þingi, og þá minnist ég þess, að hæstv. núv. sjútvrh., sem var nýlega tekinn við ráðherradómi, lét í það skína og skýrði frá því, að það væri ætlun ríkisstj. að taka einn nýjan eða nýlegan skuttogara á leigu til reynslu og sjá, hvernig það gæfist hér við íslenzkar aðstæður. Síðan var frá því skýrt, að það hefði verið hætt við þetta, vegna þess að enginn heppilegur skuttogari hefði þá fengizt á leigu til skamms tíma, en það þótti, að því er virtist, ókleift að taka þótt ekki væri nema eitt skip á leigu, nema um skamman tíma væri að ræða. Síðan var um það rætt og gefnar jafnvel um það út tilkynningar, að ætlunin væri að kaupa til landsins einn nýlegan skuttogara. Úr þessu varð einhverra hluta vegna ekki neitt. Enginn slíkur togari var keyptur, eins og hv. alþm. er kunnugt.

Þá gerðist það loks, rétt fyrir síðustu alþingiskosningar fyrir tæpum þremur árum, að hæstv. sjútvrh. skipaði þá skuttogaranefnd, sem hann gerði grein fyrir hér áðan og síðan hefur starfað. Ég vil ekki og skal ekki fara mörgum orðum um störf þeirrar n., mér eru þau ekki svo kunn. Hitt held ég, að öllum sé ljóst, að störf hennar hafa gengið býsna hægt, og ég kenni þar ekki sérstaklega um nm., sem ég veit, að eru hinir mætustu menn og þekkja vel til þessara hluta. Ég tel, að sökin sé ríkisstj., hún hafi ætlazt til þess og beinlínis jafnvel lagt það fyrir, að þessi n. starfaði með þeim hætti, sem hún hefur gert, færi að láta teikna togara hér heima o.s.frv., þannig að núna, eftir þriggja ára störf, er kannske fyrst að koma einhver árangur í ljós, þegar henni er falið að láta bjóða út þessa sex togara, sem hér er um að ræða. Það er enginn efi á því, að þessi n. hefði starfað af meiri krafti og skilað fyrr af sér, ef ríkisstj. hefði ætlazt til þess, að hún gerði það. Ég fullyrði, að sökin er ríkisstj. fyrst og fremst og sennilega eingöngu hennar.

Nú er þetta frv. loks komið hér fram. Það er, eins og þegar er kunnugt, þess efnis, að heimilt sé að láta smíða allt að sex skuttogara og þeir verði síðan seldir einstaklingum eða félögum eða bæjar- og sveitarfélögum. Í sjálfu frv. er ekki ákvæði um stærð þessara skipa. Hins vegar segir í aths., að lengd þeirra skipa, sem óskað hefur verið eftir tilboðum í, sé um 59 m. Þetta segir e.t.v. ekki nægilega mikið, en ég býst við og mér hefur skilizt á þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér, að hér sé um 1000–1100 tonna skip að ræða, eitthvað á því bili. Þeir aðilar, sem ég hef helzt fengið einhverja fræðslu frá um þessi efni, segja, að hugsunin á bak við þessi kaup á sex skuttogurum sé sú, að Bæjarútgerð Reykjavíkur muni koma til með að eiga kost á tveimur af þessum skipum, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar muni koma til með að eiga kost á einu af þessum skipum, Útgerðarfélag Akureyrar muni eiga kost á einu þeirra og útgerðarfélag ungra manna, Sverris Hermannssonar o.fl., muni svo eiga kost á tveimur af þessum sex skipum. Þannig er mér tjáð, að þessi sé í grófum dráttum hugmyndin í sambandi við það, hvernig þessum skipum verði úthlutað og ráðstafað, þegar þar að kemur.

Nú er það svo, að á annan áratug hefur ekki verið keyptur einn einasti nýr togari til landsins, og við eigum engan skuttogara, eins og kunnugt er. Það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það hjá þeim mönnum, sem hafa rætt um togaraútgerð og kynnt sér þau mál, hvaða stærðir skuttogara væru álitlegastar og mundu henta á hinum ýmsu stöðum. Hefur sérstaklega verið rætt um þrjár stærðir eða gerðir skuttogara. Í fyrsta lagi hefur verið rætt um togara af þeirri stærð, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. 1000–1100 tonna skip, og ég býst við, að það sé rétt, að bæði Bæjarútgerð Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og e.t.v. fleiri hafi helzt sýnt áhuga í sambandi við skip af þeirri stærð. En eins og kunnugt er hafa ýmsir, sem hafa kynnt sér þessi mál, talið, að full ástæða væri til og mikil þörf á, að við Íslendingar eignuðumst til reynslu, þótt ekki væri nema einn stóran togara, sem væri fullfær um veiðar hvar sem væri, skip, sem stundum eru kölluð til hægðarauka verksmiðjuskip, þ.e.a.s. þannig að þau geti nýtt allan aflann um borð, fryst og flakað og annað slíkt. Hér er um að ræða sennilega 2700 tonna skip, sem margir hafa trú á að geti gefið góða raun í rekstri, og er full ástæða til að taka undir það, að það er mikil nauðsyn, að við fáum eitt slíkt skip til reynslu. Ég tel, að í ræðu hæstv. ráðh. hafi m.a. komið fram ein sterkasta röksemdin fyrir því, að við þurfum einnig að koma okkur upp slíku skipi eða, ef vel gengur, slíkum skipum. Sú röksemd var á þá leið, að allra hluta vegna, eins og nú er ástatt um fiskgöngur, þá þurfum við Íslendingar einmitt að skapa okkur sem allra tryggasta og öruggasta aðstöðu til þess að hafa siðferðilegan rétt til fiskveiða, ekki aðeins hér á okkar heimamiðum, heldur líka á fjarlægum miðum.

Síðast en ekki sízt, í sambandi við stærðir togskipa er þess að geta, að ýmsir staðir, sérstaklega á Norður- og Austurlandi, þar sem hefur verið og er langtímum saman a.m.k. verulegur skortur á hráefni í hraðfrystihúsin, hefur verið og er mikill áhugi á togurum af minni gerðum en þeim tveimur, sem þegar hefur verið um rætt. Þar er verulegur áhugi á 400–500 tonna skuttogurum, sem margir telja, að henti einmitt vel á þessum stöðum og geti leyst vanda, sem þar er fyrir hendi. Ég hygg, að á Siglufirði hafi verið og sé verulegur áhugi, — á Sauðárkróki mun hann hafa verið og á Austfjörðum og trúlega víðar, einmitt á skipum af þessari stærð.

Þeir aðilar, sem nú a.m.k. í heilt ár og kannske lengur hafa haft áhuga á því að afla sér skuttogara af einhverjum þessara stærða, hafa þrýst á hæstv. ríkisstj., og það er vitað, að hér hafa verið sendinefndir, ein á fætur annarri, til þess að reyna að fá einhver ákveðin svör frá ríkisstj., um hvaða fyrirgreiðslu af opinberri hálfu kynni að vera að ræða í sambandi við þessi mál. Þessar sendinefndir hafa yfirleitt farið heim með heldur lítil svör, og það er í rauninni ekki fyrr en nú eftir áramót, að einhver svör hafa komið, og þau eru þá, að því er ég bezt veit, bundin við þessa einu stærð skuttogara, 1000–1100 tonna skip, en alls ekki við skip af öðrum stærðarflokki, hvorki 400–500 tonna né 2700–3000 tonna skip.

Ég staðhæfi og tel, að ég hafi fyrir því góð rök, að sá algerlega óeðlilegi og óafsakanlegi dráttur, sem hefur orðið á því að hefjast handa í þessum málum, eftir að verulegur áhugi varð á þessu, hafi skaðað okkur Íslendinga um stórfé. Ef við hefðum getað samið um nokkuð, þótt ekki hefði verið nema um sex skip, fyrir ári, þá hefðum við náð til mikilla muna hagstæðari kjörum en nú munu bjóðast. Ástæðan er m.a. sú, að á þessu eina ári hafa skip hækkað verulega á heimsmarkaði m.a. og ekki sízt vegna mjög mikillar hækkunar á stáli. Ég hef nú ekki handbærar tölur um þetta efni, en mér er tjáð, að hér sé um svo mikla hækkun að ræða, að það sé ekki fjarri lagi, að hún komi til með á svo sem einu ári að nema 10–15 millj. kr. á skip af þessari stærð. Ef þetta reynist rétt, þá höfum við með þessum síðasta ársdrætti tapað, miðað við kaup á þessum sex skipum, svo sem 60–90 millj. kr. Þannig getur farið þegar áhuginn hjá hæstv. ríkisstj. er ekki meiri, að því er virðist, en raun ber vitni.

Það er e.t.v. ástæðulaust að fara út í það, hvers vegna þessi seinagangur hefur verið á hlutunum, eftir að málin voru þó loksins að þokast í þá átt, að hæstv. ríkisstj. sagðist ætla eitthvað að fara að gera í þessum málum, eitthvað að fara að sinna þeim. Ég vil aðeins undirstrika það, að óánægjan með allan þennan seinagang er mikil og hún er sízt af öllu bundin við okkur stjórnarandstæðinga. Hún er mikil meðal margra áhugamanna í stjórnarflokkunum og þá alveg sérstaklega í flokki hæstv. sjútvrh. Ég hygg, að það sé ungur maður, sem skrifar í blað ráðh., Alþýðublaðið, fastan þátt um sjávarútvegsmál, þar sem hann bæði segir ýmsar fréttir og bollaleggur oft og tíðum um þau mál. Þessi ungi maður heitir Pétur Axel Jónsson, og hann hefur stundum rætt allhressilega um seinaganginn í þessum málum. Til að mynda skrifar hann um þessi togaramál s.l. haust, hinn 22. okt., og þótt hann tali þar í þessari grein sinni um stjórnmálamenn almennt, þá held ég, að það fari varla á milli mála, við hverja hann á þar, og ég býst við, að skeytið, sem þar var sent, hafi alveg örugglega komizt til skila. Þessi trúnaðarmaður Alþýðublaðsins um sjávarútvegsmál komst nefndan dag svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Togarakaup eru stanzlaust á dagskrá, sem vonlegt er. Stjórnmálamennirnir eru búnir að sitja í nefndum, frá því maður man eftir sér, og enn er lausnin ekki nema afturkreistingur um nákvæma yfirvegun, flana ekki að neinu o. s. frv. Ég held satt að segja, að þeir ættu að taka sig saman í andlitinu og eyða eins og einum til tveimur dögum til að kaupa togara.“

Hæstv. sjútvrh. og samráðherrar hans í ríkisstj. hafa nú loks tekið sig saman í andlitinu og ætla að fara að standa fyrir togarakaupum. Vissulega fagna ég þessu, svo langt sem það nær. En ég verð að segja það, að eftir eins langan meðgöngutíma og hér er um að ræða, þá gerði ég nú satt að segja ráð fyrir, að afkvæmið yrði dálítið hressilegra en raun ber vitni. Ég hef þegar lýst því nokkuð, að áhugamenn um endurnýjun togaraflotans og menn, sem hafa kynnt sér togaramál, eins og þau gerast nú hjá þeim þjóðum, sem hafa endurnýjað sinn togaraflota, hafa rætt um þessi mál, og skoðanir hafa verið dálitið skiptar. Þeir hafa rætt fyrst og fremst um þrjár stærðir togara, sem allar geta hentað við mismunandi aðstæður og á ýmsum stöðum. Skoðun mín er sú, að hér hafi dregizt svo lengi að hefja endurnýjun togaraflotans, að við þurfum og það á mjög skömmum tíma að hagnýta allar þessar skipastærðir. Þá á ekki að setja dæmið þannig upp, að kaup á einni tegund skuttogara útiloki það, að skip af annarri stærð verði einnig keypt. Við þurfum vissulega, að því er ég tel, að kaupa eitthvað af skipum af þessari stærð, sem hér um ræðir, 1000 tonna skip. Það eru skip af svipaðri stærð eða lítið eitt stærri en stærstu og nýjustu togararnir okkar, en vissulega verða það öflugri skip og á margan hátt vonandi hentugri. Þessi skip geta fiskað hér við land, þau geta fiskað við Grænland og Nýfundnaland, en það er yfirleitt gert ráð fyrir því, að þau sigli með afla sinn ýmist til vinnslu hér eða til sölu á erlendan markað. Ég er dálítið smeykur um það, að í sambandi við skip af þessari stærð verði freistingin of mikil til þess að sigla með aflann, ef um gott verð er að ræða í Bretlandi og Þýzkalandi, einkum þar sem bæjarfélög hafa ekki verulega hönd í bagga um útgerðina og geta þá ekki metið það frá sjónarmiði bæjar- eða sveitarfélags, hvort hentugra sé að láta skipin sigla og fá kannske allverulega hærra verð eða láta þau leggja upp til vinnslu og fá þar eitthvað lægra verð, en tryggja þá atvinnu, sem oft er vissulega mikil þörf á. En ég hef sízt á móti því og tel full rök fyrir því, að keypt séu skip af þessari stærð. En ég vil leggja áherzlu á, að það á ekki að láta þar við sitja og það á alls ekki að útiloka það, að jafnhliða séu til reynslu keypt skip af þeim öðrum stærðum, sem áhugi er fyrir og ég hef þegar vikið nokkuð að.

Þá skal ég víkja stuttlega að þeim kjörum, sem ríkisvaldið ætlar að tryggja þeim aðilum, sem hyggja á skuttogarakaup. Þar er, eins og hæstv. ráðh. hefur þegar skýrt frá, fyrst og fremst um að ræða 80% ríkisábyrgð fyrir láni, sem væntanlega tekst að fá, ef skipin verða smíðuð erlendis, sem mér skilst að sé ætlunin, og e.t.v. var ekki um annað að ræða að svo komnu máli til þess að fá þessi skip tiltölulega fljótt. Þá verður um að ræða erlend lán, sem þessu svarar, og þá náttúrlega ríkisábyrgðin mjög mikilvæg og eiginlega alger undirstaða þess, að nokkur geti ráðizt í slík skipakaup. Jafnframt er svo gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að lána úr ríkissjóði eða leggja fram allt að 7.5% af byggingarkostnaði skipanna og það sé framlag, sem ekki þurfi að greiða neina vexti af. Þetta sé lán, að vísu með nokkuð óvenjulegum hætti, sem ekki þurfi að greiða af neina vexti og ekki þurfi að greiða upp, fyrr en öll önnur lán af viðkomandi skipi hafa verið að fullu greidd. Út af fyrir sig hef ég ekki margt við þetta að athuga, ef sú fyrirgreiðsla nægir, sem hér er um að ræða. Ég tel, að það sé svo mikið atriði að fá skip, skuttogara, og fá þau gerð út héðan með myndarlegum hætti, að það eigi ekki að ráða úrslitum, hverjir það eru eða hvaða rekstrarfyrirkomulag það er, sem tekur við skipunum. Þó tel ég hins vegar, að togararekstur á félagslegum grundvelli sé að mörgu leyti eðlilegur og geti þjónað ýmsum bæjarfélögum bezt. En aðalatriðið er þó að fá skipin og þau verði gerð út af myndarskap.

Ég dreg ekki dul á það, að mér heyrist á ýmsum flokksbræðrum mínum, að þeir telji óeðlilegt, að til að mynda útgerðarfélag, sem einstaklingar eiga, njóti slíkrar fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins eins og þeirrar, sem hér er fyrirhuguð, þ.e.a.s. þetta lán, sem svarar 7.5 hundraðshlutum af kaupverði, sem ekki þurfi að greiðast fyrr en býsna seint, og er jafnvel talað í þessu sambandi um gjafir til einstaklinga. Nú ætla ég, að það sé rétt, þegar litið er á sögu sjávarútvegsins, að þótt því sé ómótmælt, að hann hafi staðið alla tíð eða lengst af undir meginþorra gjaldeyrisöflunar okkar, þá hefur það sjaldan í seinni tíð verið neinn öruggur gróði að leggja áhættufé í sjávarútveg, og á það við um togaraútgerð engu síður en aðra, því miður. Fé, sem í útgerð er lagt, er yfirleitt verulegt áhættufé, því er ekki að leyna. En þrátt fyrir það er brýn nauðsyn að skipin séu gerð út. Ég sé því ekki neitt athugavert við það í sjálfu sér, að að því sé stuðlað af hálfu ríkisvaldsins, að togarar verði keyptir og gerðir út, jafnvel með einhverju svipuðu fyrirkomulagi og hér er gert ráð fyrir. Þó skal ég taka það fram, að margra hluta vegna tel ég eðlilegt, að þegar ríkisvaldið er að stuðla að endurnýjun togaraflotans, þá láti það bæjarútgerðir og aðra útgerðarstarfsemi, sem rekin er á félagslegum grundvelli, ganga fyrir um fyrirgreiðslu. Og ástæðurnar eru fyrst og fremst þær, að það má ætla, að útgerðir, reknar, eins og ég orða það, á félagslegum grundvelli, líti meira á hinn almenna hag viðkomandi bæjarfélags en einstaklingarnir, sem eru að gera út. Með útgerð á félagslegum grundvelli á ég við útgerðarfyrirkomulag, sem ég tel, að geti í ýmsum tilfellum gefið góða raun og hafi raunar gert það. Það er hlutafélagsútgerð, þar sem bær og hugsanlega ríki væru aðalhluthafarnir eða stærstu hluthafarnir, en einstaklingar, sem ýmist eru tengdir sjávarútvegi eða áhuga hafa á sjávarútvegi, eru einnig með í slíku útgerðarfélagi. Dæmi um þetta form hygg ég að sé Útgerðarfélag Akureyrar, þar sem Akureyrarbær á verulegan þátt í og verulegan hluta af hlutafénu, og þá fyrirtæki, opinber og hálfopinber, og einstaklingar líka. Ég tel, án þess að ég vilji fara á þessu stigi máls út í einstök atriði, að það hefði komið og kæmi vissulega mjög til mála, og e.t.v. væri rétt að flytja um það brtt. við þetta frv., að útgerð, sem rekin verður á félagslegum grundvelli, þ.e.a.s. bæjarútgerð eða útgerð, þar sem bæir og ríki eru stórir hluthafar, fái meiri ríkisstuðning en hér er ráðgerður. Þá verði það jafnframt athugað mjög alvarlega, hvort sá stuðningur eigi þá ekki að vera beinlínis í formi hlutafjárframlags af ríkisins hálfu. Og raunar finnst mér, að sú spurning vakni, þegar að því kæmi að styðja jafnframt einstaklinga, t.a.m. hlutafélög, sem einstaklingar standa að, til þess að eignast og reka togara, hvort þetta fyrirkomulag gæti þá ekki verið að flestu leyti heppilegra og jafnvel viðfelldnara en þetta lánsfyrirkomulag, þar sem í rauninni virðist nú ekki gert ráð fyrir því, að lánið verði endurgreitt, þ.e. að um verði að ræða beint hlutafjárframlag eða ríkið bjóði viðkomandi aðilum að leggja fram til að mynda 7.5% af kaupverði skipsins beinlínis sem hlutafé, sem áhættufé í þessari óneitanlega áhættusömu útgerð. Ég varpa þessu fram, án þess að ég sé á þessu stigi máls ráðinn í því að bera fram slíka brtt., en í fljótu bragði sýnist mér, að þetta fyrirkomulag komi mjög til greina margra hluta vegna og sé á ýmsan hátt viðfelldnara form en hitt, sem nú er fyrirhugað.

Eins og ég hef þegar rætt nokkuð, þá er það greinilegt á aths. við lagafrv., þó að ekki sé það sagt berum orðum í frv. sjálfu, að hér er aðeins um að ræða eina stærð skipa, togara á bilinu frá 1000–1100 tonn. Ég spyr þess vegna hæstv. sjútvmrh.: Hvað er fyrirhugað af hálfu ríkisstj. um stuðning við aðrar stærðir togskipa? Hvað er fyrirhugað í sambandi við 400-500 tonna togarana, sem ýmsir útgerðarstaðir á Norður- og Austurlandi hafa sýnt mjög eindreginn áhuga á? Fá þessir aðilar enga áheyrn, eða er gert ráð fyrir, að þeir fái sömu fyrirgreiðslu og þeir aðilar, sem hafa hug á að kaupa 1000 tonna skipin? Og enn fremur vil ég spyrja: Hefur hæstv. ríkisstj. gert það upp við sig, hvort hún hyggst veita þeim aðilum stuðning, sem hafa sýnt mjög verulegan og lofsverðan áhuga á því að leggja áhættufé í kaup á stórum úthafstogara? Ég á þar við þá aðila, sem hafa stofnað Úthaf h.f. til þess að kaupa 2700 tonna togara. Þessir aðilar hafa þegar safnað nokkrum millj. kr. í hlutafjárloforðum og telja sig geta náð verulega miklu meira hlutafé, ef um væri að ræða stuðning frá ríkisvaldinu, sem gæti verið með ýmsum hætti, til að mynda með beinni þátttöku, beinu hlutafjárframlagi af hálfu ríkisins eða þá svipuðu ábyrgðarhlutfalli og um ræðir hér í frv. Ellegar skilst mér, að forgöngumenn þessa máls gætu hugsað sér og teldu engan veginn ómögulegt, að hægt yrði að festa kaup á slíku skipi, ef ríkisábyrgð fengist fyrir 90% byggingarkostnaðar. Ég tel, að þetta mál eigi að sjálfsögðu að athuga gaumgæfilega, og þykir raunar ótrúlegt, ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki þegar um það fjallað og gert upp hug sinn til þess.

Þrátt fyrir það, sem ég sagði hér í upphafi míns máls um kosningar í nánd og kosningaskap og jafnvel það, að ég gaf í skyn, að hér væri um kosningamál að ræða, þá fagna ég því vissulega, að loksins er þó hafizt handa um að endurnýja íslenzka togaraflotann, enda þótt ég telji það mjög ámælisvert, hversu seint er hafizt handa, og ég telji það óneitanlega bera vott um lítinn stórhug og litla framsýni, ef það er ætlunin að láta nú um sinn við það sitja að kaupa e.t.v. aðeins þessi sex skip, þessa einu gerð af togurum. Að mínu viti er hér um að ræða hvort tveggja, að eftir svo margra ára eymdartímabil í sambandi við uppbyggingu togaraflotans eru þessi skip allt of fá, og það eru allt of fáar tegundir eða stærðir skipa. Frv. það, sem við Alþb.-menn fluttum á öndverðu þessu þingi, fjallar um kaup á 15 togurum af þremur mismunandi stærðum. Ég minni aðeins á, að þetta er það, sem við teljum, að þurfi að gera. Það þurfi nú að gera stórátak í endurnýjun togaraflotans. Það hafi dregizt svo lengi, að ekkert minna dugi. Og við leggjum áherzlu á, að við teljum, að með því að ákveða að kaupa nokkur skip af einni þeirra þriggja stærða skipa, sem um hefur verið rætt, þá eigi það á engan hátt að útiloka, að ráðizt verði einnig nú þegar eða hið allra fyrsta í kaup á skipum af hinum stærðunum.

Ég skal svo, herra forseti, fara að stytta þetta mál mitt mjög. Þar sem gert er ráð fyrir, að þetta mál fari til þeirrar n., sem ég á sæti í, sjútvn., á ég þess kost að fjalla frekar um málið og flytja eða standa að brtt. í þá átt, sem ég hef nú þegar um rætt. Það er í fyrsta lagi um kaup á fleiri togurum og fleiri stærðum togara og e.t.v. einnig um breyttan stuðning ríkisvaldsins, til að mynda á þann veg, sem ég áður vék að, að um yrði að ræða framlag í formi hlutafjár og þá væntanlega hærra en ella, þegar um væri að ræða útgerð á félagslegum grundvelli, en um þetta skal ég ekki fara fleiri orðum að sinni.

Við hæstv. sjútvrh. vil ég svo að lokum aðeins segja þetta: Ég hefði vel getað unnt hæstv. ráðh. þess, að saga hans og saga íslenzkrar togaraútgerðar hefði á undanförnum árum getað tvinnazt svolítið skemmtilegar saman en orðið hefur fram að þessu. Þó að mér þyki þetta frv. heldur smátt í sniðum, eins og allt er í pottinn búið, þá er það þó fyrsti sýnilegi vottur þess, að sú saga geti orðið ánægjulegri, bæði hæstv. ráðh. og íslenzkum sjávarútvegi, en hún hefur verið fram að þessu.