09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Með tilkomu togaranna á sínum tíma varð í raun og veru bylting í atvinnulífi Íslendinga. Togaraútgerðin varð undirstaða nýrra framfara, og sannleikurinn er sá, að æ síðan hefur togaraútgerðin, þó að hún hafi gengið misjafnlega á einstökum tímum, verið sterkasta stoð íslenzks atvinnulífs. Það er hins vegar kunnara en frá þurfi að segja, að það hefur verið lægð í togaraútgerðinni undangenginn áratug. Það hefur ekki átt sér stað sú endurnýjun á togaraflotanum, sem nauðsynleg er, og þarf alltaf að gerast með sem jöfnustum hætti. Þessir togarar, sem nú eru flestir a.m.k. gamlir og úreltir, eru ekki sambærilegir við þá nýtízku togara, sem nú þekkjast hjá öðrum þjóðum. Á þessu þarf að verða breyting, og það hefur verið ljóst lengi, að hér þyrfti að gera stórátak. En því miður hefur ekki orðið af framkvæmdum í því efni. En þó er það svo, að það var, eins og rakið hefur verið, skipuð sérstök n., svokölluð togaranefnd eða skuttogaranefnd, á öndverðu ári 1967 til þess að fjalla um þessi mál, og það má segja, að það sé árangur af hennar starfi, sem hér liggur fyrir í þessu frv. Ég get nú tekið undir með hv. síðasta ræðumanni um það, að mér eru að sjálfsögðu ekki kunn störf þessarar togaranefndar. En ég vil nú ætla, að hæstv. ráðh. hafi verið fullur áhuga í þessum efnum, og mér finnst nú eiginlega eðli málsins samkvæmt, að svo hljóti að vera, að maður í hans stöðu ætti að hafa haft þetta sem sitt brýnasta áhugamál. Og þó að ég geti ekki og hafi ekki aðstöðu til að meta eða dæma störf þessarar n., þá verð ég að segja það, að það hefur verið að minni skoðun alveg ótrúlegur seinagangur á störfum hennar, hverjum svo sem það er um að kenna. Vafalaust hafa þeir verið að teikna eða láta teikna og gera rekstraráætlanir. Það er vissulega ágætt og þarf auðvitað að gerast. En manni sýnist, að það hefði mátt afgreiða það mál á skemmri tíma en raun ber vitni, og það er staðreynd, að sá dráttur, sem á þessu hefur orðið, veldur okkur óhjákvæmilegu tapi. Auðvitað er ágætt að vera með rekstraráætlanir, og auðvitað er ágætt, að allt beri sig, og reikna það út fyrir fram. En sannleikurinn er sá, að þetta er í raun og veru einfaldara mál, af því að spurningin um það, hvort við Íslendingar eigum að eignast skip, og spurningin um það, hvort við Íslendingar eigum að gera út; er í raun og veru spurningin um það, hvort við eigum að lifa í þessu landi. Allt annað í sambandi við það er bókfærsluatriði í raun og veru. Og hvað sem allri rekstrarafkomu liður á hverjum tíma, þá er þetta staðreyndin, sem við verðum að horfast í augu við, að við komumst ekki af í þessu landi nema hafa nægilegan skipastól og útgerð sé rekin hér.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hver nauðsyn er á togaraflota. Það er nú í fyrsta lagi, að það er nauðsyn á togaraflota til þess að afla hráefnis til vinnslu í fiskvinnslustöðvunum, og fiskvinnslustöðvarnar hér á landi eru orðnar margar, sem betur fer, en þær eru hvergi nærri allar fullnýttar og er langt frá því. Atvinnuleysi það, sem á sér stað víða um landið og ekki sízt í sjávarplássum úti um landið, stafar að nokkru leyti af því, að fiskvinnslustöðvarnar á hverjum stað geta ekki gengið með eðlilegum hætti og hafa ekki hráefni til þess að vera fullnýttar. Sannleikurinn er sá, að ef nægilegs hráefnis er aflað til þeirra og það er full vinna í þeim, þá er atvinnulífi á mörgum stöðum sæmilega borgið. Slík undirstöðugrein eru fiskvinnslustöðvarnar. En á þessu hefur orðið mikill misbrestur. Hráefni hefur víða skort. Nú má fara ýmsar leiðir til þess að afla hráefnis til þessara stöðva, og sjálfsagt er það svo, að mismunandi stærðir af skipum henta á hinum ýmsu stöðum. En ég hygg samt sem áður, að það verði að horfast í augu við þá staðreynd, ef á að reyna að tryggja nokkurn veginn öruggt hráefni allan ársins hring í fiskvinnslustöðvunum, þá þurfi á togaraútgerð að halda eða a.m.k. á útgerð stærri skipa en við höfum nú, skipa, sem geta sótt veiðar allan ársins hring, og skipa, sem geta sótt lengra en á grunnmiðin. Þetta er frumskilyrði, og þetta er náttúrlega eitt stærsta vandamál okkar nú, það er að tryggja atvinnuöryggi, og það verður með skjótum hætti ekki gert betur en með því að efla fiskiskipastólinn og í því er togaraflotinn einn meginþáttur.

En auk þess er nýtízkutogarafloti alveg nauðsynlegur til þess að nýta fiskimiðin í kringum þetta land og til þess að nýta líka fiskimiðin, sem fjær liggja, því eins og hér hefur verið bent á, ef ekki við nýtum þau fiskimið, þá gera það aðrir. Það er mjög hættulegt, það getur dregið dilk á eftir sér, m.a. í þeirri samkeppni og þeirri baráttu, sem verður um fiskimiðin. Það má búast við, að þá komi ýmiss konar skipting til greina í framtíðinni, og þá er það auðvitað höfuðatriði, að við höfum ekki látið undir höfuð leggjast að sækja á þessi mið, heldur að við getum stutt kröfur okkar við söguna að því leyti til, að við getum sýnt fram á, að við höfum sótt á miðin og nýtt þau.

Auðvitað er svo nýtízkutogarafloti nauðsynlegur til þess að sigla með aflann, því að jafnframt því, sem þarf að tryggja hráefni hér innanlands, þá þarf að kappkosta, að þeir markaðir, sem völ er á erlendis og við höfum átt aðgang að, séu nýttir, og það má ekki með nokkru móti láta undir höfuð leggjast. Þess vegna er það auðvitað höfuðnauðsyn að endurnýja þann togaraflota, sem nú er orðinn gamall og úreltur, og gera það á þann hátt að fá nýtízkutogara, og það á að auka togaraflotann eftir því, sem tök eru á.

Það hefur í mínum augum verið algerlega ljóst um skeið, að eins og afkomu togaraflotans hefur verið háttað að undanförnu, þá hefur ekki verið nein von til þess, að togaraflotinn yrði endurnýjaður, nema atbeini og aðstoð hins opinbera kæmi til í einhverri mynd. Menn hafa horfzt í augu við þá staðreynd um lengri tíma. En það hefur ekki, því miður, verið hafizt handa. Ég má aðeins minna á það hér, að við framsóknarmenn hér í þessari hv. d. fluttum á öndverðu þessu þingi frv. um togaraútgerð ríkisins og stuðning við hlutafélög, sem sveitarfélög eru aðili að, til skipakaupa. Þetta frv. hefur nú verið að veltast í sjútvn. allan þennan tíma, og má segja, að það sjái kannske fyrir endann á þeirri veltu, þar sem minni hl. hefur skilað áliti um það mál og leggur til, að þetta frv. verði samþ., en enn hefur nú ekki verið skilað áliti af hálfu meiri hl., en ætla má, að hann leggi til, að því frv. verði vísað til ríkisstj. En eins og menn minnast, er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að hafin sé ríkisútgerð togara. Það er þó ekki svo, að við framsóknarmenn séum sérstakir talsmenn ríkisrekstrar, en við teljum, að eins og komið er, verði þessi mál ekki leyst nema með atbeina ríkisvaldsins, og það er frá okkar sjónarmiði ekki aðalatriði, hvernig sá atbeini kemur til. Þeir einkaaðilar eða félagsútgerðir, sem hafa staðið að togaraútgerð til þessa, hafa ekki bolmagn, eins og nú stendur, til þess að endurnýja togaraflotann upp á eigið eindæmi. Þess vegna gerðum við ráð fyrir því, að ríkið keypti togara, ekki tiltekna tölu, heldur eftir því, sem þörf væri á og ástæður leyfðu. Það var þó ekki mark okkar og mið, að sú togaraútgerð ríkisins stæði um aldur og ævi, heldur einmitt er í okkar frv. gert ráð fyrir því, að togarar þeir, sem ríkisútgerðin þannig eignast, séu seldir fiskvinnslustöðvunum og öðrum aðilum, þegar þeir hafa bolmagn til þess að kaupa þá, þó svo, að ríkisútgerðin eigi aldrei færri en fjóra togara, og þeir fjórir togarar eru hugsaðir sérstaklega til atvinnujöfnunar. En það er einmitt mjög mikil þörf á því að hafa tæki til þess að miðla hráefni þannig. Menn eru með ótrú á þessu og alls konar fordóma, en ég gef satt að segja ekkert fyrir það. Og það er í raun og veru ekkert nema órökstuddir sleggjudómar, sem menn færa fram gegn því, eins og það, að skip geti ekki landað á fleiri stöðum eða skip þurfi að vera bundið við einhvern ákveðinn útgerðarstað. Það eru ekkert annað en bábiljur.

En jafnframt vil ég minna á, að það var og er ekki veigalítið atriði og ekki kannske í raun og veru veigaminna atriði í okkar frv. að gera ráð fyrir því, að ríkið styrki skipakaup þeirra félagsútgerða, sem sveitarfélög eru aðilar að, með því að kaupa hlutabréf í þeim og gera þessum útgerðum þannig kleift að eignast skip. En víða um landið er einmitt sérstakur áhugi á því á ýmsum útgerðarstöðum, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Reykn., rakti hér í sinni ræðu. En það er eins og víðar, að þó að vilji sé fyrir hendi, þá vantar getuna. Og ég hygg, að í mörgum stöðum sé þannig ástatt, að það, sem mundi alveg ríða baggamuninn í þeim efnum, er það, ef ríkið væri tilbúið að leggja nokkurt hlutafé af mörkum í þessu skyni til þessara skipakaupa.

Ég minni aðeins á þetta frv. okkar og vona þrátt fyrir allt, að enn eigi það eftir að hljóta hér sæmilega afgreiðslu, því að þótt þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., þá er áreiðanlegt, að við getum allir orðið sammála um það, að ekki er allur vandi leystur með því, og til viðbótar þarf að gera átak, ef allt á að komast í lag og ef við eigum að ná því upp, sem við í raun og veru höfum tapað í þessum efnum á undanförnum árum. En í sambandi við það frv., sem við höfum lagt hér fram, þá hef ég einmitt lagt á það áherzlu æ ofan í æ, að rekstursformið á togurunum eða útgerðum þessum væri í mínum augum algert aukaatriði. Það þýðir ekkert, og það er ekkert annað en bábilja, að vera að binda sig við ákveðin form, sem alltaf og æ og að eilífu eigi að standa. Það verður auðvitað að haga sér eftir aðstæðum og þörfum á hverjum tíma í því efni og ekki vera að binda sig í neinar kreddur um það, að þetta eða hitt rekstrarformið komi ekki til greina. Í mínum augum hefur það alltaf verið aðalatriðið í þessu máli, að við fengjum nýja togara og fengjum þá sem fyrst og kæmum þeim af stað og í útgerð. En rekstrarformið er í mínum augum nánast aukaatriði, af því að í raun og veru verður það svo, hvernig sem því verður fyrir komið, að þessi skip verða undirstaða þjóðarbúskaparins og þess vegna undirstaða lífsafkomu og lífsskilyrða okkar allra.

Nú er þetta frv. fram komið, og þarf ekki að rekja efni þess. Það er um kaup á sex skuttogurum, sem gert er ráð fyrir að selja síðan öðrum með fyrrgreindum kjörum þar á. Þau kjör, sem þar er um að tefla, eru að vísu óvenjuleg, eins og gerð var grein fyrir af hv. 5. þm. Reykn., þar sem gert er ráð fyrir þeirri fyrirgreiðslu ríkisvaldsins í því formi, sem þar segir. En ég vil segja það strax, að ég álit, að þessi leið, sem þarna er bent á, komi mjög vel til greina. Eins og ég sagði áðan, er það alveg augljóst mál, að þessi mál verða ekki leyst nema með atbeina ríkisvaldsins, og það má ekki gera það að neinu höfuðatriði eða úrslitaatriði, hvaða leið er farin í því efni. Og þó að ég hafi vissar aths. við þessa leið að gera og ég teldi aðra leið beinni og heppilegri, þá mun ég veita þessu frv. minn stuðning.

Ég tek alveg undir það, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði, að vissulega finnst mér, að það væri miklu viðfelldnari leið, að ríkið gerðist beinlínis þátttakandi í útgerð þessara togara, hvort sem það verður félagsútgerð, hlutafélag eða einkaaðili, sem verður þar annar aðilinn, með því að leggja fram þetta áhættufé, sem það ætlar að leggja í þetta, sem hlutafé, því að auðvitað þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að þetta er áhættufé. Það er aukaatriði, hvað þetta er kallað, hvort það er kallað lán eða einhverju öðru nafni. Það er auðsætt á kjörunum, að menn gera fyllilega ráð fyrir því, að þetta fé muni ekki aftur koma, og við því er ekkert að segja. Þetta er vaxtalaust lán, og þó að það sé látið heita lán, þá á það ekki að greiðast fyrr en allar skuldir eru greiddar. Þrátt fyrir það þó að það sé nú bezt að vera bjartsýnn í þessu efni, þá býst ég nú við, að það geti orðið dráttur á því, að allar skuldir verði greiddar, sem á þessum togurum hvíla, svo að ég býst við því, að menn ættu ekki af ríkisins hálfu að gera sér of bjartar vonir um það að sjá þessa aura aftur, sem í þetta eru lagðir, og ég tel það út af fyrir sig ekkert eftir. En úr því að ríkið leggur þetta til með þessum hætti og leggur þetta áhættufé fram, þá finnst mér, að það væri eðlilegra, að það hefði hönd í bagga með þessari útgerð eða hefði tækifæri til þess og þetta væri hlutafé. Það er sem sagt til athugunar. Ég mun skýra það sjónarmið mitt nánar í n., og þar verður hægt að taka það til athugunar, hvort það er hægt að fá nokkra samstöðu um það að breyta til um form á þessu. En ég vil segja það, að ég mun ekki láta það standa fyrir mínum stuðningi við þetta frv., þó að það fáist ekki fram. En ég vona, að meiri hl. vilji nú samt á okkur hlusta í þessu efni. Sannleikurinn er sá, að þó að þetta sé nú ekki stærra fyrirtæki en þetta, þá er það nú samt stórt fyrirtæki, og ég mundi telja skynsamlegast, að það væri leitað eftir sem mestri samstöðu um afgreiðslu máls sem þessa. Það er rétt, eins og hér var bent á, að þetta er ekki stórt í sniðum, en það er þó byrjun, og það er spor í rétta átt. Auðvitað væri æskilegra, að það hefði verið hægt að vera stórtækari í þessu efni og hafa þessi skip fleiri, vegna þess hvað stöðvunin hefur orðið löng í þessu efni.

En þá ætla ég að koma að því, sem hv. 5. þm. Reykn. minntist líka á, þessum minni togurum, og það eru nokkrir staðir úti á landi, - það eru sérstaklega Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri og Neskaupstaður, sem mér er kunnugt um, — sem hafa sýnt sérstakan áhuga á því efni að eignast skuttogara, sem eru þetta kannske tæp 500 tonn. Og mér er kunnugt um það, að þessir aðilar hafa haft samvinnu um þessi mál sín á milli. Mér er kunnugt um það, að þeir hafa lagt mikla vinnu í það að athuga þessi mál, og er alveg brennandi lífshagsmunamál fyrir þessa staði að eignast þessi skip. En þó að þeir séu þetta minni og þó að það sé brennandi áhugi á þessum stöðum og það séu þar margir fórnfúsir aðilar, sem eru tilbúnir til þess að leggja fram nokkurt fé í þessu skyni sem áhættufé, þá er það samt sem áður svo, að það skortir getu til þess að leysa þetta mál. Þetta er mál, sem hefur snertipunkta víðar. M.a. hafa þessir aðilar, eftir því sem ég veit bezt, rætt töluvert alvarlega við skipasmíðastöðvar hér innanlands og þá sérstaklega við skipasmíðastöð á Akureyri t.d., og auðvitað er það mikið atriði, sem kemur til líka í þessu sambandi, hvort það er hægt að leysa mál skipasmíðastöðvanna að einhverju leyti í þessu sambandi og útvega þeim verkefni.

Nú vil ég fyrir mitt leyti leggja mikla áherzlu á, að mál þessara aðila séu skoðuð í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og ég vil vænta þess, að þegar á mál þeirra er litið með sanngirni, þá gæti náðst samstaða um, að þessir aðilar fengju sams konar fyrirgreiðslu eins og þessum sex skuttogurum er ætluð. Það er að vísu svo, að ástandið í þeim bæjarfélögum er þannig, að það eru svo litlar einingar, að þeim er auðvitað mjög torvelt að standa undir þessum 7.5%, sem bæjarfélögunum er ætlað. En ég verð að segja það, að ég er ekki bjartsýnni en svo, að ég geri mér tæpast vonir um, að það þýði að fara fram á meiri fyrirgreiðslu fyrir þeirra hönd en þá, sem þessum skuttogurum er hér ætluð. Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur kynnt sér mál þessara aðila, og ég vænti þess, að hann geti tekið undir þau sjónarmið, sem ég hef hér sett fram. Ég mundi vera náttúrlega mjög ánægður, ef hann gæti lýst yfir á eftir jákvæðum stuðningi við þau sjónarmið, sem ég hef sett hér fram, að því væri komið til leiðar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að þessir aðilar fengju að sitja við sama borð í þessu efni og þessir sex skuttogarar. En vel má vera, að hann sé ekki tilbúinn til þess að gefa slíka yfirlýsingu hér. En þá vil ég fyrir mitt leyti leggja áherzlu á það samt, að það verði ekki lokað neinum dyrum í þessu efni og það verði kannað í n., hvort það er ekki hægt að ná samstöðu um þetta.

Svo er það þriðja stærðin, sem hér kemur til greina, eins og hér hefur verið minnzt á, þar sem er hinn svokallaði verksmiðju- eða úthafstogari. Við vitum, að það hefur verið stofnað hér sérstakt félag áhugamanna í því efni, sem hafa lagt fram verulegt fé nú þegar með það fyrir augum að eignast einn úthafstogara eða verksmiðjutogara. Það er mikið fyrirtæki. En ég lít svo á, að það sé tilraun, sem nauðsynlegt er og sjálfsagt að gera. Nú hefur þetta félag, Úthaf, skrifað þingflokkunum bréf um það efni, og farið fram á ákveðna afstöðu þeirra í þessu máli, og það hefur bent á einar þrjár leiðir, sem gætu komið þar til greina sem stuðningur við það og úrræði til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Ég ætla ekki að fara að rekja þær leiðir hér, en minni þó á, að fyrsta leiðin er sú, að ríkið gerist hluthafi í þessu fyrirtæki, með allháu framlagi að vísu. Þetta mál verður nú sjálfsagt rætt í þingflokkunum og athugað, hvort það getur náðst samstaða um það. En auðvitað tek ég undir það með hv. 5. þm. Reykn., að það væri fróðlegt að heyra afstöðu ráðh. í því efni, ef hann er viðbúinn að gera grein fyrir því. Ég vil ekki segja, að það eigi að blanda því máli saman við þetta mál, sem hér liggur fyrir. Ég lít í raun og veru á það mál sem alveg sérstaks eðlis. Ég vil líta á það sem tilraun, sem á að gera og ríkisvaldinu beri að styrkja. Og þá kem ég aftur að því, sem ég áðan minntist á í sambandi við rekstraráætlun, að auðvitað er það sjálfsagt og nauðsynlegt, að þessir aðilar leggi fram rekstraráætlanir og það mál allt sé kannað. En þó geri ég ekki of mikið með það, því að allar áætlanir geta brugðizt, en það er í raun og veru að mínu mati sjálfsagt, hvað svo sem tölur á pappír segja, að gera tilraun í þessu efni og sjá til, og ég undirstrika það, sem áður hefur verið tekið fram, að það er einmitt líka vegna hagnýtingar hinna fjarlægari miða nauðsynlegt, að við verðum með í því að nýta þau, og vel má vera, að framtíðin beinist meir að þessu en við gerum okkur nú grein fyrir.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en legg enn og aftur áherzlu á það, að það er nauðsynlegt, að hafizt sé handa sem fyrst í þessum efnum og raunhæfar aðgerðir gerðar í þessu efni jafnframt því, sem þess þyrfti um leið að strengja heit að láta það ekki endurtaka sig, sem nú hefur gerzt og raunar er ekki einsdæmi, því að það er rétt, sem hér hefur komið fram, að endurnýjun togaraflotans hefur farið hér fram í nokkrum stökkum. Það er auðvitað ekki heppilegt, en þeim þarf að halda við jafnt og þétt og endurnýjun togaraflotans þarf að fara stöðugt fram.

Eins og ég hef áður sagt, gefst nú færi á því fyrir mig að fylgja fram mínum sjónarmiðum í n., sem um þetta fjallar, og ég skal láta mínu máli lokið, en vil endurtaka að mér þætti náttúrlega mjög mikilsvert, ef hæstv. ráðh. gæti tekið jákvætt undir þau atriði, sem ég hef hér sett fram.