09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki efnisins vegna að vera langorður í þessu máli umfram það, sem ég hef þegar sagt. Ég vil þakka þeim tveimur hv. þm., sem til máls hafa tekið á eftir minni framsöguræðu, fyrir jákvæðar undirtektir við frv., og ekki er ástæða fyrir mig til þess að víkja að mörgum atriðum í þeirra ræðum.

Þegar hv. 5. þm. Reykn. hafði komizt yfir hugleiðingar sínar um kosningavor, þá varð niðurstaðan eigi að síður jákvæð varðandi þetta frv. Hann minnti á það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. kom einnig inn á, að ekki væri allur vandi leystur í íslenzkri togaraútgerð með flutningi og jafnvel samþykkt þessa frv. Það er bæði rétt og skylt að viðurkenna, að það er rétt. Hins vegar taldi ég, og það var álit ríkisstj., að hér hefði verið hægt að finna viðunanlegan rekstrargrundvöll á þessari stærð skipa með því að gefa sér þó ákveðnar tölur í tilteknum veigamiklum atriðum í rekstrarkostnaði þeirra. Það er líka rétt, sem fram kom í ræðum þessara hv. þm., að í þessum efnum verður aldrei neitt ákveðið, óbreytanlegt eða óhreyfanlegt. Það er vitað mál, að fátt í íslenzkum atvinnuvegum er eins óöruggt og íslenzkur sjávarútvegur, aflamagn, veðurfar og verðlag á erlendum mörkuðum. Þetta eru alltaf óþekktar stærðir.

En það, sem þessir þm. báðir lögðu mikið upp úr, var að heyra mitt persónulega álit varðandi aðrar greinar togaraflotans, þ.e.a.s. bæði minni skip og þá jafnframt framtíðaráform um verksmiðjuskip eða að eignast verksmiðjuskip. Ég hef á opinberum vettvangi látið í ljós þessa skoðun mína, persónulegu skoðun mína, og get gjarnan endurtekið hana hér, en í nafni ríkisstj. get ég ekki gefið slíkar yfirlýsingar, því að það er álit manna, sem og er álit mitt líka, að það sé sérstakt mál, sem þurfi sérstaklega að skoða, og að því er unnið að fara ofan í þau vandamál með sama hætti og gert hefur verið varðandi þessa stærð skipa. Ég tel það líka alveg rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að það væri rangt að loka nokkrum dyrum í sambandi við umr. um þessi mál. Það er sjálfsagt að halda þeim öllum opnum og athuga hvern þann möguleika, sem fyrir hendi er, til lausnar þessum vanda. Ég hef látið það frá mér fara í blaðagrein, sem ég skrifaði á s.l. hausti eða sumri, að ég tel nauðsynlegt fyrir Íslendinga að eignast allar þessar stærðir togara. En hins vegar gildir hið sama um þessar stærðir eins og reyndar þessa, sem frv. fjallar um, að það verður að eygjast einhver möguleiki til þess, að þessi útgerð geti borið sig. Ég segi ekki, að það þurfi endilega að vera múr- og naglfast, eins og sagt er stundum. Það verður aldrei, eins og ég kom inn á áðan, í sambandi við íslenzkan sjávarútveg hægt að færa fram slík rök fyrir einni eða neinni útgerð hér á landi, svo mörgum óvissum stærðum, sem hún er háð. En eygðist einhver möguleiki fyrir því, þá tel ég persónulega nauðsynlegt, að Íslendingar eignist allar þessar stærðir, ekki sízt vegna mannskapsins sjálfs, að við eigum þjálfaðan mannskap við allar þær veiðiaðferðir og stærðir í veiðiflota, sem kostur er á og aðrar þjóðir hafa reynt og hafa sannað ágæti sitt. Þótt hinar tvær stærðirnar séu ekki ræddar í þessu frv., þá ítreka ég það, að það er mín persónulega skoðun, að við þurfum að eignast þessar stærðir allar. Ég skal ekki tiltaka neinn fjölda skipa í þessum greinum. Um það geta verið deilur.

En það er einnig rétt, að nokkur bæjarfélög, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. gat um, hafa sýnt nú upp á síðkastið, þó ekki fyrr en á þessu og síðasta ári, verulegan áhuga á því að eignast slík skip. En mér finnst, að eftir málflutningi forsvarsmanna þessara bæjarfélaga, sumra a.m.k., muni þeim vart duga sams konar aðstoð og þetta frv. gerir ráð fyrir, þar þurfi eitthvað nýtt til að koma. Það er vitað, að fjárhagur sumra þeirra bæjarfélaga, sem hv. þm. nefndi, er mjög bágur, eins og hann gát um, og það olli nokkurri svartsýni sumra þessara forystumanna, að sú aðstoð, sem þessu frv. er ætlað að veita, mundi ekki duga þeim til kaupa á jafnvel minni skipum.

Eins og ég áðan sagði, þá er nauðsynlegt að líta á þessi mál öll og kanna til hlítar. En ég vona, að hv. þdm. séu mér sammála um, að það er ekki rétt að draga úr ferðinni á samþykkt þessa frv., þó að einhvern tíma kunni að taka að fara ofan í hinar hliðar þessa vanda, og ég fagna því, að báðir þessir hv. þm. tóku jákvætt undir frv. sem slíkt, þó að þeir teldu, að það mætti gjarnan vera stærra í sniðum. Það eru ávallt og hafa alltaf verið greindar meiningar um slíkt, hve langt eigi að ganga, en þetta var nú sú tala, sem talið var að væru einhverjir möguleikar á að eftirspurn væri eftir varðandi þessa stærð skipa.

Varðandi svo verksmiðjuskipið sjálft er það, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. gat um, kannske hvað sérstakast þessara mála vegna þess, hversu stóra fjárhæð er um að ræða, en eigi að síður hliðstætt hinum minni skipum, vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með vinnubrögðum og þjálfun mannskaps í þeim efnum rétt eins og að viðhalda miðstærðunum og minnstu stærðunum. Að öðru leyti má segja, að slík útgerð sé, eins og þm. sagði, tilraunaútgerð. Við höfum ekki tekið þátt í slíkum veiðiskap eða veiðiskap við slíkar aðstæður, en það er tvímælalaust margt, sem af því má læra, sem nauðsynlegt er, að vitneskja sé um meðal íslenzkra fiskimanna, og við þörfnumst þeirrar þjálfunar, sem útgerð slíks fiskiskips hlyti óhjákvæmilega að leiða af sér. Ég skal ekki láta á mér standa, hvað því viðvíkur, að leita eftir sem allra mestri samstöðu um málið. Mér væri það að sjálfsögðu kærast, að hér gæti verið um einróma álit að ræða og að við höldum síðan áfram að fara ofan í þann vanda, sem hinum atriðunum, sem ekki leysast með þessu frv., fylgja, því að mér er fullkomlega ljóst, að þann vanda þarf að leysa ekki síður en þann vanda, sem leystur er með þessu frv.

Ég vænti þess svo, að vegna þess, hversu áliðið er þingtímans, reyni hv. n., svo sem kostur er, að hraða störfum sínum um afgreiðslu málsins og þótt aðrar hliðar vandans í togaraútgerðinni séu óleystar, verði það ekki til þess að draga úr ferðinni á afgreiðslu þessa frv.