09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa nú orðið langdregnar nokkuð og margt slæðzt inn í þær, eins og oft vill verða, þegar stórmál eru á döfinni. Mönnum sýnist sitt hvað um kaup á stórum togurum og togaraútgerð í landinu. Það er ekkert nýtt og hefur ævinlega verið svo á Íslandi. Menn hafa deilt um togaraútgerð, því að hún er fjárfrek og hefur oft verið erfið í rekstri, bæði hér á Íslandi og annars staðar. Ég ætla ekki að tefja tímann mjög, en ég vil þó aðeins vekja athygli á þeim orðum, sem formaður Framsfl., hv. 1. þm. Norðurl. v., viðhafði hér, þegar hann gerði ekki mikið úr því tapi, sem kynni að verða á togaraútgerð, sagði, að það væri ekki aðalatriðið, viljinn væri mikið atriði. Það tek ég undir. En ég vil þó ekki líta fram hjá því, að það varð einmitt togaraútgerðinni að falli, hversu erfitt var að ná rekstrarlegri niðurstöðu. Mörg bæjarfélög voru bjartsýn hér á sínum tíma og fóru í togaraútgerð, en því miður reyndist togaraútgerð á þessum stöðum þeim ofviða og setti bæjarsjóðina kannske ekki alveg um, en setti þá mjög skakka. Má þar nefna, að í Neskaupstað, í Vestmannaeyjum, í Keflavík og á Norðurlandi gáfust þessi bæjarfélög upp við rekstur á togurum, e.t.v. illu heilli, e.t.v. vegna skilningsleysis ríkisvaldsins eða af ýmsum öðrum orsökum. En það er þó staðreynd, að togaraútgerðin lognaðist út af á þessum stöðum, vegna þess að tapið varð þeim ofviða. Nú skal ég ekki vera þversum í því efni, ef ríkissjóður hefur svo mikið fjármagn, að menn verða sammála um að leggja fram nægilegt fjármagn, þannig að togaraútgerð, hvar sem vera skal á landinu, geti gengið. En ég held þó, að fyrr eða síðar komum við að þeim erfiða hnút, sem þarf að leysa, að togaraútgerð á Íslandi er ekki jafngild, hvar sem vera skal. Og það er mikið vandamál, en hann vildi ekki gera úr því mjög svo mikið atriði, en það er mikið vandamál, hvar skal landa úr togara, ef hann er orðinn stór og kemur með 250–300 tonna afla að landi. Þá er það mikið vandamál. Bæði tekur það tíma að landa, áhöfnin tekur frí og það þarf að flytja skipið þá á milli hafna, og það er ekki sama, hvernig að þessu er staðið. Það vil ég undirstrika. En það kallaði hv. þm. bábiljur einar að gera úr því nokkra erfiðleika.

Slík tilraun var reynd á Norðurlandi og fór alveg hrapallega. Þess vegna hef ég persónulega helzt þá skoðun, að við eigum að skipta togaraflotanum í misjafnar stærðir, og helzt væri ég á því, að stuðningur ríkisvaldsins næmi ákveðinni upphæð, hvort hann er 50 millj. eða 100 millj. En svo einkennilega hefur viljað til, að enginn ræðumanna nefndi ákveðnar tölur. Ég held þó, að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hvað í frv. felst varðandi ákveðnar tölur, því að það hlýtur að skipta ríkissjóð nokkru máli, hvort við erum að leggja til, að hann snari út 50 millj. eða 150 millj. í ákveðna útgerðarþætti. Miðað við reynslu undanfarinna ára, og fram hjá henni verður varla gengið, þó að menn vilji ekki gera um of mikið úr tapi og rekstrarörðugleikum viða um land, er ég helzt á því, að við ættum að láta reynsluna ráða verulega ákvörðun okkar og skipta togaraflotanum í ákveðnar stærðir.

Nú er það vitað mál, að það eru vaxandi kröfur um gæði á fiski, og ég held, að ég fari rétt með það, að í Noregi séu komnar þær kröfur, að ekki sé landað eldri fiski en átta daga. Íslenzkur fiskmatsmaður fór nýlega til Noregs, og hann hefur sent frá sér skýrslu, og þar segir hann blákalt, að átta daga sé elzti fiskur leyfilega landaður í frystihús í Noregi. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að mínu viti, að þá sé útgerð stórra togara hér, sem landa í frystihús á Íslandi, mjög vafasöm, ef vel aflast. Ég er því helzt á því, að 600–800 brúttótonna togarar hentuðu hér mjög víða vel, en þó er eðlilegt að kaupa kannske tvo til þrjá rúmlega 1000 tonna togara, sem fiska í ís undir vissum kringumstæðum. Hins vegar geta þeir verið góðir til sölu á erlendum markaði.

Svo er hinn þátturinn, það er vinnsluskipið. Ég vil taka undir, að eðlilegt er að líta á það sem sérstaka tilraun og veita sérstaka aðstoð. Athugum frystihús eins og í Hafnarfirði, á Akureyri, í Vestmannaeyjum og í Neskaupstað t.d. Þar er móttaka og afkastageta þannig, að togarafarmur, sem væri um 200 tonn, er nokkuð góður. Ef farmurinn fer mikið yfir 200 tonn, er það þeim í flestum tilfellum ofviða, nema aflinn sé fenginn á mjög stuttum tíma, því að annars verður fiskurinn of gamall til vinnslu í frystingu. Hann gæti verið ágætur í skreið, en vinnan í landi er nú ekki eins mikil við skreiðarvinnslu og við hraðfrystingu, og þess vegna er það mikið atriði, að það fjármagn nýtist sem bezt til vinnslu, sem ríkissjóður lætur af hendi. Þetta atriði vildi ég undirstrika hér, vegna þess að ég tók ekki eftir því, að neinn nefndi hér ákveðna tölu. Þó að við séum allir inni á því, að ríkissjóður leggi fram upphæðir, þá tel ég nú eðlilegt, að við gerum okkur grein fyrir, hvað við erum að samþykkja varðandi framlag ríkissjóðs í framtíðinni.

Um hitt má svo mjög spyrja, með hvaða hætti við skulum draga fisk hér að landi á Íslandi, þegar það er nú einu sinni staðreynd, að fiskimið okkar virðast vera því sem næst fullnýtt. Það hefur margsinnis komið fram hér á Alþ. og víðar, að menn telja, að það sé mjög nálægt því, að fiskimiðin við Ísland séu fullnýtt. Þá hlýtur sú spurning að vakna óhjákvæmilega, hvort ekki sé skylda okkar að stuðla að því, að við drögum fiskinn að landi með sem minnstum tilkostnaði. Og nokkrar raddir eru uppi um það, að við getum aflað fisksins hér á Íslandsmiðum með minni tilkostnaði en gerist um borð í togara. Það fer eftir aðstæðum og atvikum, en reynslan hefur þó sýnt í gegnum árin, að flest fiskiskip hafa skilað fiskkílói í land með minni tilkostnaði en togarar. Það hefur komið fram í reikningum, t.d. frá aflatryggingasjóði og víðar, að togaraflotinn hefur fengið mjög stórar upphæðir úr aflatryggingasjóði og skuldaði fyrir 2–3 árum þeirri deild í aflatryggingasjóði um 100 millj. t.d. Þó hefur togaraflotinn notið verulega beinna ríkisstyrkja.

Nú kann einhver að segja, að þessir gömlu togarar okkar séu úreltir og við gætum með togurum af nýrri gerð aflað með ódýrari hætti. Um þetta skal ég ekki dæma. Hitt er reynsla annarra þjóða, sem hafa farið á Íslandsmið, að rekstur togara hér hefur gengið mjög misjafnlega, og hafa margir togarar verið til sölu, en aðrir togarar orðið að taka við stórstyrkjum. Norðmenn hafa látið smíða fjögur verksmiðjuskip af tveimur gerðum, og ég sá það í norsku tímariti í s.l. viku, að þeir hafa ákveðið að staldra við og taka rekstur þessara verksmiðjuskipa sérstaklega fyrir og reikna nákvæmlega, hvað hefur áunnizt og hvað má lagfæra í sambandi við þessi skip, og taka síðan ákvarðanir um áframhaldandi uppbyggingu togaraflota síns. Þeir hafa nokkuð af minni skipum, sem gáfu sæmilega raun, og er vaxandi áhugi á því sviði.

Á Íslandi er nú talsverður áhugi á minni fiskiskipum vegna breyttra aðstæðna í togveiðimöguleikum við landið. Jafnframt hef ég lesið á prenti, t.d. í grein í Norðanfara, síðasta blaði, eftir ágætan mann, mjög vel kunnugan öllum aðstæðum, Pál Guðmundsson skipstjóra, þar stendur, að vanrækt hafi verið uppbygging fiskiskipaflotans. Þetta er ekki rétt. Fiskiskipaflotinn hefur verið aukinn. Deilan stendur um það, hvort við eigum að telja þessi skip, sem eru 300 tonn eða minni, til togveiðiskipa. Ég held, að hann hafi átt við eitthvað annað, því að þetta eru auðvitað fiskiskip, því að þau nota ýmis veiðarfæri og veiða fisk, en þannig er áróðurinn. Hann er orðinn einhliða og hefur jafnvel farið út í öfgar á vissum sviðum.

Þess vegna dreg ég enga dul á það, að vilji hæstv. fjmrh. leggja því lið, að ríkissjóður taki á sig kvaðir upp á 100 eða 200 millj., vildi ég helzt, að það væri gert um tvær til þrjár gerðir skipa, en ekki sex skip af sömu stærð, eingöngu vegna þess, hvað reynsla undanfarinna ára hefur kennt okkur, hver reynsla hjá öðrum þjóðum er. Þetta vildi ég undirstrika, en ég vil líka undirstrika það, að við getum ekki litið algerlega fram hjá tapinu, því það hefur haft svo bitra reynslu í för með sér hér á Íslandi, að fram hjá því verður ekki gengið, að samþykkjum við það hér á Alþ., að ríkissjóður taki á sig ákveðnar kvaðir og hjálpi þannig bæjarfélögum, þá getur það reynzt mjög illa víða. Aðstæður á Íslandi eru svo misjafnar, að fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið. Hitt vil ég undirstrika og taka undir, sem fram kom hjá öllum ræðumönnum, að okkur er nauðsyn á góðum skipum til að sækja á hin fjarlægustu mið, og það mun ekki standa á mér að leggja því lið. En útgerð togara hefur verið okkur erfið í mörg ár, og hún er erfið hjá mörgum nágrannaþjóðum hér í Norðurhöfum. Og það eru uppi raddir um það núna að takmarka sókn í þorsk- og ýsustofna hér á stóru svæði, og það kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir rekstur þessarar stærðar á skipum, þannig að ég tel nokkuð djarft teflt að miða þetta frv. við eina stærð skipa. Persónulega væri ég helzt á því, ef ríkissjóður vill ganga undir ákveðna kvöð, sem væri 100 eða 200 millj. kr. framlag, að við ættum að hugleiða að dreifa því fjármagni á fleiri gerðir togara.