09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hætta mér út í deilur við hv. 5. landsk. þm. um útgerðarmál, þar sem hann er útgerðarmaður og fagmaður á því sviði, en mig langaði aðeins til þess að gera aths. út af þeim orðum, sem hann lét falla um útgerð á Norðurlandi og þá reynslu, sem þar hefði fengizt.

Það er rétt, að t.d. þrír kaupstaðir áttu saman einn togara á Norðurlandi. Það má segja, að það hafi gengið illa. Það er rétt, að það var tap á þessari útgerð og hún gafst upp. En það er nú stundum svo, að það ræður úrslitum, hvort menn gefast upp á einhverju tilteknu augnabliki eða þrauka ofurlítið lengur og er hjálpað til þess að komast yfir örðugasta hjallann. Ég er nú ekki frá því, að ef menn hefðu verið svolítið þolinmóðari, þá hefðu viðhorfin breytzt í þessu efni. Og það var ekki bara þessi togaraútgerð, sem gekk erfiðlega. Ég átti hlut að því m.a. að afla skipa til Sauðárkróks á sínum tíma, og það var um eitt skeið, að við gerðum út þaðan tvö eða þrjú skip, en það gerðist sú sorgarsaga, að þessi útgerð gekk ekki, og það voru ekki fjárhagslega sterkir aðilar, sem stóðu að henni, og þeir, sem yfir fjármagninu höfðu að ráða, þorðu ekki að taka meiri áhættu en orðið var, og niðurstaðan var sú, að skipin voru seld burt af staðnum. Síðan hefur orðið að kaupa önnur skip, og þau skip hafa gengið vel, og mér er óhætt að segja, að þau skip hafa einmitt skapað algerlega undirstöðu undir atvinnulífið á þessum stöðum og hafa gengið vel, þannig að við megum ekki vera of svartsýnir og miða við reynslu, þótt illa hafi gengið í sum skipti, heldur getur oft verið rétt að líta á það sem tilraun og læra af þeirri reynslu, sem fengin var.

Hann vildi, hv. 5. landsk. þm., ekki fallast á það, sem ég sagði, að þetta væri bara bábilja, að það mætti ekki landa á fleiri stöðum. En það er nú svona, að jafnvel útgerðarmenn eru stundum nokkuð fastheldnir á það, sem þeir hafa lært og eru vanir. Aðstaðan á Norðurlandi t.d. er gerbreytt frá því sem var, þegar þessi togari var, sem hann talaði um. Það eru t.d. komin tvö frystihús á sumum stöðunum. Það er kominn ágætur vegur, sem er greiðfær og yfirleitt fær allan ársins hring á milli þessara staða, og t.d. er það sízt lengri vegur en t.d. frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur eða jafnvel miklu styttri vegur, þannig að það væri kannske engin frágangssök heldur, að manni finnst, miðað við það, sem hér er gert, að keyra afla á milli staða.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta hér, en vegna þess að mér er það mikið áhugamál, að litið sé á þessi mál með fyllsta velvilja, þá vil ég undirstrika það, að menn mega ekki hræðast reynsluna um of í þessu efni. Reyndar er það ekki heldur svo nú, að það sé stílað upp á það, að það séu fleiri staðir saman um einn togara, heldur er gert ráð fyrir því, að hver af þessum stöðum, sem þarna er um að tefla og hafa átt þátt í þessum undirbúningi, sé með einn togara út af fyrir sig.

Ég skal ekki segja um það, hvort það á að draga úr stærð skipa skv. þessu frv. Mér sýnist það nú ekki fært. En hins vegar fagna ég mjög þeim skoðunum, sem komu fram hjá hv. 5. landsk. þm., á þá lund, að hann vildi einmitt leggja áherzlu á, að það væru fengnar fleiri stærðir af togurum, og þá skildist mér einmitt hann hallast að þeirri stærð, sem þeir eru að hugsa um fyrir norðan og austan. Það sýnir sig, að þau skip, sem þeir hafa nú, — þó að þau hafi reynzt vel og gengið vel, — þá eru þau ekki nógu stór. Það þarf stærri skip til þess að geta sótt lengra og aflað þess hráefnis, sem er þörf á. Þeir álíta, að þessi skip, sem þeir hafa mjög verið að athuga, dugi og ég veit, að þeir hafa lagt mjög mikla vinnu í að kynna sér allt í sambandi við það. Það er sjálfsagt rétt að átta sig á tölum í þessu sambandi. Ég hygg, að það sé nú auðvelt. Að vísu verður, eins og hæstv. sjútvrh. drap á, að taka allar áætlanir með fyrirvara. En þeir hafa gert mjög ítarlega áætlun um þessi skipakaup, og það er enginn vandi að gera sér alveg grein fyrir því, um hve stórt mál hér er að tefla, og hvaða tölur er þarna um að ræða. Og ég held, að þótt það væri bætt við svo sem þremur til fjórum skipum af þessari stærð, sem þeir hafa verið að hugsa um, þessa sex skuttogara, sem þarna er um fjallað, þá væri það alls ekkert óviðráðanleg upphæð fyrir ríkið. Þess vegna vil ég enn leggja áherzlu á, að það verði mjög athugað, einmitt í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Og ég álít, að þetta mál þeirra sé nú svo vel undirbúið af þeirra hálfu þarna fyrir norðan og austan, - þeir hafa rætt við aðila hér, m.a. forráðamenn hjá fiskveiðasjóði og þeir hafa, að því er ég bezt veit, kynnt þar og lagt fram áætlanir, — að það ætti nú ekki að þurfa að tefja afgreiðslu þessa frumvarps, þótt það væri tekið til athugunar í sambandi við það.

Hitt er augljóst mál, sem hv. 5. þm. Reykn. sagði, að ef ekki er hafizt handa í því efni í sambandi við þetta mál, þá eru hverfandi líkur til þess, að því máli verði sinnt á þessu þingi, þar sem senn líður að lokum þings. Þá þýðir það að líkindum eitt ár alveg til viðbótar, sem það dregst, að hafizt verði handa í þessu efni. Nema þá að ríkisstj. vildi gefa einhverjar yfirlýsingar í sambandi við afgreiðslu þessa máls, sem sjálfsagt væri að taka gildar, ef hún treystir sér til þess. Ég álít þetta svo brennandi mál, að því megi ekki skjóta á frest að sinna því. Og það er rétt, eins og hæstv. sjútvrh. drap á, að þróunin hefur orðið sú, að útgerð togaranna hefur færzt á færri staði og er bundin við fáa staði. En það er einmitt mikil þörf á því að dreifa henni meir. Þá hæfir að vísu ekki þessum stöðum þessi stærð, sem um er að tefla í þessu frv., heldur þessi minni gerð, sem þeir hafa hugsað sér, eða það er álit þeirra manna sem gerst þekkja til, sem hafa kynnt sér þessi mál og hafa vit á þeim. Hitt get ég tekið undir með hv. 5. landsk. þm., að æskilegt er auðvitað, að allir hlutir beri sig. En ég held í sambandi við bæjarútgerðirnar, þó að það sé hægt að sýna fram á eitthvert tölulegt tap hjá þeim, þá sé nú ekki rétt að reikna dæmið þannig. Mér kemur nú t.d. í hug Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, þar sem það sannarlega hefur gengið á ýmsu hjá þeirri útgerð og mér er talsvert kunnugt um. En hvernig ætli það dæmi liti út, ef það væri reiknað í heild allt? Hvaða áhrif hefur Bæjarútgerð Hafnarfjarðar frá öndverðu haft á Hafnarfjörð? Ég er þeirrar skoðunar, að það mundi verða pósitíft, sem kæmi út úr því dæmi, ef það væri reiknað með réttum hætti.