16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál og fékk á fund til sín hæstv. sjútvrh., vegna þess að í n. var áhugi fyrir því að reyna brtt. við frv. Nm. voru allir sammála um það, að rétt væri að styðja frv., eins og það lægi fyrir, en þó var vitað mál, að víða á landinu, eins og kom fram reyndar í umr., er áhugi á minni gerð skuttogara. Því var það rætt í n., með hvaða hætti væri hægt að mæta þeim áhuga. Það kom fram í viðtali við hæstv. sjútvrh., að ríkisstj. mun líta með velvilja á það vandamál, en það liggur þó ekki fyrir ákveðið, að hægt verði að taka beina afstöðu til þess. Það er ekki búið að bjóða út aðra gerð af skipum, a.m.k. veit maður ekki um það opinberlega, en verði það gert og liggi þar fyrir kostnaður varðandi smíði slíkra skipa, göngum við út frá því, að það vandamál verði séð með velvilja og lausn verði fundin á því sem slíku. Við meiri hl. töldum því ekki ástæðu til að gera breytingu á þessu frv. miðað við orð hæstv. sjútvrh. og leggjum því til, að frv. verði afgr. nú þegar óbreytt. Minni hl. mun skila séráliti, en er meðmæltur frv., eins og það liggur fyrir. En till. minni hl. liggur fyrir á þskj. 581, en þar auka þeir tölu skipanna, allt að 12. Við, eins og ég sagði áðan, leggjum hins vegar til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.