16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. beindi einni ákveðinni fsp. til mín, sem hann hafði nú reyndar gert áður á nefndarfundi við umr. um þetta mál. Hann spurði, hvort ég væri reiðubúinn til þess að lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstj., að bygging hinna umræddu minni skipa fengi sömu fyrirgreiðslu og frv. gerir ráð fyrir um hin stærri skip, ef fjárhagsáætlun sýndi ekki verri útkomu en athugunin á 1000–1100 tonna skipum. Ég tel mig ekki hafa umboð til þess að lýsa þessu yfir fyrir hönd ríkisstj. Niðurstaðan af umr. um það hefur orðið sú, sem kom fram í yfirlýsingu minni á nefndarfundinum, og ég tel mig hafa umboð til þess að lýsa yfir því, að ríkisstj. muni með velvilja líta á mál þessara áhugaaðila, þegar niðurstaða er fengin á því, hver sú aðstoð þarf að vera og með hvaða hætti hún gæti komið að sem beztum notum fyrir þá, sem hlut eiga að máli. Þetta er sú yfirlýsing, sem ég tel mig geta gefið fyrir hönd ríkisstj., og tel, að hún feli það í sér, að ef jákvæðar niðurstöður fást út úr þessari athugun á rekstri þessara skipa, þá muni útboð þeirra og undirbúningur að byggingu ekki þurfa af þeim sökum að tefjast.