20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með þessu frv. leggur hæstv. ríkisstj. fram till. sínar varðandi það, hvernig tekið skuli á því stóra verkefni að vinna að endurnýjun togaraflotans. Í frv. er þó aðeins gert ráð fyrir því, að ríkisstj. fái heimild til þess að láta smíða sex skuttogara. Nánar er gerð grein fyrir því í frv., að hér er reiknað með 1000 rúmlesta skipum, eða það hefur verið upplýst um málið, en lengra nær þetta frv. í rauninni ekki varðandi það að leysa þetta verkefni, sem hér er um að ræða.

Ég verð nú að segja það hér við 1. umr. þessa máls, að mér finnst þessar till. algerlega ófullnægjandi. Ríkisstj. hefði átt að leita eftir miklu víðtækari heimild en felst í þessu frv. Mér hefði ekki þótt mikið, þótt hún hefði farið fram á að fá heimild til að semja um kaup á a.m.k. 12–15 skipum. Það er hins vegar aðeins framkvæmdaatriði málsins, hvort fyrst verður samið um sex skip og eitthvað aðeins síðar um önnur og hvað mörg skip verða í hverjum stærðarflokki.

Við vitum, að það hafa komið fram opinberlega að undanförnu, þegar þessi mál hafa verið rædd, till. um þrjár stærðir skuttogara. Það hefur allmikið verið rætt um þessa stærð, sem frv. fjallar um, eða í kringum 1000 rúmlesta skip, en það eru skip af mjög svipaðri stærð og stærstu togarar okkar eru nú. En byggingarlagið er nokkuð annað, og líklega yrði um nokkru afkastameiri skip að ræða en gömlu skipin. En það hefur einnig verið talsvert mikið talað um það að kaupa nokkru minni skip, sem væru 500–700 rúmlestir. Hafa þeir aðilar, sem um þá stærð hafa mest rætt, fyrst og fremst hugsað sér að staðbinda skipin enn meir en gert verður með stærri skipin, binda þau enn meir við tilteknar löndunarhafnir og tiltekin fiskiðjuver og afla þá nálega eingöngu fyrir fiskvinnsluna hér innanlands. Skip af þeirri stærð yrðu að sjálfsögðu nokkru ódýrari, bæði í stofnkostnaði og einnig í rekstri, og væri því hægt að hafa rekstur þeirra þannig, að þau kæmu miklu þéttar að landi en stærri skipin gera allajafna. En í frv. er ekki gert ráð fyrir neinum heimildum handa ríkisstj. í sambandi við kaup á skipum af þessari stærð. Og í þriðja lagi hefur svo allmikið verið rætt um það, að Íslendingar keyptu a.m.k. eitt skip til reynslu af verksmiðjuskipastærð, þ.e.a.s. skipið væri í kringum 2500–2700 rúmlestir að stærð, og væri það útbúið til þess, að fiskurinn yrði unninn að mestu leyti um borð. Þetta frv. gerir ekki heldur ráð fyrir því, að neitt verði aðhafzt í þessum efnum.

Ég tel því, að þetta frv. sé mjög gallað. Það hefði þurft a.m.k. að gera ráð fyrir heimildum handa ríkisstj. á miklu víðtækari grundvelli en hér er gert, ef á að vera um það að ræða, að hægt sé að tala um endurnýjun togaraflotans, eins og nú er komið. Ég held líka, að það megi öllum verða ljóst, að verði aðeins til sex skip nú á næstunni með þessum stuðningi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þá verður hér alveg um minnstu framkvæmdir að ræða hjá þeim aðilum, sem þegar hafa látið til sín heyra í þessum efnum, sem mögulegt er í sjálfu sér.

Frá því hefur verið skýrt opinberlega, að einstaklingar hafi þegar gert byrjunarsamning við erlendar skipasmíðastöðvar um tvö skip af þessari stærð, og þeir munu áreiðanlega fá fyrirgreiðslu í samræmi við þessi lög eða þetta frv. Þá er aðeins eftir um fjögur skip að ræða. Mér þykir mjög ótrúlegt, að það verði staðið þannig að framkvæmdum í þessum efnum, að togaraútgerðarbæir eins og Akureyri og Hafnarfjörður verði ekki a.m.k. með sitt skipið hvor. Þá eru eftir aðeins tvö skip handa stærsta togaraútgerðarfélaginu í landinu, sem er Bæjarútgerðin í Reykjavík, sem ég veit ekki annað betur en hafi gert samþykktir um að óska eftir miklu meiri framkvæmdum í þessum efnum en sem nema aðeins tveimur skipum. Þótt aðeins þeir aðilar, sem ég hef nú nefnt, því það eru auðvitað fleiri aðilar, sem hér eiga hlut að máli og þurfa á því að halda að endurnýja sinn togaraflota, óskuðu nú eftir því að gera örlítið stærra átak en þetta, t.d. þeir á Akureyri óskuðu eftir tveim skipum og þeir í Hafnarfirði tveim skipum, að ég tali nú ekki um ef Bæjarútgerðin í Reykjavík óskaði eftir 4–5 skipum, sem væri fullkomlega nauðsynlegt fyrir þá útgerð, eins og komið er, þá er engin heimild til fyrir ríkisstj. til að veita stuðning til þess að leysa slíkar beiðnir samkvæmt þessu frv. Mér þykir því, að frv. skeri þennan stakk allt of lítinn. Það er eins og það sé verið að binda það, að ekki skuli gert meira en það, sem tiltekið er í heimildum frv. Ég teldi því, að það ætti að gera heimildir frv. víðtækari og sjá þá nánar til, hvernig til tækist með framkvæmdir, þegar vandinn kæmi á eftir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir nokkrum viðbótarstuðningi af hálfu ríkisins umfram það að veita kaupendum 80% ríkisábyrgð, en á undanförnum árum, þegar togarar hafa verið keyptir til landsins, þá hefur ríkið í flestum tilfellum veitt ríkisábyrgð fyrir lánum í sambandi við kaupin, sem nema í kringum 90%, svo að hér er þessi heimild nokkuð lækkuð frá því, sem verið hefur. Þar á móti kemur hins vegar, að gert er ráð fyrir því, að ríkið veiti sérstök hlunnindalán til kaupenda skipanna, sem geta numið samtals 7.5% af verði skipanna, og þessi lán verði ekki innheimt fyrr en að 18 árum liðnum og þá án vaxta. Því verður auðvitað ekki neitað, að hér er um greinileg hlunnindalán að ræða, og á þennan hátt má segja, að kaupendur þessara skipa fái ríkisábyrgð 80% og sérstök hlunnindalán, sem nema 7.5%, eða þá þeir fái fyrirgreiðslu til kaupa á skipunum, sem nemur í kringum 87.5%. Það má vera, að þessi fyrirgreiðsla nægi í vissum tilfellum, en ég býst þó við, að hún verði að teljast heldur lítil fyrir marga, sem hér eiga hlut að máli. En þá er það sérstaka fyrirkomulag tekið upp, sem kemur sérstaklega fram í grg. frv., að gert er ráð fyrir því, að væntanlegir eigendur skipanna leggi fram 7.5% af byggingarkostnaði skipanna, en hins vegar eigi viðkomandi sveitarfélag að leggja fram 7.5% á móti, og þannig skuli koma sem framlag til skipakaupanna upphæð, sem nemur 15% af byggingarverðinu. Ég verð að segja, að mér finnast þessi ákvæði nokkuð einkennileg, að gera sérstaklega ráð fyrir því, að sveitarsjóðir eigi að leggja fram tiltekinn hluta. Ég held, að það verði í rauninni að vera alveg á valdi sveitarstjórnanna sjálfra, hvort þær vilja leggja fram eða hvort þær geta lagt fram meira eða minna í þessu skyni eða ekki. Hið eðlilega er að sjálfsögðu, að ríkið ákveði, hvað það ætlar að gera mikið, og svo verða væntanlegir kaupendur og sveitarstjórnir að sínum hluta að ákveða það, hvað þeir geti lagt mikið fram á móti. Vilji t.d. bæjarstjórnin í Hafnarfirði aðstoða bæjarútgerð sína með því að leggja fram 7.5% á móti framlagi frá bæjarútgerðinni, sem næmi 7.5%, þá er það að sjálfsögðu þeirra mál. En það má alveg eins búast við því, að bæjarstjórnin í Hafnarfirði vildi ekki samþykkja það að leggja fram 7.5% handa einstaklingi þar í bæ til þess að kaupa skip. Ég álít, að ríkið eigi ekki að setja löggjöf þess efnis, að það sé þvingað fram neitt í þessum efnum. Það verður vitanlega að vera algerlega á valdi hvers og eins, hvernig hann vill skipa þessum framkvæmdamálum.

Ég tel hins vegar, að það hefði fyllilega komið til greina, að ríkið, þegar svo er komið um togaraútgerðina, eins og raun er á, hefði lagt fram allmiklu meira fé en sem nemur 7.5%, gegn því að skipin hefðu verið keypt og rekin hér með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum, annaðhvort í formi hlunnindalána eða á annan hátt. Slíkt hefði fyllilega komið til greina. En að setja upp sérstök lagafyrirmæli um að skylda sveitarstjórnir til þess að leggja fram tiltekna prósentu, það tel ég mjög óeðlilegar aðfarir. Slíkt hefur aldrei verið gert áður, svo að mér sé kunnugt um.

Þar sem þetta frv. fjallar ekki á neinn hátt um það, að gert sé neitt frekar í þessum málum en að veita ríkisstj. heimild til þess að kaupa sex skuttogara í kringum 1000 rúmlestir að stærð, virðist ekki gert ráð fyrir því, að neinar ráðstafanir verði gerðar til þess að greiða fyrir þeim aðilum, sem hugsa sér að kaupa nokkru minni skip en af þessari tilteknu stærð. Það mál er enn þá algerlega óleyst, og ég held, að það sé liðið svo á þingtímann, að það sé ómögulegt annað en að ríkisstj. verði að óska eftir heimildum sér til handa til þess að hún geti mætt óskum þeirra aðila, sem vilja endurnýja togaraflotann og velja sér aðra skipastærð en hér er fjallað um. Ríkisstj. verður að óska eftir heimildum sér til handa, svo að hún geti mætt óskum þessara aðila, nema þá að það sé meiningin að láta þá sitja við allt annað borð. En ég tel mjög óhyggilegt að ætla að slá því föstu með lagasetningu á Alþ., að við endurnýjun togaraflotans, eins og nú er háttað, skuli aðeins skip af tiltekinni stærð, þ.e.a.s. 1000 rúmlestir, geta notið hlunnindalána frá ríkinu. Ég efast ekkert um það fyrir mitt leyti, að skip, sem eru rúmlega 1000 rúmlestir að stærð, verða rekin í stórum dráttum svipað því og okkar stærstu togarar hafa verið reknir að undanförnu. Þau sækja talsvert á fjarlæg mið, og þau munu mjög leitast við að sigla með aflann á erlenda markaði sem ísvarinn fisk, og þau nota ekki heimalöndun, nema þegar illa horfir um löndunaraðstöðu erlendis. Þau eru í eðli sínu of stór og of dýr til þess að hægt sé að grundvalla rekstur þeirra á því að koma að landi svo að segja vikulega eða á 8–10 daga fresti og þjóna þar fiskverkunarstöðvum í landinu. En skip af þessari stærð geta vitanlega verið afbragðsskip og aflað mikið og eru vissulega góð veiðitæki. En ég held, að við þurfum ekki síður á því að halda að eignast hér góð togskip, sem geta veitt með fullum afköstum á öllum þekktum fiskimiðum hér við landið og sérstaklega þó á okkar djúpmiðum hér við landið, sem eru nokkru minni en þetta og hæfa betur fiskverkunarstöðvunum. Og ég teldi það alveg fráleitt að segja við þá aðila, sem láta byggja slík skip og í þessum sérstaka tilgangi: Þið skuluð sitja við miklu lakara borð en hinir, sem byggja stærri skipin og hugsa sér að nota þau að verulegu leyti á sama hátt og stóru skipin hafa verið notuð. Þjóðhagslega litið á málið, þá er auðvitað enginn vafi á því, að þau skip, sem leggja upp afla sinn að langmestu leyti til vinnslu innanlands, eru hagkvæmari en þessi stóru. En þó mundi mér auðvitað ekki detta í hug að standa þannig að endurnýjun togaraflotans nú að ætlast til þess, að við keyptum einvörðungu skip af þeirri stærð. Ég álít, að einmitt skip af þeirri stærð, sem frv. fjallar um, þurfi einnig að kaupa.

Þá vil ég segja það, að ég tel, að það sé aðeins eðlilegt, að fiskveiðiþjóð, eins og við Íslendingar erum, þurfi að eignast eitt verksmiðjuskip af hagkvæmri stærð. Við þurfum að kynnast þeim rekstri og notfæra okkur þá möguleika, sem slík skip vissulega veita. Þar mundi veiðin aðallega vera stunduð á miðum, sem við Íslendingar sækjum ekki nú. Ég er hins vegar ekki að mæla með því á þessu stigi málsins, að við kaupum mörg slík skip, að endurnýjun togaraflotans fari fram í slíku formi, en ég tel mjög æskilegt, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að við keyptum a.m.k. eitt slíkt skip samhliða því, sem við förum í endurnýjun á okkar togaraflota að öðru leyti.

Ég held, að það hefði verið rétt að gera ráð fyrir í þessu frv., að ríkisstj. hefði fengið heimild til þess að veita nokkra fyrirgreiðslu í þessum efnum, og svo hefði það vitanlega orðið á ríkisstj. valdi að dæma um það, þegar til framkvæmdanna hefði komið, hvort hún hefði notað þá heimild eða ekki, hvort hún teldi sem sagt, að það væri fjárhagslegur og rekstrarlegur grundvöllur fyrir því að nota slíka heimild.

Ég tók eftir því, að hæstv. sjútvrh. sagði, að ríkisstj. hefði enn til nánari athugunar óskir þeirra aðila, sem hugsa sér að kaupa nokkru minni skip en þetta frv. fjallar um, og það er auðvitað gott út af fyrir sig, að hún hefur það til athugunar. En ég get ekki séð, þegar svo er komið, að ekki eru eftir nema 8-9 starfsdagar af þessu þingi, að það sé hægt að víkja sér undan því að veita ríkisstj. tilteknar heimildir, til þess að hún geti veitt þá aðstoð, sem þar er farið fram á, ef henni sýnist vera ástæða til þess. En hún getur ekki mætt óskum þeirra aðila án þess að hafa til þess einhverjar lagalegar heimildir. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál að þessu sinni. Það fer nú til n., sem ég á sæti í, og verður að sjálfsögðu athugað og rætt frekar, þegar það kemur aftur inn í d. En aðalatriðið, sem ég vildi segja, er í rauninni þetta, að ég tel, að þær till., sem hér eru á ferðinni, séu allt of mjóslegnar, allt of smáar. Hér getur ekki verið um að ræða till. til þess að fást við það stóra verkefni að ætla að hefjast verulega handa um endurnýjun togaraflotans, eins og nú er komið. Það þarf að gera hér miklu stærra átak en þetta frv. gerir ráð fyrir.