20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki segja nema örfá orð, vegna þess að ég hef áhuga á því, að þetta mál komist til n. og áfram. Ég stóð upp til þess að lýsa fylgi við frv., svo langt sem það nær. Það hefði verið ástæða til að ræða nokkuð almennt um togaramálin og sögu þeirra mála upp á síðkastið, en ég ætla ekki að gera það, vegna þess að ég tel, að tími sé orðinn nokkuð naumur og því ekki rétt að tefja neitt með því. Það má víkja að því við önnur tækifæri.

Um leið og ég lýsi fylgi við frv., þá vil ég taka það fram, að ég tel, að það gangi of skammt, og það þyrfti að heimila hæstv. ríkisstj. að láta smíða fleiri skip og af fleiri gerðum en ráðgert er. Mér skilst eiginlega, að menn líti þannig á, að þetta frv. heimili ekki kaup á annarri stærð en þeirri, sem getið er í sjálfri grg. Koma eiga til greina að mínu viti togarar af 500–600 tonna stærð eða eitthvað þar um kring, en það er kunnugt, að nokkrir aðilar hafa verið undanfarið að athuga kaup á slíkum skipum og vilja eignast þau og víða mikill áhugi um þau efni. Með þeim nýtízku togveiðarfærum, sem nú er farið að nota annars staðar, þótt þau séu lítið notuð hér, því miður, þá er líklegt, að slíkir togarar mundu koma að mjög miklu liði við að afla hráefnis til fiskvinnslustöðvanna víðs vegar um landið. Er ekki ólíklegt, að það séu mikil framtíðarskip, einnig af þeirri stærð. Ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir því, að fiskveiðiþjóð verður að eiga fjölbreytilegan fiskiskipaflota og í honum hin stærstu veiðiskip og allt niður í hin smæstu, til þess að allir möguleikar nýtist fullkomlega. Það er höfuðatriðið. Ég vil skora á hæstv. sjútvrh. að láta þær athuganir, sem farið hafa fram og hann ræddi um varðandi kaupin á 500–600 tonna togurum, koma inn í sjútvn. Ég heyrði, að hæstv. ráðh. sagði, að einmitt nú í þessari viku mundi þessum athugunum verða lokið og niðurstaða þeirra liggja endanlega fyrir. Þá kemur þessi spurning upp: Er ekki hægt að ná samkomulagi um að breikka málið með því að taka inn í það viðbótartill. í framhaldi af þessari athugun, sem hæstv. ráðh. hefur látið fara fram um þessi smærri skip og hann lýsti sjálfur áðan, að væri komin alveg á lokastig? Það ætti að vera svigrúm til þess að taka þann þátt togaramálsins einnig inn í þetta frv., og þá mundu allir una betur við. Sannast að segja bíða menn sums staðar með öndina í hálsinum eftir því að fá svar við þeim óskum, sem fram hafa verið fluttar, um smærri gerð togskipanna. En þó ég minni hér á smærri gerðina, þá er það ekki fyrir það, að ég telji litla nauðsyn á því að kaupa stærri skipin, sem hér er gert ráð fyrir, heldur þvert á móti þyrfti að kaupa fleiri, einnig af þeirri gerð. En aðalatriðið á þessu stigi finnst mér vera þetta: Er ekki hægt að ná því samkomulagi, að hæstv. ráðh. láti nú upplýsingar þær, sem hann hefur, og athugunina um kaupin á smærri gerðinni koma inn í sjútvn. og þar geti orðið samkomulag um að breikka málið?