25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Frsm. 1. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Þó að ég sé með sérálit hér og sértill., þá ber ekki að líta á það þannig, að ég sé á móti frv., svo langt sem það nær. Ég tel, að þetta frv., sem lagt hefur verið fram af hv. ríkisstj., nái ekki nógu langt. Það hefur nú verið svo, að hv. ríkisstj. hefur oft verið ásökuð fyrir það að kaupa ekki togara, marga togara. Satt að segja hefur mér fundizt stundum gengið of langt í ásökunum í því efni, því að þeir hafa mest talað um togarakaup, sem minnsta reynslu höfðu haft af rekstri togara, og lengstan tímann hefur það verið þannig, að bátaútgerðin hefur borið sig betur. Meðan svo var, að bátaútvegurinn var hagstæðari vegna vinnu við aflann, þá var ekki eðlilegt, að ríkisstj. legði höfuðáherzlu á að fjölga togurum. Um þetta má alltaf deila. Meðan síldin var, þá var erfitt að fá góða menn á togarana. Svo breyttist þetta, þegar dró úr síldaraflanum, þannig að þetta er breytilegt. En vafalaust getum við allir verið sammála um það, að æskilegt er að hafa togara. Hitt verða auðvitað skiptar skoðanir um, hversu langt á að ganga í því efni, hvernig sú skipting á að vera á milli báta, sem kallað er, og togara. Togari, sem keyptur er fyrir 120 millj. og siglir með aflann, ef hann er ekki rekinn með gróða, ef allur kostnaðurinn fer í það að greiða vexti og afborganir og útgerðarkostnað og kaup mannanna, þá skilar hann ekki öðru í land en kaupi mannanna, sem eru á togaranum. Bátur, sem aflar og leggur upp, það tvöfaldast verðmætið við landvinnuna, og þess vegna kemur miklu meira í vasa Íslendinga sjálfra. Leggi hins vegar togarinn upp, þá verða hlutföllin hliðstæð við bátana. Fyrir minni staðina eru minni skipin hins vegar lífsnauðsyn. Það er hvorki aðstaða viðvíkjandi legu fyrir skipin við bryggjur né nógu fljótri vinnslu á aflanum á þeim stöðum. Það eru þessi byggðarlög, sem hafa skapað mestan fiskaflann og mesta vinnuna og mestu þjóðartekjurnar. Það eru einmitt þau byggðarlög, sem gera út bátana. Við getum litið á Vestmannaeyjar og Keflavík. Þessir aðilar kæra sig ekkert um stóra togara. Vestmanneyingar keyptu einu sinni togara. Þeir seldu hann. Hins vegar eru stærri staðirnir eins og Akureyri og Reykjavík, þar sem þarf að sigla mjög langt til þess að komast á miðin og fjölmenni er mikið og það þarf mikið hráefni. Þá eru stærri togararnir hagkvæmari.

Það er þetta, sem okkur greindi á um, mig og hv. 4. þm. Austf. og hv. 2. þm. Reykn. Ég leit svo á, að ósanngjarnt væri, að minni byggðarlögin byggju ekki við hliðstæða aðstoð og þau stærri hvað skipakaup snerti. Við skulum ekki reikna með þeirri afkomu hjá togurum, sem verið hefur s.l. ár. Þar ber ýmislegt til. Það er búið að fella gengið tvisvar sinnum, 1967 og 1968. Gengislækkunin ein hefur tvöfaldað verðmæti aflans í krónutölu. Auk þess hefur verð á afurðunum stórhækkað, og til viðbótar þessu eru breytt kjör gagnvart sjómönnum. Nálægt 20% var tekið af kaupi þeirra, og útgerðin fékk það beint og óbeint. Auk þess hefur verið óvenjugóður afli og hagstætt tíðarfar. Við skulum því alls ekki reikna með hliðstæðri afkomu og hefur orðið á togurum s.l. ár og þetta ár. Þetta mun allt saman breytast. Við getum ekki búizt við þessum afla að jafnaði, ekki svo hagstæðri tíð og ekki svo hagstæðu verði. Við vitum, að þetta gengur í sveiflum. Sjómenn munu síga á að ná sínum hluta aftur.

Ég er ekki sérfræðingur í togaraútgerð, hef mest fengið upplýsingar um hana hjá Tryggva Ófeigssyni. Hann er einna vanastur að reka togara, og aðrir hafa ekki rekið þá betur hér á landi. Ég var að ræða um það við hann, hvort hann héldi, að þessir nýju togarar bæru sig. Þá hristi hann höfuðið. Hann hefur haldið því fram, þegar ég hef talað við hann, að í venjulegu árferði verði að fá togaraverðið annaðhvort með mjög lágum vöxtum eða að meira eða minna leyti greitt, eigi reksturinn að bera sig, beint eða óbeint. Lengst af hefur orðið að styðja við bakið á togurunum til þess að hægt væri að reka þá, þó að þess þurfi ef til vill ekki nú, eins og sakir standa. Ég veit, að menn, sem hafa verið búnir að afskrifa togara, eins og Tryggvi Ófeigsson, hafa grætt á togaraútgerðinni s.l. ár og þá fyrst og fremst á fiskvinnslu. Staðreyndin er sú, að á s.l. ári stórgræddu þau frystihús, sem höfðu nægilegt og gott hráefni. Við getum því ekki miðað við það, sem hefur verið nú s.l. ár.

Hér er gert ráð fyrir að kaupa sex stóra togara, um 1000 lesta, að mér skilst. Það á að lána 7.5% án vaxta til 18 ára. Svo er ætlazt til, að bæjarfélög leggi til 7.5% og hlutaféð sé 7.5%. 80% á að útvega þeim að láni. Það má reyna þetta, þótt ekki sé lagt meira fram í bili af ríkisins hálfu. Það nær þá ekki lengra. Ef þeir verða í vandræðum, þá borga þeir ekki meira en þeir geta, og þá verður vafalaust á einhvern hátt hlaupið undir bagga með þeim.

Það, sem fyrir mér vakir, er, að greitt verði fyrir minni stöðunum á hliðstæðan hátt. Það eru mörg 500–600 manna kauptún, sem hafa mikla þörf fyrir minni gerð togara. Sannleikurinn er sá, að það liggur ekkert fyrir um það, hvort hagkvæmara er að kaupa 1000 tonna skuttogara eða 300 tonna skuttogara. Það liggur ekkert fyrir um það. Ég er sannfærður um það, að fyrir þjóðina í heild verða minni skipin hagkvæmari. Þau munu veita fólkinu meiri vinnu í landi og skapa meiri hreinar tekjur í landinu sjálfu. Stærri togararnir munu frekar sigla með aflann. Eins og ég benti á áðan, þá er ekki annað eftir, ef togari skilar engum nettóágóða við siglinguna, en kaup mannanna. Hitt fer í olíu, veiðarfæri, stofnkostnað skipsins og annan rekstrarkostnað, sem að mestu leyti er erlendur eða að nær öllu leyti. Þannig er ég í engum vafa um það, að fyrir þjóðarheildina í framtíðinni verða minni togskipin og bátarnir það, sem mun afla fólkinu fyrst og fremst tekna.

Ég veit um ýmsa staði, sem vilja fá minni togskip, í mínu kjördæmi, og ég efast ekki um, að svo sé á Vestfjörðum og Austfjörðum líka, jafnvel þó að Norðfjörður vilji fá stóran togara. Norðfjörður er stærsti kaupstaðurinn á Austfjörðum. Ég ætla því að leggja fram till. Ég ætlaði að fá hana prentaða og útbýtt núna, bæði grg. og till., en það er ekki unnið í prentsmiðjunni í dag, þannig að þetta getur ekki komið nú. Þess vegna ætla ég ekki að fara fram á, að þessi till. verði borin undir atkv. fyrr en eftir helgi, ef frv. yrði þá tekið fyrir. Till. er þannig: 4. gr. frv. orðist þannig: Ríkisstj. er einnig heimilt að stuðla að smíði og kaupum á allt að 14 minni skuttogurum með því að lána án vaxta úr ríkissjóði eða atvinnujöfnunarsjóði 10% af andvirði þeirra til 15 ára. Stærð þessara skipa skal vera 250–700 lestir. Ríkisstj. skal vinna að því, að heimahöfn þessara skuttogara verði í kauptúnum og minni kaupstöðum, enda sé stærð þeirra miðuð við þá aðstöðu, sem þeir eiga væntanlega við að búa hvað snertir löndun og vinnslu aflans. Ríkisstj. er heimilt að taka fyrir hönd ríkissjóðs lán í þessu skyni, ef með þarf.

Þessi till. er rúm. Mér skildist á hv. 4. þm. Austurl. og hv. 2. þm. Reykn., að þeir vildu hafa stærðarhlutföllin frá 500–700 lestir. Fyrir mér vakti fyrst og fremst að styðja þá, sem óskuðu eftir að fá minni skip, sem eru þeim hagkvæmari. Ég tala eingöngu um 10%. Ég tala líka um atvinnujöfnunarsjóð. Sannleikurinn er sá, að atvinnujöfnunarsjóður á áð hafa töluvert mikið fé til umráða á næstunni. Það er ekki ólíklegt, að það verði um 100 millj. á ári. Nákvæmlega get ég ekki sagt um það. Ég get ekkert fullyrt um, hvað fæst út úr þessum álskatti. Það er ekki ólíklegt, að það verði upp undir 100 millj. á ári. Nú er þetta ekki lánað með háum vöxtum.

Svo er verið að krefja þetta aftur inn. Ég satt að segja er í dálitlum vafa um, hvort þetta sé að öllu leyti rétt stefna, hvort ekki væri viturlegra að leggja fram óafturkræft framlag til vissra hluta, vera ekki sífellt að innheimta, greiða einhvern ákveðinn hluta eða leggja fram óafturkræfa upphæð eða vaxtalausa upphæð, þannig að ekki þurfi alltaf að vera að hjálpa vissum aðilum. Við skulum segja 10% af togara, sem kostar 50 millj., það eru 5 millj. Ef ætti að taka þær að láni í þessum atvinnumálasjóði, þá eru það 450 þús. í vexti á ári, og þar að auki er þetta gengistryggt lán.

Sannleikurinn er sá, að það að taka lán úr þessum atvinnumálasjóði fyrir útgerðina er í raun og veru ógerlegt. Þarna eru 8–9% vextir og þar að auki gengistryggt. Við vitum, að í meðalári hefur útgerðin aldrei borið svo háa vexti. Ég veit, að það er verið að krefja um þessi lán mönnum til leiðinda, og sumir geta ekki borgað þau. Ég er í stórum vafa, hvort það væri ekki rétta aðferðin, að atvinnujöfnunarsjóður legði fram ákveðnar upphæðir árlega sem óendurkræfar, einhvern hluta af því, sem hann hefði til að lána út árlega, reyna svo að láta fyrirtækin standa á eigin fótum á eftir. Það er búið að fella gengið hvað eftir annað, af því að útgerðin hefur ekki borið sig. Er það betra fyrir fólkið í landinu að hafa vextina háa og leggja ekki fram neitt óendurkræft fé? Svo rekur að því, að útgerðin ber sig ekki. Þá er gengið lækkað. Er eigi betra að lána með skaplegum vöxtum og þurfa ekki að lækka gengið? Ég álít, að verst af öllu sé gengislækkun. Gengislækkun er ekkert annað en að taka hluta af sparifé landsmanna og hluta af kaupi fólksins. Fólkið hættir að treysta á alla samninga. Til hvers er þá verið að semja um kaup, þegar ekki er hægt að borga kaupið, en gengið bara lækkar. Þegar verkalýðsleiðtogararnir eru búnir að pota upp kaupinu, þá er verðgildi krónunnar minnkað. Þetta er tilgangslaust basl. Við verðum að geta treyst á gjaldmiðilinn fyrst og fremst. Það er undirstaða undir öllu heilbrigðu fjármálalífi og öllum samningum.

Það er leitt, að sjútvrh. er ekki við. Ég hafði heyrt ávæning af því, að ríkisstj. sjálf mundi leggja fram frv. viðvíkjandi minni skipunum og veita þeim einhverja hliðstæða fyrirgreiðslu og þeim stærri. Ég hef heyrt, að slíta eigi þingi á fimmtudaginn kemur. Hvort svo verður eða ekki, veit ég ekki, en litlar líkur eru til, að lagt verði fram frv. af hendi stjórnarinnar og það nái fram að ganga á þeim dögum, sem eftir eru. Sé það gert, þá nær það ekki lengra. Þá get ég gjarnan tekið mína till. aftur. En ég vildi, að þessi skoðun mín kæmi fram.

Ég vil vekja eftirtekt á því, að ég tel, að það skipti meira máli að stuðla að því, að hin minni byggðarlög geti fengið skip við sitt hæfi og fyrirgreiðslu í því efni, en að kaupa þessa sex stóru togara, þótt ég ætti engan veginn að gera lítið úr þeirri þýðingu, sem það hefur. Ég hef heyrt, að það eigi að lána til minni skipa. Ég skal ekki segja, hvað á að kalla togskip, togara eða togbát. Það má endalaust deila um það. Það er farið að mæla skipin á annan hátt en gert var. Ég hygg, að þessi 250 lesta skip, sem ég hef fyrir lágmark, jafngildi 300 tonna skipum, eins og mælt var hér áður. Ég hygg, að það mætti alveg eins kalla 300 lesta skuttogara togara eins og 500 lesta eða 700 lesta, það er ekki aðalatriðið. Það er aðalatriðið, að skipið togi og geti togað. Ég sé ekki nokkra einustu ástæðu til að láta minni skipin sitja við önnur og lakari kjör en þau stærri.

Ég hef heyrt, að það eigi að lána 5% úr atvinnujöfnunarsjóði, 10% úr atvinnumálasjóði, sem var nú eitthvað verið að lána úr í fyrra, með okurvöxtum, 8 eða 9%, og þar að auki sé það gengistryggt. Ég tel þau lán ekki takandi fyrir útgerðina. Svo ætlar fiskveiðasjóður að lána 75%. Eigendur þurfa að leggja fram 10%. Nú er þess að gæta, að það verða ekki allir bátarnir smíðaðir innanlands, og út á skip, sem smiðuð eru erlendis, verður ekki lánað nema 67%. Ef ríkið hlutaðist til um það, að úr atvinnujöfnunarsjóði eða á einhvern annan hátt væri lánað 10% vaxtalaust í 15 ár, eins og ég legg til í minni till., þá þyrfti viðkomandi aðili ekki að taka lán í þessum atvinnumálasjóði, sem eru ókjaralán. Það mundi, eins og ég benti á áðan, geta sparað þeim, sem keyptu togara fyrir 50 millj., 400–450 þús. kr. á ári að fá þessi 10% þannig: Það væru 5 millj., sem þeir fengju þá. Það getur ráðið úrslitum um, hvort skipið ber sig eða ekki.

Það er, eins og ég sagði áðan, leitt að sjútvrh. skuli ekki vera við, en hv. forsrh. er nú hér, og hann hefur gott minni. Ég veit þess vegna, að allt kemst í réttan stað, sem sagt er í hans eyru. En ég vænti þess nú, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki, að ríkisstj. greiði einhvern veginn fyrir þessu máli viðvíkjandi minni skipunum, þannig að þessi bæjarfélög geti fengið sér þá báta, sem hagkvæmir eru og nauðsynlegir eru fyrir minni byggðarlögin. Við vitum það, að þar er mikil vinnuorka, sem ekki nýtist að fullu, ef ekki eru skip til þess að afla þessa hráefnis.

Ég mun greiða atkv. með þessu frv., þrátt fyrir það að ég telji það ekki ná nógu langt og þó að ég, eins og ég tók fram áðan, sé í miklum vafa um það, hvort ekki væri hagstæðara fyrir okkur að kaupa 1000 lesta togarana en minni skip. Reynslan ein getur skorið úr því.