25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við það frv., sem hér er til umr. Mér finnst ekki óeðlilegt, þegar verið er að vinna að lausn þess vandamáls, sem sjávarútvegur hefur átt við að glíma, að einstakir þættir séu teknir fyrir og reynt að ljúka við að leysa þann vanda, eins og hér er gert, þ.e.a.s. í sambandi við útgerð á stærri togurum. Það er hins vegar skoðun mín, að þær till., sem hér liggja fyrir, séu ekki þess eðlis, að það skapist grundvöllur fyrir togaraútgerð hér við Ísland, eins og þarf að vera. En ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með þessu frv. til þess þó að koma því áleiðis, sem hægt er að gera í þeim efnum.

Ef við lítum til okkar næstu nágranna, þá sjáum við, með hvaða hætti þeir hafa tekið á þessum málum, t.d. Bretar, sem strax við byggingu stærri togara greiða niður stofnkostnað, einfaldlega vegna þess, að byggingarkostnaður þessara stóru skipa er orðinn svo mikill, að reksturinn getur ekki borið hann. Við sjáum, hvað Færeyingar gera. Þeir greiða niður 40%, ef byggt er hjá þeim sjálfum, 30% ef byggt er erlendis.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, en vildi láta þessa skoðun mína koma hér í ljós, að sá grundvöllur, sem þessar till. eru byggðar á, er að mínum dómi ekki nægilega traustur til þess að við getum rekið togaraútgerð við Ísland, eins og við höfum getað gert, þ.e.a.s. áður en fór að síga á ógæfuhliðina í þeim efnum.