27.04.1970
Neðri deild: 86. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

206. mál, kaup á sex skuttogurum

Frsm. 1. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Vegna brtt., sem liggur frammi frá mér, langar mig til að segja örfá orð. Hún er aðallega þess efnis, að ríkið styrki með vaxtalausu láni til 15 ára minni gerð togara en gert er ráð fyrir í frv. eða togara allt frá 250–700 tonn. Hún grípur þess vegna yfir það í raun og veru, sem lagt var til af hv. 2. þm. Reykn. og hv. 4. þm. Austf. um togara frá 500-700 tonn. Hún nær yfir stærra bil.

Ég geri ráð fyrir, að fiskveiðasjóður láni yfirleitt til minni skipa, a.m.k. ætti að vera eðlilegt, að hann gerði það. Það er ekkert lakara að útvega fiskveiðasjóði lán til að lána til minni togara en til stærri báta í sjálfu sér. En hvaða leið sem farin yrði í því efni, þá er ekki hægt að búast við, að úr fiskveiðasjóði eða öðrum sjóðum hliðstæðum fáist nema 75%. Ef gert væri ráð fyrir, að atvinnujöfnunarsjóður láni 5%, þá vantar 20%. Því hef ég hugsað þetta þannig, að heiman kæmi, annaðhvort frá bæjarfélögum eða í hlutafé, sem svaraði 10%, og svo þetta 10% lán á móti. Ég hef heyrt, að það hafi verið gert ráð fyrir, að það fengist úr atvinnumálasjóði 10% lán til þessara skipakaupa. En eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, þá tel ég það óaðgengileg kjör að greiða 8 eða 9% vexti og gengistryggingu að auki.

Það eru margir skattar á útveginum, og við getum ekki búizt við hliðstæðu ári eins og nú er. Það er t.d. núna með lífeyrissjóði sjómanna verið að leggja á hvern einasta bát í landinu af stærri bátum sennilega 100–200 þús. kr. útgjöld. Þó að líklegt sé, að bátarnir beri sig sæmilega í ár, þá kemur ár á eftir þessu ári, og við skulum ekki búast við, að þau verði hliðstæð, hvorki um verðlag né afla, við það, sem nú er.

Ég reikna ekki með, að þessir togarar, sem ég tala um í þessari till., verði byggðir á einu eða tveimur árum. Það á eftir að undirbúa málið, og þeir verða ekki byggðir allir í einu. Gera má ráð fyrir, að tekjur atvinnujöfnunarsjóðs aukist, eftir því sem skatturinn hækkar af álvinnslunni. Ég hef ekki komið með frv. um þetta efni, af því að ég gerði ráð fyrir, að ríkisstj. legði fram frv. En nú er orðið áliðið þingsins og ekkert frv. hefur komið frá ríkisstj. Ég veit ekki nákvæmlega um, hvað hún ætlar sér í þessu efni, en skoðun mín er sú, að það sé óverjandi að ætla að fara að styrkja kaup á stórum skipum án þess að styðja kaup á minni gerðum togara líka. Það er ekki sanngjarnt eða réttlátt.

Mér hefur verið það ljóst, eftir að seinni gengisfellingin fór fram, að það leggur enginn í að kaupa stór togskip án þess að fá einhvern stuðning, beinan eða óbeinan. Og þó að einhver félög réðust í að taka lán eins og hjá atvinnumálasjóði með þessum háu vöxtum og gengistryggingu, þá er það ekkert betra en veita þeim einhverja fyrirgreiðslu í byrjun, sem geri þeim kleift að standa í skilum, því að þau rísa ekki undir því að standa í skilum á þann hátt. Og ég held, að lakasta leiðin gagnvart atvinnurekendum eða atvinnurekstrinum, hvort sem hann er rekinn af hlutafélögum eða einstaklingum, sé að hafa byrðarnar svo þungar, að þeir gefist upp. Og þess vegna er það mín skoðun, að það hefði verið miklu betra að hafa vextina lægri á lánum, sem togararnir fá, en ekki bein framlög úr ríkissjóði. Úr því að ríkisstj. fer inn á þá leið að leggja fram vaxtalaust framlag til skipakaupa, hvar verður þá numið staðar? Verða ekki kröfurnar alltaf meiri og meiri? Og þó að e.t.v. verði hægt að byggja þessa sex togara og selja þá hlutafélögum eða einhverjum öðrum aðilum, þá er ekki þar með sagt, að það verði staðið í skilum um andvirði þeirra með þeim vöxtum, sem eru á þeim lánum, sem þeir verða að taka, og gengistryggingu sennilega þar að auki. En menn geta stofnað hlutafélög, ef þeir eru ekki persónulega ábyrgir fyrir lánum, og byggðarlögin hugsa sem svo: Við töpum ekkert á þessu. Við borgum ekki meira en við getum, og hitt verður ríkisábyrgðasjóður eða einhver annar aðili að greiða. En ég held, að sú stefna, sem hefur verið tekin í þessum sjávarútvegsmálum, hafi ekki verið rétt að því leyti til.

Meðan hv. I. þm. Austf. réð miklu í fjármálum á Íslandi, þá voru 4% vextir af skipum. Sjálfstfl. hefur a.m.k. alltaf hampað því, að hann ætlaði að efla einstaklingsframtakið í landinu, en ef maður lítur nú yfir það, sem er að gerast í landinu, þá er það það, að einstaklingar gera meira og minna að því að selja eignir sínar hlutafélögum, sem eru stofnuð með eins konar samskotafé, og vitað er, að þau geta ekki staðið í skilum, ef eitthvað ber út af, og eina einstaklingsframtakið, sem hefur lifað sómasamlegu lífi í þessu landi, er það, sem til var, áður en þessi hv. ríkisstj. tók við. Það eru því menn, sem voru þá búnir að kaupa báta og eru ekki með gengistryggð lán. Það eru útgerðarmenn í Vestmannaeyjum og Keflavík, þeir menn, sem voru búnir að eignast báta fyrir 1960, það eru þeir, sem standa sig bezt nú, m.a. af því að þeir búa við hagstæðari lánakjör. Það eru þeir, sem ekki hafa lagt í ábyrgðarlítið brask. Þannig held ég, að Sjálfstfl. stefni ekki alveg í rétta átt í þessum einstaklingsframtaksmálum, sem hann hefur alltaf verið að vegsama. En þetta lagast nú e. t. v. allt, þegar fjárfestingarfélagið er komið og farið að stjórna fjárfestingarmálum. Þá dafnar nú einstaklingsframtakið í landi voru.

Það er venja hér yfirleitt, að ekkert verði samþ., sem ríkisstj. kemur ekki með. Við vitum það ósköp vel. Ég bjóst við, áð ríkisstj. legði fram frv., af því að það er venjan. Það hefur ekki komið fram. En ég vona, að þetta verði frekar til þess að vekja hana, að hún hreyfi sig eitthvað í þessu efni, því að ég veit um marga aðila, sem biða eftir úrlausn í þessu efni, að fá sér minni togarana vegna sinna byggðarlaga til þess að geta haft þar atvinnulíf í lagi. Því er það ekki að nauðsynjalausu, sem ég flyt þessa till. Ég vona því, að jafnvel þótt stjórnarliðar samþykki ekki þessa till., — það er þó engan veginn vonlaust, að einhver verði með henni úr stjórnarliðinu, till. er bæði skynsamleg og vel orðuð, að þessi flutningur á till. verði til þess, að ríkisstj. rumski eitthvað, geri eitthvað í þessu efni.

Ég vil svo ekki þreyta ykkur lengur á þessari ræðu, þó margt mætti um þetta mál segja. En vil þó láta þá ósk í ljós, að ég vona að Sjálfstfl. breyti stefnu sinni, að hann efli einstaklingsframtakið á komandi ári í stað þess að lama það, eins og hann hefur gert að undanförnu, þannig að minna beri á skrautfjöðrum Eysteins í því efni en gerir nú.