13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og nál. á þskj. 538 ber með sér, mælir n. einróma með samþykkt frv., en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt. N. flytur á þskj. 539 tvær brtt. við frv., sem ég skal nú gera grein fyrir í örstuttu máli.

Eins og hv. dm. mun kunnugt, hefur verið komið á fót tveimur lífeyrissjóðum úti á landi, sem gert er ráð fyrir eða ætlazt til af þeim, sem stofnað hafa þessa sjóði, að yrðu sjálfstæðar stofnanir án tengsla við lífeyrissjóðinn. Þetta hefur, eins og grg. frv. ber með sér, verið deilumál innan þeirrar n., sem um þetta fjallaði. Þess er getið í nál., að n. hafi kallað á fund sinn þrjá þeirra, sem áttu sæti í n., sem undirbjó frv., en það voru þeir Guðjón Hansen, sem vann sem sérfræðingur að undirbúningnum, Gunnar Hafsteinsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Jón Sigurðsson, formaður Sjómannasambandsins, fulltrúi sjómanna. Allir þessir menn tjáðu sig því andvíga á nefndarfundinum, að frekari heimildir yrðu veittar í þessu efni en þær, sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir, en samkv. henni skal ráðh. hafa heimild til að löggilda slíka sjóði. Þeir aðilar, sem hér áttu hlut að máli, töldu þó þetta heimildarákvæði ófullnægjandi og fóru fram á það, að skylt yrði a.m.k. að löggilda þá sjóði, sem þegar væru stofnaðir. Þess má enn fremur geta í sambandi við þetta, að mér hefur borizt bréf frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Mér barst það að vísu fyrst eftir að n. hafði afgreitt málið, en ég tel rétt að kynna hv. d. þetta erindi, en þar er tekið í sama streng, Farmanna- og fiskimannasambandið er andvígt skiptingu sjóðanna. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til samninga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands við Landssamband ísl. útvegsmanna og laga nr. 2 18. febr. 1969, er það eindregin ósk vor, að ekki verði hvikað frá ákvæðum laga um, að bátasjómenn verði í einum og sama sjóði. Í öðru lagi, að ekki verði hægt að stofna til sérsjóða fyrir yfirmenn bátaflotans, nema samþykki Farmanna- og fiskimannasambands Íslands komi til við stofnun þeirra, þ.e. fyrir skipstjóra, stýrimenn og vélstjóra. Ekki mun Farmanna- og fiskimannasamband Íslands gera ágreining um stofnun lífeyrissjóðs fyrir Vestmanneyinga.

Virðingarfyllst,

f.h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Ingólfur Stefánsson.“

N. taldi sig í töluverðum vanda stadda að samræma þau andstæðu sjónarmið, sem hér var um að ræða. Hún taldi að athuguðu máli ekki rétt að fara þá leið, sem kröfur höfðu komið fram um, eins og ég minntist á, að löghelga skilyrðislaust þá sjóði, sem þegar hefðu verið stofnaðir, en nota heimildarákvæði um aðra sjóði með tilliti til þess, að það verður nokkuð tilviljanakennt, hvaða sjóðir hafa þegar verið stofnaðir og hvaða óskir kunna að koma fram um það síðar að stofna nýja sjóði. Þess vegna hefur n. lagt til, að sú leið verði farin, sem fyrri brtt. á þskj. 539 gerir ráð fyrir, að ráðh. sé skylt að ákveða, að sjómenn, sem eru lögskráðir í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum, skuli vera utan við sjóðinn, ef fram koma um það óskir frá félögum sjómanna og útvegsmanna á þeim stöðum og forsvaranlega er frá lífeyrissjóðsmálum hlutaðeigandi manna gengið. Samkv. þessu er það sett sem almenn regla, að slíka sjóði skuli löggilda, þar sem samstaða er um það milli aðila, en þó settur sá varnagli, sem við teljum, að skapi nokkra tryggingu fyrir því, sem auðsætt er, að mundi vera óæskilegt, að sjóðirnir verði ekki allt of smáir, að forsvaranlega verði að vera frá lífeyrissjóðsmálunum gengið. Það er svo komið undir dómi hv. d., hvort hún fellst á þá millileið, sem hér hefur verið lögð til.

2. brtt. n. er flutt samkv. ósk fjmrn., en það lagðist mjög gegn þeirri skipan, sem frv. gerði ráð fyrir, að lögskráningarstjóri skyldi innheimta iðgjöld sjóðfélaga. Hér er gert ráð fyrir samkv. brtt., að það ákvæði falli niður. En til þess að skapa aukið aðhald um innheimtu iðgjaldanna, eru sett ákvæði um það samkv. þeirri brtt., sem n. hefur flutt, að sé um vanskil að ræða af hálfu útgerðar, skal lögskráningarstjóri ekki skrá á hlutaðeigandi skip, ef krafa hefur komið fram um það af hálfu sjóðsstjórnar.

Þetta eru þær brtt., sem n. hefur flutt. Ég tel rétt að segja frá því, að í n. var enn fremur ræddur sá ágreiningur, sem var í n. þeirri, sem undirbjó frv., um stjórn sjóðsins, en í því efni má að öðru leyti vísa til grg, fyrir frv., þar sem þessum ágreiningi er lýst. N. hefur þó ekki komið sér saman um flutning brtt. um þetta efni, en eins og ég gat um, þá hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt. en þeim, sem n. flytur. Enn fremur tel ég rétt að skýra frá því, að það kom fram munnlega á stuttum fundi, sem ég átti með fulltrúum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, að þeir óskuðu eftir, að athugaðir yrðu möguleikar á því að láta bráðabirgðaákvæði laganna ná til eldri yfirmanna á farskipum. Þetta mun n. einnig hafa til athugunar á milli 2. og 3. umr.

Herra forseti. Að öðru leyti leggur n. til, að frv. verði samþ. við þessa umr. með þeim brtt., sem hún hefur flutt.