13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er í sambandi við þessar brtt., sem n. flytur, sem ég vil gera örstuttar aths.

Varðandi fyrri brtt. er það að segja, að ég hef ekkert við það að athuga, að stofnaðir séu sérsjóðir í ýmsum landshlutum, ef það fyrirkomulag er álitið hagkvæmara en hafa þetta allt í einum sjóði. En ég vil taka undir það, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að þá er auðvitað höfuðatriðið, að það sé forsvaranlega gengið frá þeim lífeyrissjóðum, sem væntanlega á að fara að stofna. Og þá sýnist mér, að hér vanti viðbót við þessa brtt., sem flutt er á þskj. 539. Þar segir aðeins: „Og forsvaranlega er frá lífeyrissjóðsmálum hlutaðeigandi manna gengið.“ Þarna segir ekkert um það, hver eigi um það að dæma. Í sjálfu frv. er þó að sjálfsögðu út frá því gengið, þar sem rætt er um heimild ráðh. til þess að löggilda þessa sjóði, að það sé ráðh., sem meti það, hvort tryggilega sé gengið frá lífeyrissjóðsmálunum. Mér sýnist, að þetta sé algerlega óákveðið, ef það er ekki kveðið á um það, hvaða aðili það á að vera, sem á mat á því, hvort gengið er tryggilega frá lífeyrissjóðsmálunum. Það getur auðvitað ekki verið meiningin að selja hlutaðeigandi sjóðsstjórn í hverju umdæmi sjálfdæmi um það. Á þetta vildi ég aðeins benda. Ég held, að þetta liggi í augum uppi, að það verður að vera einhver aðili, sem sker úr því og metur það, hvort það er nægilega tryggilega frá lífeyrissjóðsmálunum gengið eða ekki.

En aðalaths. mín lýtur að 2. brtt. Þar er lagt til að breyta um innheimtufyrirkomulag frá því, sem ráð er fyrir gert í þessu frv. Það álít ég sannast að segja mjög varhugavert. Í sambandi við lífeyrissjóð togarasjómanna og farmanna er það sannast sagna, að einir aðalerfiðleikarnir í sambandi við hann hafa verið innheimtuerfiðleikar. Ég geng út frá því, að þeim, sem sömdu þetta frv., hafi verið það ljóst og þeir hafi enn fremur gert sér grein fyrir því, að enn erfiðari yrði innheimtan, þegar þeir aðilar bættust við, sem þetta frv. fjallar um, en þeir eru margir og dreifðir og erfitt að ná til þeirra. Þess vegna hafa þeir auðvitað horfið að því ráði að fela lögskráningarstjórunum innheimtuna og binda lögskráninguna því skilyrði, að staðið hafi verið í skilum með greiðslur iðgjalda. Þetta fyrirkomulag er einfalt og eðlilegt að mínum dómi og í samræmi við það, sem tíðkast að ýmsu öðru leyti um innheimtu gjalda, að það séu lögskráningarstjórarnir, sem annast þessa innheimtu. Það held ég, að sé hið eina skilvirka innheimtufyrirkomulag í þessu efni. En ég held, að það sé mjög varhugavert, og ég vil vara eindregið við því að velja þá leið, sem þarna er stungið upp á í þessari brtt., þar sem gert er ráð fyrir, að sjóðsstjórnin annist innheimtu sjálf, og látum það nú vera. En það er jafnframt sagt, að það skuli ekki skrá á hlutaðeigandi skip, ef krafa kemur fram um það af hálfu sjóðsstjórnar. Með slíku ákvæði er sjóðsstjórn satt að segja sett í alveg óviðunandi aðstöðu og óþægilega, þannig að það er ekki nokkurt vit í slíku að mínum dómi. Þá er það þannig, að þegar á að fara að lögskrá á eitthvert skip, þótt vanskil verði, þá er farið að skírskota til sjóðsstjórnar og óska eftir því, að hún standi nú ekki í vegi fyrir, að skráð verði á þetta skip, mikið liggi við, að það komist út o.s.frv. Ég held, að þetta sem sagt sé mjög vanhugsað og óheppilegt í alla staði. Ég hefði a.m.k. talið ástæðu til, áður en slíkt ákvæði er samþ., að þá hefði verið haft samband við þá menn, sem eiga að sjá um framkvæmd á þessum l., og þá eru það fyrst og fremst starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins, sem hafa með framkvæmdina að gera. Ég verð að segja það, að ég hefði talið fulla ástæðu til að hafa samband við þá og leita eftir áliti þeirra á þessu atriði.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst, að það hefði verið mjög eðlilegt og í samræmi við venju, að þetta frv. hefði verið sent til umsagnar sjóðsstjórnar þess lífeyrissjóðs, sem hér á hlut að máli. Þó að þetta frv. byggist á samningi, sem gerður hefur verið, og ekki sé ástæða til þess að ætla, að út af því verði brugðið, þá er þó geri ráð fyrir því að fella þennan sjóð inn í annan sjóð, sem fyrir er, og fela sjóðsstjórn þess heildarsjóðs framkvæmd þessara mála. Það hefði að mínu viti verið eðlilegt, að leitað hefði verið umsagnar þeirrar sjóðsstjórnar um viss framkvæmdaatriði í þessu sambandi, og slíkt hefði verið mjög auðvelt að gera að mínum dómi, þar sem þetta frv. er flutt fyrir löngu og hefur verið hér lengi til meðferðar, og það hefði því engin töf af því stafað, þó að leitað hefði verið álits sjóðsstjórnarinnar um frv. Sannleikurinn er líka sá, að í l. um lífeyrissjóðinn, lífeyrissjóð togaramanna og farmanna, eru viss ákvæði, sem þörf væri á að breyta, og hefði að mínum dómi verið eðlilegt að nota þetta tækifæri einmitt til þess að breyta þeim í leiðinni. En það hefur ekki verið gert. Segja má, að tækifæri verði til þess síðar, en það hefði að mínum dómi verið eðlilegt að leita eftir því einmitt við sjóðsstjórnina, hvort væru ekki einhver önnur ákvæði í sambandi við þetta mál, sem óskað væri þar breytinga á.

Enn fremur og að lokum vil ég aðeins minnast á skipun stjórnarinnar. Ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, þá leiðir af því, að það er felldur niður einn aðili, sem hefur nú rétt til að skipa í stjórn þessa sjóðs. Ég hygg, að það sé heldur óvenjulegt og óeðlilegt að fara þannig að, þegar áður var búið að viðurkenna þann aðila þannig. að hann hefði tilnefningarrétt, og staða hans í sambandi við þennan sjóð hefur ekki á neinn hátt breytzt, að fara að svipta hann þessum rétti. Mér sýnist, að það hefði nú verið auðvelt að finna leið í þessu efni, annaðhvort þá, að Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaganna kæmu sér saman um tilnefningu manns eða tilnefndu mann fyrir sitt hvert tímabilið, eða þá, ef slíkt þætti ekki fært, að horfið væri þá að því ráði að fjölga um tvo í þessari stjórnarnefnd. Það getur auðvitað ekki skipt neinu meginmáli, hvort n. er skipuð 7 mönnum eða 9. Ég held, að það væri æskilegt, að um mál sem þetta væri samkomulag, og ég dreg í efa, að það sé að vilja sjómannasamtakanna, að einn aðili, sem hefur haft þennan tilnefningarrétt og haft mann í stjórninni, sé sviptur þessum rétti í sambandi við þetta mál. Ég dreg það alveg í efa. Og a.m.k. hefði verið full ástæða til þess að leita þá eftir skýrri umsögn þeirra samtaka, sem að þessum sjóði hafa staðið. Á þetta vildi ég nú aðeins benda. En umfram allt vil ég leggja áherzlu á það, að ég tel 2. brtt. á þskj. 539 sérstaklega varhugaverða, og ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. gegn henni. Ég vil sérstaklega mælast til þess, að n. taki þetta til frekari athugunar, að hún hafi samráð og kalli til viðtals við sig þá menn í Tryggingastofnun ríkisins, sem hafa með innheimtu að gera fyrir þennan sjóð, og leiti eftir áliti þeirra á því, hvor innheimtuleiðin muni verða heppilegri. Ég skil satt að segja ekki almennilega þau rök, sem hér voru flutt fram, að þetta væri gert samkv. beiðni fjmrh. eða fjmrn. Ég get ekki beint skilið það, hvað það getur haft á móti því, að lögskráningarstjórarnir annist þessa innheimtu. Með því úrræði, sem þarna er lögboðið, á það að vera þeim mjög auðvelt, þ.e.a.s. þeir lögskrái alls ekki, ef vanskil verða. Og í þessu efni þýðir ekkert annað en hafa þvílíka skýra og ótvíræða reglu. Annars verður þetta ákaflega erfitt í framkvæmd að mínum dómi.