13.04.1970
Efri deild: 68. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þeim aths., sem hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði hér.

Í fyrsta lagi var það við þá brtt., sem n. flutti um skyldu ráðh. til þess að löggilda þá sjóði, sem samkomulag yrði um milli aðila á viðkomandi stöðum. Hugsun n. var sú, þó að það sé ekki beint tekið fram, að það yrði ráðh., sem mæti það, hvort forsvaranlega væri frá lífeyrissjóðsmálunum gengið, og n. taldi ekki nauðsyn bera til, að það yrði skýrt tekið fram. Hins vegar mundi ég ekki fyrir mitt leyti í sjálfu sér hafa neitt við það að athuga, þó að það væri skýrt tekið fram, en n. taldi, að þannig hlyti þetta að verða skilið.

Varðandi brtt. n. um það að fella niður skyldu lögskráningarstjóra til þess að innheimta iðgjöldin, þá vil ég leyfa mér að lesa hér upp — með leyfi hæstv. forseta — kafla úr bréfi frá fjmrn., sem n. barst um þetta, en á grundvelli þess taldi hún ekki annað fært en að koma til móts við óskir fjmrn. í þessu efni. Þetta hljóðar þannig:

Hv. fjhn. Ed. Alþ. hefur nú til meðferðar frv. til l. um breyt. á I. um lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á farskipum. Frv. þetta er stjfrv., en við skoðun þess í þessu rn. hafa rn. yfirsézt ákvæði, sem það telur nauðsynlegt að taka til athugunar og endurskoðunar. Hér er um að ræða ákvæði í 5. mgr. 6. gr. frv., þar sem skráningarstjóri er gerður að innheimtumanni fyrir lífeyrissjóðinn. Þetta er breyting á fyrirkomulagi, sem er stefnubreyting frá því, sem verið hefur, og er varhugavert að því leyti, að nú eru í uppsiglingu mjög margir lífeyrissjóðir, sem eflaust mundu vilja njóta þeirrar fyrirgreiðslu að fá opinberan aðila sem innheimtumann fyrir sjóðinn. Skráning skipverja á skip hefur verið mjög umfangslítið starf, en með því að blanda þeirri starfsemi saman við innheimtu til þessa lífeyrissjóðs, yrði um að ræða mjög brotamikið kerfi, sem engin leið er að sjá fyrir endann á.“

Þetta eru þau rök, sem fjmrn. hefur fært fyrir því, að ekki sé fært að taka upp þá skipan, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir. Og n. treysti sér ekki til þess að ganga á móti þessu.

Varðandi það atriði, að rétt hefði verið að vísa þessu frv. til umsagnar stjórnar núverandi lífeyrissjóðs, þá er það auðvitað alltaf álitamál, hverjir eigi að fella umsögn um þau frv., sem fyrir liggja. Það kom engin till. fram um það í d., og á það má benda í þessu sambandi, að sjóðsstjórninni hefur verið kunnugt um það, að þetta frv. hefur um nokkurt skeið legið fyrir Alþ., þannig að lægi henni eitthvað sérstakt á hjarta í sambandi við frv., sem hún óskaði eftir að koma á framfæri við n. eða Alþ., þá hefði það auðvitað verið hægt. En þetta verður auðvitað alltaf álitamál.

Varðandi það atriði, sem ég drap að vísu á í framsöguræðu minni og hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði aths. við, en það var um stjórn lífeyrissjóðsins, þá kemur það fram í grg. fyrir frv., að um þetta atriði var ágreiningur í þeirri n., sem undirbjó það, og enn fremur kemur það fram, að till. hafði komið um það í þessari n., að sá háttur yrði framvegis hafður á, sem verið hefur, að Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasambandið tilnefndu mann sameiginlega. En það kemur einnig fram í grg. og á því fékk ég staðfestingu hjá Vinnuveitendasambandinu, að báðir aðilar lögðust gegn þeirri skipan, enda augljósir gallar á því, að tveir aðilar tilnefni þannig sameiginlega. Hitt hefði líka auðvitað getað komið til greina að fjölga í stjórninni, en stjórnarmeðlimir eru nú þegar 7, og okkur þótti það nokkuð viðamikið að setja þarna á laggirnar 9 manna stjórn. Hins vegar held ég, að mér sé óhætt að fullyrða það, að enginn nm. hefur haft neinn áhuga á því að útiloka þarna Vinnumálasambandið. En ef gera hefði átt upp á milli þessara tveggja aðila, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins, þá mun Vinnuveitendasambandið vera þarna stærri aðili, og n., sem undirbjó frv., hefur a.m.k. litið þannig á eða meiri hl. hennar, að eðlilegra væri þá, að Vinnuveitendasambandið hefði sinn aðila.

Annars eru þetta, sem ég sagði um stjórnina, aðeins mínar eigin hugleiðingar. Ég tók fram í framsöguræðunni, að þetta hefði verið rætt í n., en hún hefði ekki komizt að neinni sameiginlegri niðurstöðu um breytingu á þessu, en hins vegar hafa einstakir nm. rétt til þess að flytja og fylgja brtt. bæði um þetta atriði og önnur.