28.04.1970
Efri deild: 84. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

146. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er hingað komið aftur vegna breyt., sem á því var gerð í hv. Nd., og þykir mér rétt að gera grein fyrir þessari breyt., til þess að hv. þdm. sé ljóst, hvað hér er um að ræða.

Eins og menn muna, þá var sú breyt. gerð á frv. hér í þessari hv.d., að sjómönnum var heimilað að gerast aðilar að öðrum sjóðum en hinum ákveðna lífeyrissjóði, sem frv. fjallaði um, en þar var gert ráð fyrir, að þeir væru allir í einum sjóði. En eftir breyt. hér í hv.d., þá mundu sérsjóðir undir vissum kringumstæðum vera heimilir, eða þá, að þeir sjómenn gætu gerzt aðilar að öðrum sjóðum.

Í frv., eins og það var lagt fyrir Alþ., var svo ákveðið, að það skyldi vera lögveð í skipum vegna iðgjaldagreiðslu í sambandi við greiðslur til hins sameiginlega sjóðs, sem þar var gert ráð fyrir, en eftir að sú breyt. var gerð á frv. hér í Ed., að sjómönnum er heimilað að vera í öðrum sjóðum, þá mundi þessi lögveðsréttur ekki gilda varðandi þá sjómenn, og það er sú breyt., sem gerð hefur verið í hv. Nd., og er nánast eingöngu formsatriði, að það sé tryggt, að þessi lögveðsréttur gildi einnig fyrir þá sjómenn, eða iðgjöld þeirra, sem gerast aðilar að öðrum sjóðum. Ég geri því ekki ráð fyrir, að það brjóti neitt í bága við þá hugsun, sem var að baki þeim breyt., sem á frv. voru gerðar hér í hv. d., en taldi rétt, að þetta kæmi fram til skýringar á því, hvað hér væri um að ræða.