20.04.1970
Efri deild: 74. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál þetta til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 596 ber með sér, er n. sammála um að mæla með samþykkt frv. með tveimur brtt., sem n. flytur á þskj. 597. En einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt.

Frv. þetta er liður í því að greiða fyrir aðlögun íslenzks atvinnulífs að EFTA-aðild. Sú ákvörðun Alþ. og ríkisstj., að Ísland skyldi gerast aðili að EFTA frá og með 1. marz s.l., hefur skapað ný viðhorf í efnahagsmálum Íslendinga. Þessi nýju viðhorf eru fólgin í möguleikum, sem ekki voru áður fyrir hendi, en allar gagngerar breytingar hljóta líka að hafa í för með sér ýmsan vanda.

Ég skal ekki eyða tíma hv. þdm. í það að fara mörgum orðum um, hvort EFTA-aðild hafi verið Íslendingum nauðsynleg, enda hefur slík ákvörðun verið tekin og er komin til framkvæmda. En til þess að fyrirbyggja, að rangar ályktanir verði dregnar af því, sem ég mæli fyrir þessu frv., m.a. með tilliti til þess, að ég átti ekki sæti á þingi, þegar málið var til meðferðar og afgr., þá tel ég, að annars hafi ekki verið kostur, nema Íslendingar vilji sætta sig við það, að lífskjör þjóðarinnar dragist í vaxandi mæli aftur úr lífskjörum nágrannaþjóðanna. Þetta stafar af þeirri einföldu ástæðu, að iðnþróun hér á landi getur ekki átt sér stað, nema framleitt sé fyrir stærri markað en heimamarkaðinn. En iðnaðurinn er eina atvinnugreinin hér á landi, sem raunhæft er að gera ráð fyrir, að geti tekið við fólksfjölgun þeirri, sem búast má við á næstu árum og áratugum. Íslenzki markaðurinn er, hvað flesta iðnaðarframleiðslu snertir, of lítill til þess að nútímatækni verði komið við í þeim iðngreinum, sem framleiða eingöngu fyrir hann. Að mínu áliti er það utan við kjarna málsins, þegar sagt er, að við eigum fremur að leggja áherzlu á nýtingu þeirra hráefna, sem fiskveiðarnar láta okkur í té, því að fiskiðnaður er líka iðnaður, sem byggist á útflutningi, og aðild að efnahagsbandalagi eins og EFTA er spor í þá átt að leysa markaðsvandamál fiskiðnaðarins. Því má bæta hér við, að þessi hugmynd, að við eigum að leggja meiri áherzlu á betri nýtingu þeirra hráefna, sem við fáum frá fiskiðnaðinum, er engan veginn ný. Vísir til niðursuðuiðnaðar hafði myndazt hér fyrir stríð, en ein af helztu hindrununum í veginum fyrir þróun slíks iðnaðar hafa einmitt verið örðugleikarnir á því að koma þeim afurðum á markað.

En EFTA-aðild þýðir vitanlega ekki, að steiktar gæsir fljúgi okkur í munn að fyrirhafnarlausu, og þetta frv., þó það e.t.v. geti, a.m.k. ekki að svo stöddu, talizt til stórmála, sýnir okkur þau breyttu viðhorf, sem skapazt hafa, og þann vanda, sem af slíku leiðir. En þau vandamál, sem hér er um að ræða, eru eingöngu fólgin í tvennu. Í fyrsta lagi kostar aðlögun að nýjum aðstæðum fjármagn, og það liggur ekki laust fyrir hér á landi. Í öðru lagi verður öll hagstjórn vandasamari en áður, þar sem efnahagskerfi okkar verður nú í rauninni hluti af stærri heild.

Frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlað að sjá hugsanlegri útflutningsframleiðslu véla og tækja fyrir nauðsynlegum lánum, svo og að veita svonefnd samkeppnislán, eins og þau eru nánar skilgreind í 2. gr. frv., til innlendra aðila, sem kaupa slíkar vélar og tæki, þar með talin skip framleidd innanlands. Ekki skal ég um það segja, hverjir möguleikar eru á slíkum útflutningi, enda fær reynslan ein skorið úr því. Það kunna að vísu einhverjir að segja sem svo, að hér sé um ofureinfaldan hlut að ræða og rétt væri að ganga allmiklu lengra í því að veita slíka fyrirgreiðslu en frv. gerir ráð fyrir. Í því sambandi ber þó að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi, að óvissa er um það, hve mikilla fjármuna kann að vera þörf í þessu skyni, þannig að hér er nánast um tilraunastarfsemi að ræða. Í öðru lagi hafa þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir að leggi féð fram, ekki yfir ótakmörkuðu fjármagni að ráða, þannig að það fé, sem lagt er fram í þessu skyni, sé ekki á kostnað neins annars. Í þriðja lagi verður að horfast í augu við það, að þær fyrirgreiðslur, sem við ákveðum í þessu skyni, verða að vera í samræmi við sams konar fyrirgreiðslu og önnur EFTA-lönd veita í sams konar skyni.

EFTA-samkomulagið felst í því, að aðildarríkin opna tollfrjálsa markaði fyrir öðrum aðildarríkjum. En veiti eitthvert land opinbera styrki og aðrar fyrirgreiðslur til útflutnings eða samkeppni á innlendum markaði umfram það, sem annars staðar er gert, er litið svo á, að rangt sé haft við í spilinu. Einmitt þetta atriði er skýring á því, sem ég sagði í upphafi, þegar ég talaði um, að EFTA-aðild gerði alla hagstjórn hér á landi vandameiri en áður. Samstarfið við aðra byggist á því, að samræmi sé í stærstu dráttum milli þróunar efnahagsmála í hinum einstöku aðildarríkjum, og á þetta sér í lagi við um verðlagsþróunina. Ef meiri verðbólga á sér stað í einu EFTA-landi en öðru, þá hlýtur það að leiða til stóraukins innflutningshalla í gjaldeyrisviðskiptum við útlönd og erfiðleika fyrir innlenda framleiðslu, sem keppir við hinn tollfrjálsa innflutning.

Hafta- og uppbótaleiðin, sem áður var notuð í svo ríkum mæli hér á landi, samrýmist ekki aðildinni að EFTA. Auðvitað voru slíkar ráðstafanir, eins og uppbætur og innflutningshöft, engin lausn á þeim vanda, sem við var að etja, heldur mátti líta á þessar ráðstafanir sem gálgafrest, þannig að raunhæfari lausn málanna var skotið á frest, sem gjarnan var þá keypt því verði, að gera þurfti miklu sársaukafyllri ráðstafanir síðar. En það vill nú gjarnan vera svo, að stjórnarvöld hljóta að finna til mikillar freistni til þess að skjóta vandamálunum á frest. Þessar leiðir, sem þarna var um að ræða, voru e.t.v. þær sársaukaminnstu í bili, en yfirleitt hefur það nú verið þannig, að flestar hæstv. ríkisstj., sem setið hafa um áratugaskeið hér á landi, hafa ekki átt örugga langa lífdaga, og einmitt undir slíkum kringumstæðum hlýtur freistingin að verða mikil til þess að finna hinar þrautaminnstu leiðir í bili, þótt þær haf í það í för með sér, að eftir að það verður ekki lengur umflúið að gera raunhæfar ráðstafanir, þá verða þær að verða enn þá róttækari og sársaukafyllri en ella.

Af EFTA-aðildinni leiðir annars vegar, að eftirleiðis verður að horfast í augu við vandann, þegar hann er skapaður, og gera þegar í stað raunhæfar ráðstafanir til úrbóta, en á hinn bóginn leiðir EFTA-aðildin, þegar frá líður, auðvitað til jöfnunar launakjara og annarra lífskjara í hinum ýmsu aðildarríkjum. Í því efni hafa þeir verkalýðsleiðtogar, sem hafa haft nægilega víðsýni til þess að styðja EFTA-aðildina, haft fullkomlega rétt fyrir sér. Ég fjölyrði svo ekki meira um þetta, en ég tel fulla ástæðu til þess, að á þessi atriði sé bent einmitt í sambandi við umr. um frv. eins og þetta. Það má ekki fela þann vanda, sem fólginn er í EFTA-aðildinni, heldur verður frá upphafi að horfast í augu við hann.

Að lokum vil ég aðeins víkja að þeim brtt., sem n. flytur á þskj. 597. Ég lít í rauninni svo á, að hér sé frekar um leiðréttingar að ræða en efnislegar breytingar. Fyrri brtt. er við a-lið 2. gr., en hún er orðuð svo í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Hlutverk útflutningslánasjóðs er að veita lán vegna útflutnings meiri háttar véla og tækja.“ N. leggur til, að þessu verði breytt þannig, að það sé orðað svo: „að veita lán til meiri háttar útflutnings véla og tækja.“ Þetta er gert út frá því sjónarmiði, að óeðlilegt sé, að ekki sé lagður á það verðmætamælikvarði, í hvaða tilvikum skuli veita þessi lán, en eins og þetta er orðað, verður þetta varla skilið öðruvísi en þannig, að það sé stærð umræddra tækja, sem þarna hafi úrslitaþýðingu, hvort sem stærðin sé mæld í þungaeiningum, rúmmáli eða öðru. Slíkt er mjög óeðlilegt, þótt bæði orðalag og sömuleiðis aths. í meginatriðum bendi til þess, að til slíks sé ætlazt. En þó má benda á það, að í grg. stendur þessi setning á miðri bls. 2, ef menn hafa frv. við höndina, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir, að þessi lán verði einskorðuð við kaup á meiri háttar vélum og tækjum og stærri samninga og yrði þar reynt að fylgja svipuðum reglum og gilda í nágrannalöndunum.“

Að talað er hér um stærri samninga, virðist benda til þess, sem eðlilegt mætti hér teljast, að það sé stærð samninganna, sem þarna eigi fyrst og fremst að líta á, en ekki það, hvort þau tæki, sem framleidd eru, eru stór eða lítil, þegar litið er á hverja einingu.

Önnur brtt. n. er sú, að orðin „ekki skemmri tíma en þremur árum og“ í 3. gr. frv. falli niður. Við gátum ekki fundið skynsemi í því að hafa þetta ákvæði, og býst ég við því, að þetta hafi komið inn fyrir mistök. Það hefði getað verið hugsun í því að ákveða árleg framlög frá þessum aðilum, sem þarna er um að ræða, sem næmi ákveðinni upphæð, en að það skuli líða minnst þrjú ár, þangað til þeirri skyldu er fullnægt að öllu leyti, er að okkar áliti óeðlilegt, enda mætti algerlega fara í kringum það, ef sú hefði verið hugsunin.

Í viðbót við þetta má búast við brtt. frá n. fyrir 3. umr. málsins, en ég tel rétt að geyma það, þar til næsta frv., sem skoða má sem fylgifrv. við þetta, verður tekið fyrir, að geta þess nánar.