21.04.1970
Efri deild: 75. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 3. umr. um útflutningslánasjóð, hefur væntanlega stóra þýðingu fyrir íslenzka iðnaðarframleiðslu og framvindu iðnaðar hér á landi. Brtt., sem samþ. voru við 2. umr., eru eflaust einnig til bóta, þó að þær hafi líklega ekki hagnýta þýðingu, en gera hins vegar greinilegri ákvæðin, sérstaklega um véla- og tækjaútflutning, ef til hans kemur, sem væntanlega verður.

Hv. frsm. fjhn., 7. þm. Reykv., boðaði brtt. frá n., sem mundi koma við 3. umr. Rætt hafði verið í fjhn. um að setja inn í frv. ákvæði þess efnis, að þegar sérstaklega stæði á, yrði veitt samkeppnislán samkvæmt b-lið 2. gr., tryggð hjá tryggingardeild útflutningslána við ríkisábyrgðasjóð. Við nánari athugun og samtal við hæstv. fjmrh. hefur þetta ákvæði reynzt ástæðulaust, þar sem í 2. gr., b-lið, er heimild fyrir slíkum lánum gegn bankaábyrgð eða annarri fullgildri ábyrgð. En undir það fellur að sjálfsögðu ábyrgð tryggingardeildar ríkisábyrgðasjóðs. Að þessu athuguðu mælir n. því með frv. óbreyttu, eins og það var samþ. við 2. umr.

Hins vegar hefur n. flutt á þskj. 616 slíka brtt. við frv. um tryggingardeild útflutningslána. Verður gerð nánari grein fyrir þeirri till., þegar það frv. verður til umr. hér í d. á eftir.