24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og samþ. þar með shlj. atkv. með örlitlum orðalagsbreytingum. Ég get látið mér nægja örfá orð til þess að gera grein fyrir efni þess.

Hér er um að ræða ráðstöfun, sem er tengd aðild Íslands að EFTA. Mig langar að láta þess getið hér, eins og ég gat í hv. Ed., að ég vona, að þrátt fyrir þann ágreining, sem varð um aðild Íslands að EFTA, þá geti hv. alþm. staðið saman um það að gera þær ráðstafanir, sem aðild að EFTA gerir nauðsynlegar og rétt er að grípa til, til þess að aðildin hagnýtist þjóðinni sem bezt. Mér þykir mjög vænt um, að það skyldi hafa komið í ljós í hv. Ed. í sambandi við þetta frv., að þetta varð einmitt niðurstaðan þar. Þm. sameinuðust almennt um samþykkt þessa frv. með hliðsjón af því, að það mun auðvelda íslenzkum aðilum að hagnýta sér þau bættu markaðsskilyrði, sem aðild að EFTA á að geta haft í för með sér.

Í þessu frv. er lagt til, að komið sé á fót útflutningslánasjóði, og skulu Seðlabanki Íslands, Landsbanki Íslands og iðnlánasjóður leggja honum 50 millj. kr. hver aðili, en iðnlánasjóður fái sitt fé úr iðnþróunarsjóði.

Hlutverk útflutningslánasjóðs er að veita lán vegna útflutnings véla og tækja og þar á meðal skipa og annarrar fjárfestingarvöru, sem framleidd er innanlands. En svo sem kunnugt er, eru slíkar vörur á heimsmarkaði yfirleitt seldar með útflutningslánum, þannig að útflutningslán fylgja sölutilboði. En Íslendingar geta ekki vænzt þess að verða samkeppnishæfir að þessu leyti nema því aðeins, að íslenzkir útflytjendur geti gefið væntanlegum kaupendum sínum svipuð kjör á útflutningslánum og erlendir aðilar vitanlega bjóða sínum kaupendum. Hins vegar er það hlutverk útflutningslánasjóðs að veita svonefnd samkeppnislán, en með því er átt við lán til innlendra aðila, sem kaupa vélar og tæki, þar með talin skip, sem framleidd eru innanlands. En svo sem kunnugt er, þá eru slík tæki boðin hér og annars staðar þannig, að lán eru látin fylgja. Ef innlendur aðili á að geta orðið samkeppnishæfur á innlenda markaðinum við erlenda aðila, sem selja hingað slíka vöru, þá þarf hann að geta boðið sínum innlenda kaupanda sams konar lán og innlendi kaupandinn á kost á frá erlendum seljendum. Þetta er hinn tvíþætti tilgangur þessa 150 millj. kr. sjóðs, sem ætlunin er að koma á fót með þessu frv. Með þessu er í raun og veru allt sagt um kjarna málsins, og læt ég þetta þar með nægja.

Leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.