10.10.1970
Sameinað þing: 1. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Forseti Íslands setur þingið

Þessir menn skipuðu þingið:

1. Auður Auðuns, 1. þm. Reykv.

2. Axel Jónsson, 4. þm. Reykn.

3. Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Sunnl.

4. Ásberg Sigurðsson, 4. þm. Vestf.

5. Ásgeir Bjarnason, 1. þm. Vesturl.

6. Benedikt Gröndal, 5. þm. Vesturl.

7. Birgir Finnsson, 5. þm. Vestf.

8. Birgir Kjaran, 5. þm. Reykv.

9. Bjarni Guðbjörnsson, 3. þm. Vestf.

10. Bjartmar Guðmundsson, 11. landsk. þm.

11. Björn Fr. Björnsson, 4. þm. Sunnl.

12. Björn Jónsson, 4. þm. Norðurl. e.

13. Björn Pálsson, 3. þm. Norðurl. v.

14. Bragi Sigurjónsson, 9. landsk. þm.

15. Eðvarð Sigurðsson, 2. landsk. þm.

16. Eggert G. Þorsteinsson, 8. þm. Reykv.

17. Einar Ágústsson, 11. þm. Reykv.

18. Emil Jónsson, 3. þm. Reykn.

19. Eysteinn Jónsson, 1. þm. Austf.

20. Friðjón Þórðarson, 4. þm. Vesturl.

21. Geir Gunnarsson, 6. landsk. þm.

22. Geir Hallgrímsson, 12. þm. Reykv.

23. Gils Guðmundsson, 5. þm. Reykn.

24. Gísli Guðmundsson, 1. þm. Norðurl. e.

25. Guðlaugur Gíslason, 3. þm. Sunnl.

26. Gunnar Gíslason, 2. þm. Norðurl. v.

27. Gylfi Þ. Gíslason, 3. þm. Reykv.

28. Halldór E. Sigurðsson, 3. þm. Vesturl.

29. Hannibal Valdimarsson, 9. þm. Reykv.

30. Ingólfur Jónsson, 1. þm. Sunnl.

31. Ingvar Gíslason, 3. þm. Norðurl. e.

32. Jóhann Hafstein, 2. þm. Reykv.

33. Jón Árnason, 2. þm. Vesturl.

34. Jón Árm. Héðinsson, 5. landsk. þm.

35. Jón Kjartansson, 5. þm. Norðurl. v.

36. Jón Skaftason, 2. þm. Reykn.

37. Jón Þorsteinsson, 3. landsk. þm.

38. Jónas Árnason, 4. landsk. þm.

39. Jónas Pétursson, 3. þm. Austf.

40. Jónas G. Rafnar, 2. þm. Norðurl. e.

41. Karl Guðjónsson, 6. þm. Sunnl.

42. Lúðvík Jósefsson, 4. þm. Austf.

43. Magnús Jónsson, 6. þm. Norðurl. e.

44. Magnús Kjartansson, 6. þm. Reykv.

45. Matthías Bjarnason, 2. þm. Vestf.

46. Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn.

47. Ólafur Björnsson, 10. þm. Reykv.

48. Ólafur Jóhannesson, 1. þm. Norðurl. v.

49. Páll Þorsteinsson, 2. þm. Austf.

50. Pálmi Jónsson, 4. þm. Norðurl. v.

51. Pétur Sigurðsson, 7. þm. Reykv.

52. Sigurður Ingimundarson, 1. landsk. þm.

53. Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf.

54. Stefán Valgeirsson, 5. þm. Norðurl. e.

55. Steingrímur Pálsson, 8. landsk. þm.

56. Steinþór Gestsson, 5. þm. Sunnl.

57. Sveinn Guðmundsson, 7. landsk. þm.

58. Sverrir Júlíusson, 10. landsk. þm.

59. Vilhjálmur Hjálmarsson, 5. þm. Austf.

60. Þórarinn Þórarinsson, 4. þm. Reykv.

Ókominn til þings var Pálmi Jónsson, 4. þm. Norðurl. v., en í stað hans var á fundinum Óskar E. Levy.

Forseti Íslands setur þingið.

Þá er þingmenn höfðu skipað sér til sætis, kom forseti Íslands, Kristján Eldjárn, inn í salinn og gekk til ræðustóls.

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn): Hinn 23. september 1970 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið, samkv. tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1970.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gert að Bessastöðum, 23. september 1970.

Kristján Eldjárn.

Jóhann Hafstein.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar laugardaginn 10. október 1970.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Árið 1845 kom endurreist Alþingi saman hér í Reykjavík, og voru þá liðnir nokkrir áratugir síðan niður féll hið forna alþing þjóðarinnar á Þingvöllum við Öxará. Má því segja, að nú sé merkisár í sögu hins endurreista Alþingis. Meðal stofnana þjóðarinnar er Alþingi gömul stofnun, þótt eigi sé lengra aftur seilzt en til ársins 1845. Alla tíma síðan hafa margir af beztu sonum þjóðarinnar átt sæti á bekkjum Alþingis. Minning þeirra lifir innan vébanda þessarar stofnunar. Í dag mun verða minnzt óvenjulega margra manna, sem setu hafa átt á Alþingi lengri eða skemmri tíma og látizt hafa síðan síðasta þing kom saman fyrir einu ári. Þjóðin vill vissulega votta þeim virðingu sína.

Í þeim hópi, sem nú verður minnzt, er forsætisráðherra landsins, sem féll frá með sviplegum hætti, eins og öllum er í fersku minni. Sá sorgaratburður snart alla Íslendinga djúpt og vakti samúðaröldu víða um lönd. Með dr. Bjarna Benediktssyni hvarf af sjónarsviðinu og af vettvangi íslenzkra þjóðmála maður, sem um langt skeið hafði verið mikill áhrifamaður hér á Alþingi, í ríkisstjórn og í öllu opinberu lífi, maður, sem naut trausts og virðingar bæði hér heima og með erlendum mönnum, sem samskipti eiga við þjóð vora. Við setningu Alþingis nú vil ég með einlægri virðingu minnast hins látna forsætisráðherra, er féll í valinn í miðri önn síns ábyrgðarmikla starfs. Ég veit, að þing og þjóð munu vilja taka undir þau orð mín.

Aðeins einu sinni hefur það áður gerzt, að íslenzkur forsætisráðherra hafi fallið frá í starfi sínu. Það var, þegar Jón Magnússon forsætisráðherra andaðist árið 1925. Einnig það gerðist með skyndilegum hætti. Slík snögg umskipti færa vanda að höndum. Fyrirvaralaust verður nýr maður að taka sér á herðar óvæntar byrðar. Hvernig þeim málum hefur nú verið skipað, mun ég ekki ræða, þar sem þess er að vænta, að forsætisráðherra muni hér á eftir gera grein fyrir því. Ég óska nýskipuðum forsætisráðherra og nýjum dóms- og kirkjumálaráðherra blessunar í störfum sínum svo og ríkisstjórninni allri með þeim breytingum, sem nú eru á orðnar.

Íslenzka þjóðin fylgist jafnan með því með athygli, þegar Alþingi kemur saman á ári hverju. Hún veit, að þess bíða á hverjum tíma úrlausnarefni, sem aðkallandi eru og mikið veltur á, að giftusamlega leysist. Hún vonar, að úrræðin og lausnin komi frá þeim fulltrúum, sem hún hefur kjörið til að fara með mál sín á Alþingi. Og hvert annað skyldi hún líta en til Alþingis og ríkisstjórnar um heilladrjúga lausn landsmálanna? Ábyrgð Alþingis er því mikil, bæði einstakra þingmanna og þingsins í heild. Þeim öflum, sem að verki eru í þjóðfélaginu, félagslegum hreyfingum þess, þörfum og kröfum og úrlausnarefnum hvers konar og á öllum sviðum má líkja við fjölþætt og flókið kerfi stórra og smárra vatna, sem koma langt og víða að, en hníga þó öll að lokum að einum miklum farvegi. Alþingi er slíkur farvegur, farvegur landsmálanna. í þeim farvegi hljóta að verða straumköst, en traustur farvegur á að hemja þau öfl, sem innan hans byltast, og skila öllu að ósi farsællega án þess að bresta. Sú er ætíð ósk og von þjóðarinnar í hvert sinn, sem Alþingi kemur saman.

Menn veita því athygli, að býsna oft er kvartað undan því á vorum dögum, að það sé að vísu ekki sparað að gera kröfur á hendur Alþingi um úrræði og ákvarðanir í málefnum landsmanna, en sú virðing, sem við það sé lögð, sé ekki að sama skapi. Ætla má þó, að þetta, sem svo einkennilega oft ber á góma, sé meira en litið orðum aukið. Það er víst ekki nýjung, að Alþingi og alþingismenn fái orð í eyra. Á hinn bóginn er það svo einkenni vorra tíma, að nú er ekki tekið eins djúpt ofan eins og eitt sinn var. Slíkt er ástæðulaust að harma, því að það er ekki af illum rótum runnið. Meðan Alþingi sjálft skilur og skynjar veg sinn ekki síður en vanda, mun landsfólkið einnig gera það.

Í þessu sambandi er oft minnzt á starfsskilyrði Alþingis og þau talin lítt fallin til að auka veg þess. Ég hygg þá, að þetta góða, gamla hús sé vegleg umgerð um veglega stofnun, sögurík bygging, sem enn muni eiga langa sögu í sínu gamla formi og með sínu gamla hlutverki. En hitt er jafnframt öldungis ljóst, að það býður ekki lengur upp á þau vinnuskilyrði, sem eðlilegt er, að Alþingi hafi í nútímaþjóðfélagi voru. Það þarf aukið olnbogarými, ekki fyrst og fremst til þess að auka veg sinn og virðingu, því að slíkt gerist ekki nema að litlu leyti fyrir ytri aðstæður og hefðartákn, heldur einfaldlega til þess að auðvelda þingmönnum að vinna sín daglegu störf. Alþingi er að vísu ekki eitt um það meðal íslenzkra stofnana og embætta að þarfnast betri aðbúnaðar. Því fer mjög fjarri. Þar þarf víða um að bæta. En engum ætti að þykja það ósanngjarnt, að þessi elzta og virðulegasta stofnun landsins gengi fyrir öðrum um bætta aðstöðu til starfa sinna.

Fyrir þessu þingi liggja mikil viðfangsefni, sem takast þarf á við, vandamál, sem úr þarf að greiða, og fleiri geta komið til, þegar á liður. Það er gömul venja og mannlegur breyskleiki að mikla þau vandamál mest, sem fyrir liggja hverju sinni. Nú eru viðfangsefni að vísu misjafnlega erfið úrlausnar og áraskipti að öllu. En þau verkefni, sem nú eru fram undan, hafa þó einkum sérstöðu að því leyti, að þau eru vandamál líðandi stundar og knýja á. Þau eru væntanlega hvorki meiri né minni en margsinnis áður, en vissulega eru þau hvorki saga né ófyrirsjáanleg framtíð, heldur hluti þess lífs, sem við lifum á þessari stund. Þau gera til vor kröfur einmitt nú, og það er þeirra sérkenni.

Þjóðin lítur réttilega til Alþingis og ríkisstjórnar um forustu og úrræði í málefnum sínum. Hún hefur kvatt þessa aðila til ábyrgðarmikilla ákvarðana og varðstöðu um hag sinn, bæði inn á við og út á við. Á Alþingi sitja menn með mikla reynslu í stjórnmálastörfum, og um góðan vilja þarf ekki að efast, þótt oft sé deilt um leiðir að því marki, sem er sameiginlegt öllum, heill og heiður íslenzku þjóðarinnar. Á þessu 125. samkomuári hins endurreista Alþingis óska ég Alþingi alls velfarnaðar í störfum sínum og bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum, og forsætisráðherra, Jóhann Hafstein, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þm. undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi, þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf., að ganga til forsetastóls.