17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

250. mál, stimpilgjald

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál, sem hér liggur fyrir, til meðferðar og eins og nál. það, sem útbýtt hefur verið, ber með sér, leggur n. einróma til, að frv. verði samþ., en þó þannig, að einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., þá er ástæðan til þess, að frv. þetta er borið fram, sú, að gert er ráð fyrir, að á þessu vori gangi hið nýja fasteignamat í gildi, sem mundi leiða til stórhækkunar á stimpilgjöldum að öðru óbreyttu, en ástæðulaust þykir og má gera ráð fyrir, að það geti skapað meira eða minna öngþveiti á fasteignamarkaðinum, ef stimpilgjöldin væru látin hækka til samræmis við þá hækkun, sem orðið hefur á fasteignamati.

Eins og ég sagði áðan, þá hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., og vil ég að sjálfsögðu ekki taka fram fyrir hendur manna, ef menn óska eftir að gera grein fyrir sérstökum aths., sem þeir kunna að vilja gera við frv., en ég vil þó geta þess — og tel það eina af ástæðunum til þess, að frv. var afgreitt með slíkum fyrirvara af hálfu n. — að það bar á góma á fundi n., hvernig væri með stimpilgjöld, þegar um samruna fyrirtækja eða aðrar slíkar breytingar á formi eignaraðildar yrði að ræða. Nú heyrir þetta mál í sjálfu sér undir skattalögin, en eins og kunnugt er, þá liggur fyrir þessu þingi frv. um breytingu á skattalögunum, sem ég geri ráð fyrir að verði afgreitt í einni eða annarri mynd. En varðandi þetta atriði vil ég þó leyfa mér að benda á eftirfarandi ákvæði 2. gr. frv., sem samkvæmt mínum skilningi má túlka þannig, að heimilt sé að gefa eftir, heimilt sé og jafnvel skylt að gefa eftir stimpilgjöld, þegar slíkar breytingar á eignaraðild verða.

Með leyfi hæstv. forseta stendur þetta í 2. gr.: „Þegar fasteign eða skip er afsalað hlutafélagi eða sameignarfélagi, greiðist sama gjald, þó skal ekki innheimta gjald af þeim eignarhluta að tiltölu, þegar svo er ástatt, að fyrri eigandi verður áfram eignaraðili að félaginu.“ Samkvæmt mínum skilningi er eðlilegt að túlka það þannig, að þó að breytt sé um eignarform eða samruni eigi sér stað, ef það eru sömu eigendur og áður, þá eigi ekki að innheimta slíkt stimpilgjald. Að öðru leyti mundi þetta að mínu áliti heyra undir skattalögin, en ég taldi rétt að geta þess, að þetta mál var rætt á fundi n., þó að hún hafi ekki séð ástæðu til þess að gera sérstakar brtt. Nú þykir þetta ófullnægjandi og ef hér kynnu að koma fram einhverjar brtt. eða óskir um að bera þær fram, annaðhvort af hálfu hv. nm. eða annarra, þá mundi ég auðvitað vera reiðubúinn til þess að kalla n. saman að nýju fyrir 3. umr. málsins og taka þetta mál til nánari athugunar.

Að öðru leyti, herra forseti, leggur n. til, að þetta frv. verði samþ.