17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

246. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er að hækka þá heimild, sem veðdeild Landsbanka Íslands hefur samkvæmt núgildandi lögum til útgáfu bankavaxtabréfa, um 100 millj. kr. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og nál, á þskj. 531 ber með sér, þá leggur n. einróma til, að frv. veri samþ. óbreytt. En ég tel ástæðu til þess, enda er það í samræmi við óskir, sem fram komu í n., að skýra hv. þdm. í örfáum orðum frá, hvers konar lán er þarna um að ræða og til hvers þau eru veitt. Ég efast um, að hv. þdm. sé það kunnugt, en um þetta fékk ég í morgun upplýsingar frá forstöðumanni veðdeildarinnar. Hann tjáði mér, að þessi lán hefðu að undanförnu verið í fyrsta lagi veitt eigendum eldri húsa til viðgerðar á húsunum, og í rauninni væri það nýmæli í þeirri starfsemi, sem veðdeildin hefði áður haft með höndum. Þegar veðdeildinni var síðast heimilað hér á hv. Alþ. að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa — það var með lögum frá 1965 — þá voru það 100 millj., sem þar var um að ræða, en 25 millj. eða fjórði hluti þeirrar upphæðar hefur verið veittur í þessu skyni. Að öðru leyti hefur þetta fé verið lánað fólki til kaupa á íbúðum í eldri húsum. Lánin eru veitt þannig, að út eru gefin bankavaxtabréf fyrir lánsfénu, en þó mun það vera þannig, þegar um fyrrgreindu lánin er að ræða, sem veitt eru til viðgerðar, að þá kaupir Landsbankinn eða veðdeildin þessi bréf, svo að menn fá þetta þá í reiðufé. Þegar um önnur lán er að ræða hins vegar, þá fá þeir lánið aðeins í bankavaxtabréfum, sem þeir verða þá sjálfir að selja. Viðgerðarlánin munu yfirleitt vera til 7 ára, en önnur lán til 15 ára, og vextir eru 9%. Ég innti ekki sérstaklega eftir veðkröfum og öðru slíku, að sjálfsögðu gætir veðdeildin þess, að lánin séu vel tryggð. Það má gera ráð fyrir því, að ekki sé um sérstakt vandamál að ræða, þegar lán eru veitt út á gamalt húsnæði, vegna þess að veðlán, sem hvíla á þessum gömlu húseignum, eru venjulega mjög lág. Ég geri ráð fyrir því, þegar um lán í bankavaxtabréfum er að ræða, sem eru til 15 ára, að slík bréf verði ekki seld nema með meiri eða minni afföllum. Það er auðvitað afleiðing verðbólgunnar, að erfitt verður að selja slík skuldabréf öðruvísi. Forstöðumaðurinn tjáði mér enn fremur, að þessar 100 millj., sem veðdeildin hafði heimild til að gefa út bankavaxtabréf fyrir samkv. núgildandi lögum, hefðu verið notaðar að fullu og mjög mikið af umsóknum um slík lán lægi fyrir, enda ekki vafi á því, að veðdeildin fullnægi hér þörf, sem aðrar lánastofnanir telja í meginatriðum utan síns verkahrings að fullnægja. Ég taldi rétt, að þessar upplýsingar kæmu fram við þessa umr.