26.10.1970
Efri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

9. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Af tilefni þeirra fsp., sem fram hafa komið, vil ég segja það, að í þessu frv. felst engin stefnumörkun af hálfu ríkisstj. eða neitt breytt viðhorf né stefnubreyting. Ríkisstj. hefur aðeins í þessu tiltekna tilfelli orðið við tilmælum viðkomandi sjóðsstjórnar um að flytja það frv., sem hér er flutt. Hvort hliðstæðar breytingar verða hjá öðrum sjóðum, þá væntanlega fjárfestingarsjóðum, sem átt er við, því get ég ekki svarað. Þessar sjóðsstjórnir eru í langflestum tilfellum allsjálfstæðar stjórnir, kosnar af Alþ. í mörgum tilfellum, og flestum kannske, og það yrði af hálfu ríkisstj. tekin afstaða til mála varðandi slíka sjóði, ef fram kæmi beiðni af hálfu sjóðsstjórnarinnar.

Um verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem vikið var að, vil ég aðeins segja það, að málið hefur verið rannsakað og athugað, sérstaklega af hálfu Seðlabankans fyrir hönd ríkisstj. En það hefur ekki komið til þess enn, að ríkisstj. telji tímabært að taka neinar ákvarðanir um framkvæmd þeirra heimilda, sem þar er um að ræða.