18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel, að það hafi fátt nýtt komið fram í þessu máli frá því, að ég ræddi það hér við 1. umr. og lýsti skoðun minni á höfuðatriðum frv., og ég get þess vegna látið mér nægja að tala hér frekar stutt mál. Þó má segja, að nokkur ný atriði kæmu fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv., sem hér talaði fyrir meiri hl. fjhn. Þótt hann undirstrikaði ýmislegt af því, sem bæði ég og aðrir höfðum áður sagt um málið og staðfesti mörg einstök atriði, þá var þó það nýtt í hans ræðu, sem ekki hefur verið sagt jafnberum orðum áður, að með þessu frv. þá sé fundin aðferð til að færa stórkostlegt fjármagn til í þjóðfélaginu, þannig að ekki komi við einn eða neinn. Í nál. meiri hl. fjhn. þá er okkur, sem í minni hl. voru, a. m. k. mér, gerð upp sú skoðun í 3. málsgr. nál., að við séum þeirrar skoðunar, að bæði atvinnurekendur og launþegar skaðist á þessu frv. Þar stendur orðrétt:

„Meiri hl. fellst ekki á það sjónarmið andstæðinga frv., að samþykkt þess mundi rýra afkomu alls almennings í landinu, bæði atvinnurekenda og launþega.“

Þetta hef ég a. m. k. aldrei sagt og ekki heyrt heldur aðra, sem í minni hl. eru, halda neinu slíku fram. Aftur á móti er það rétt, að við höfum haldið því fram, eða a. m. k. ég, að frv. rýrði afkomu launþega. Á hitt hef ég aldrei dregið neina dul sem mína skoðun, að hér væri um stórkostlegan hag fyrir atvinnurekendur að ræða, og ég er alveg sammála því, sem hv. frsm. sagði, að hagur atvinnurekenda af þessu frv. væri auðsær. Þetta er auðvitað hverju orði sannara, þar sem frv. gerir ráð fyrir því, að atvinnurekendur séu firrtir þeirri samningsbundnu skyldu sinni að greiða fullar verðlagsbætur á laun. Þetta getur ekki farið milli mála. Þetta er ekki deiluatriði. Hitt er deiluatriði, hvernig launþegar fara út úr þessu, hvernig dæmið lítur út frá þeirra hálfu. Það mætti auðvitað margt um þetta segja, en furðu gegnir, að ekki skuli fyrr hafa verið gripið til slíkra úrræða, ef það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að hér sé um aðferð að ræða til að færa til allt að því einn milljarð milli aðila í þjóðfélaginu, án þess að hann sé frá nokkrum tekinn.

Ein fullyrðing varðandi þetta frv. gekk aftur í ræðu háttv. frsm., sem hér hafði líka verið lögð mjög þung áherzla á af hæstv. fjmrh., og hún var sú, að frv. breytti engu um þær launaákvarðanir, sem atvinnurekendur og launþegar hefðu tekið. Samningarnir stæðu óbreyttir, vísitölubæturnar, samningur um þær væri ekki ákvörðun um laun. Hið sanna er auðvitað, að ákvörðun samninganna um grunnkaup er einskis virði, ef ekki er tryggilega um þau ákvæði búið með ákvæðum um verðtryggingu. Lögin eru þess vegna ákvörðun um kaupgjald, eins og það á að vera, ekki ákvörðun um, að það skuli vera eftir því, sem samningar ákveða, heldur eftir því, sem stjórnarvöld telja hæfilegt. Það er ekki aðeins um það að ræða, að lögin breyti aðferð við verðtrygginguna, eins og haldið hefur verið fram. Þar er ekki eingöngu um formsatriði að ræða, heldur fyrst og fremst um raungildi kaupsins. Það er sagt, að við, sem andmælum skerðingarákvæðum frv., séum fyrst og fremst formþrælkunarmenn, held ég, að það hafi verið kallað af t. d. forstöðumanni Efnahagsstofnunarinnar, og önnur þvílík nöfn hafa afstöðu okkar verið gefin. Um það vil ég segja, að auðvitað hefur formhlutinn alltaf einhverja þýðingu. Það getur verið samningur ekki síður en annað, en framar öllu verður formið að vera samningsatriði, þegar það hefur einhver efnisleg áhrif, og ég held, að það fari ekkert á milli mála, að um það er hér að ræða. En jafnvel þótt svo væri ekki, þá ætti hér auðvitað að vera um samkomulagsatriði að ræða milli þeirra, sem um kaupgjald eiga að semja, og ef ekki væri hér nema aðeins um aðferðina að ræða, til þess að ná sama marki, þá held ég, að það hefði verið næsta auðvelt að ná samningum milli réttra aðila um það. Ég held, að það verði ekki sagt, að verkalýðshreyfingin á Íslandi hafi á undanförnum árum bundið sig svo í form, að við hana væri ekki ræðandi. Ég held því samt fram, að það sé ekki heldur hægt að breyta forminu, a. m. k. ekki meðan afleiðingar þess eru umdeilanlegar, nema leitað sé samþykkis réttra aðila þar um.

Um vísitöluna er það að segja, að þegar um hana var samið í júnímánuði s. l., þá var bæði okkur, sem að samningsgerðinni stóðum fyrir verkalýðsfélögin, og öðrum ljóst, að hér var ekki um algerlega fullar vísitölubætur að ræða, þannig að það væri tryggt, að á hverju einstöku augnabliki væru laun í fullu samræmi við verðlag. Þar var fyrst að telja, að samkv. gamalli hefð og reglu, sem að jafnaði hefur ekki verið mjög umdeild í kjarasamningum, var fallizt á það af okkar hálfu, að sú hækkun á launum bóndans, sem stafar af kauphækkun verkamanna, kæmi ekki fram í verðlagsvísitölunni. Þetta var okkur frá upphafi ljóst og eins það, að það mundi safnast í þann poka, eftir því sem stundir liðu fram. Það er nú staðreynd, sem ekki kemur okkur neitt á óvart eða verkalýðshreyfingunni yfirleitt, að þessi skerðing á vísitölunni er nú orðin um 1.4%. Okkur var líka ljóst og hefur alltaf verið, að samningarnir um vísitölu voru þeim annmörkum háðir, að vísitala reiknaðist ekki út á hverjum mánuði, hverri viku eða hverjum degi, eins og vera þyrfti, ef þar ætti allt að koma til skila um verðhækkanir, heldur að vísitöluuppbætur yrðu greiddar á 3 mánaða fresti, og að þeim tíma yrði auðvitað nokkur verulegur skaði, a. m. k. meðan sá verðhækkunarferill, sem atvinnurekendur spáðu og þeir hafa fengið fram, að yrði, sem raun varð á, yrði að ganga fyrir sig. Hins vegar var ljóst, að þessi skaði af þessum ástæðum yrði því minni, eftir því sem jafnvægi nálgaðist, og yrði að lokum enginn, ef menn gerðu sér það, að einhvern tíma kæmi að því tímabili, að um stöðugt verðlag væri að ræða. Þessir tveir annmarkar á vísitölunni voru augljósir öllum, sem að samningunum stóðu, og ekkert við því að segja, þótt launþegar yrðu fyrir nokkrum skaða af þeim sökum. Hitt var svo augljóst, að með samningunum var raungildi launanna með fyrirvara um búvöruliðinn tryggt með þeim hætti, að á þriggja mánaða fresti skyldu menn fá fullar verðlagsbætur miðað við 1. mánaðardag næsta mánaðar á undan. Og til þess að við fáum einhvern raunhæfan samanburð við það, sem samningar ákveða, og við það, sem þessi lög ákveða, verður auðvitað að hafa þessa viðmiðun og enga aðra. Annars er um algerlega rangan og villandi samanburð að ræða.

Við höfum nú athugað, hvernig hin samningsbundnu frávik frá fullri vísitölu voru við samningsgerðina, og það er enginn vandi, sýnist mér, að bera þau saman við frávikin, eins og þau eru núna. Í stuttu máli, eins og margrakið hefur verið, þá er um það að ræða, að vísitölugrundvöllurinn er skertur um 0.7% með því að taka verðhækkun á tóbaki og áfengi út úr vísitölunni, um a. m. k. 0.4 og sennilega allt upp í 0.7 eða 0.8 %-stig, vegna þess að tryggingaiðgjöldin eru tekin út úr vísitölunni eða hækkun á þeim, og svo loks felld 2 stig, sem gert er ráð fyrir í frv., að geti fallið að fullu og öllu niður. Var meiningin upphaflega og yfirlýst, að það ætti að ganga í gildi núna strax 1. des., en hefur síðan verið hörfað frá því, og það kemur inn síðar, og að því er manni virtist helzt á ræðu hæstv. fjmrh., á það að koma inn 1. marz n. k., þ. e. a. s. að frávikin eru, í staðinn fyrir að vera 1.4 áður samkv. samningum, nú orðin 4.5 til 4.7% frá því að vera rétt vísitala. Þetta er munurinn á samningunum, eins og þeir voru, og málinu, eins og það nú liggur fyrir, og um þetta verður ekki deilt. Þetta er viðurkennt af öllum, sem um það hafa fjallað, m. a. af hagstofustjóra, þótt hann af pólitískri tillitssemi hafi ekki viljað gefa það skriflegt til fjhn. Þegar frv. er svo athugað í samanburði við samningana og þann hátt, sem hefur verið hafður á framkvæmd þeirra að undanförnu, þá verður svo að bæta við því mati, sem menn hafa á því, hvaða áhrif aðrar aðgerðir frv., þ. e. a. s. auknar fjölskyldubætur og auknar niðurgreiðslur, hafi raunverulega á kaupmátt launa, og þar á ég ekki aðeins við þann mælikvarða, sem vísitalan leggur á þetta, heldur þá breytingu, sem hér er um að ræða í þessu efni.

Það er auðvitað deginum ljósara og rétt hjá hv. talsmanni meiri hl. n., að þessar ráðstafanir koma mjög misjafnlega niður eftir neyzlu og neyzluvenjum t. d. hvers heimilis, og áhrifin eru þess vegna ekki eins kannske fyrir nein tvö heimili í landinu. En það er hins vegar engum blöðum um það að fletta, að það er rétt, sem ég hélt hér fram við 1. umr. málsins og staðfest var af háttv. 10. þm. Reykv. núna áðan, að launþegar í heild fá mjög greinilega minna magn af vöru og þjónustu með þeirri nýju aðferð, sem nú er tekin upp. Á því er enginn vafi. Og í raun og veru er allur galdurinn við þetta frv. og þær ráðstafanir, sem það hefur að færa, í þessu fólginn. Þær eru fólgnar í því að nota sér röng gildi í vísitölunni til þess að lækka launin. Þetta er ósköp einfalt mál, og þarna er fundin aðferðin við það að geta breytt vatni í vín, eins og hæstv. ríkisstj. þykist gera. Það er enginn vafi á því og getur ekki verið umdeilt, að launaskattur, sem nemur 1½%, lækkar launin um rétt 2%. Og það er heldur enginn vafi á því, að fjölskyldubæturnar, sem eftir réttu gildi fjölskyldubótanna í vísitölunni ættu að lækka laun um 1%, lækka þau um 1.55. Þannig er með þessum tveimur ráðstöfunum, annars vegar fjölskyldubótunum og hins vegar launaskattinum, raungildi heildarlaunanna rýrt um rösklega 1 stig. Það breytir svo auðvitað ekki þessu máli, að þetta kemur misjafnt niður, eins og ég sagði, og það er ekki umdeilt, og þetta út af fyrir sig mundi kannske ekki sæta ámæli af hálfu verkalýðshreyfingarinnar eða annarra, ef ekki kæmi neitt fleira til, því að eftir sem áður fengju menn þó sín laun samkv. bókstaf samninganna. Það er svo hægt að draga upp myndina af því, hvaða aðferð þetta er, með því að stækka svolítið myndina, t. d. af launaskattinum og gera t. d. ráð fyrir því, að við hefðum lagt á 15% launaskatt í staðinn fyrir 1.5.

Við hefðum tífaldað með þessari einföldu aðferð, og þá hefðu laun lækkað um 5%, þ. e. a. s. að allur sá vandi, sem við var að glíma, hefði þá verið leystur. En ég held, að ef myndin hefði verið þannig svolítið stækkuð, þá hefði ekki lengur verið haldið uppi neinni þrætubók, að það væri verið að taka þessi 5% beint af launþegunum í stað þess, að atvinnurekendur væru látnir greiða samkv. gerðum og gildum samningum.

Ég ætla ekki hér að fara út í neina talnaleiki að fordæmi þeirra, sem hér hafa talað fyrir þessu máli, en ég segi, að sá talnaleikur er ekki meira rangur heldur en hver annar, að það sé ekki aðeins um það að ræða, að frávikin frá réttri vísitölu séu nú 4.5 til 4.7%-stig, heldur megi þar bæta við rösku stigi vegna þeirrar röskunar á heildarlaunum, sem niðurgreiðsluaðferðirnar hafa í för með sér, þannig að raungildislækkun heildarlaunanna í landinu víki nú a. m. k. 4–5% frá því að vera rétt og frá þeim hætti, sem áður hefur verið hafður á. Það er rétt, að biðtíminn, sem skaðar launþega allverulega, er ekki meðreiknaður í þessu, en ég tel í raun og veru alveg óséð, hvort hann verður nokkru léttbærari eftir en áður. Við fáum núna niðurgreiðslur í staðinn fyrir kaup samkv. samningum, og það er enginn kominn til með að segja það, hvernig framkvæmdin á þeim greiðslum verður. Það getur allt eins verið og á því eru a. m. k. fullir möguleikar fyrir hæstv. ríkisstj. að haga niðurgreiðslum svo, að skaðinn af dýrtíðinni verði alveg eins mikill og hann áður var. En það hefur sýnt sig m. a. af útreikningum, sem við gátum þrælað út úr Efnahagsstofnuninni núna fjhn.-menn, að þessi skaði fer sífellt minnkandi. Hann hefur verið tilfinnanlegur á tímabilinu frá því í septemberbyrjun og þangað til 1. des., en síðan fara verðhækkanir að hægja á sér, þannig að þessi biðtími veldur launþegum minna tjóni en áður, og þetta er augljóst af þeirri töflu, sem ég hef fyrir framan mig frá Efnahagsstofnuninni. Þar er að vísu spáð um hækkun vísitalna verðlags og kauplags miðað við óbreyttar aðstæður, en þar kemur í ljós, að kaupmáttarvísitala einstakra mánaða, sem gefur mynd af biðtímaskaðanum, er lægst í nóv., en fer síðan hækkandi allt til ársloka 1971 og verður á næsta ári mjög óveruleg.

Þá er þess að geta í sambandi við 1. des. og allar þær viðmiðanir, sem þar hafa komið fram, að eftir samningunum, ekki aðeins bókstaf þeirra heldur öllu eðli þeirra, átti að greiða kaup samkv. verðlaginu 1. nóv. Þetta verðlag er nú staðreynd, þó að okkur hafi ekki tekizt í fjhn. að fá upplýsingar um það, hvert það verð hefur verið, þannig að það væri hægt að bera saman með réttum aðferðum, hver kaupmáttarrýrnun verður samkv. frv. og miðað við samningana, en það er augljóst, að þessi hækkun verður miðað við staðreyndir málsins um 4 stig eða rúmlega það, og það geta engar niðurgreiðslur, sem hafnar eru eftir 1. nóv. haft nokkur áhrif á þá skyldu atvinnurekanda að greiða kaup samkv. verðlaginu 1. nóv. Það átti ekki að koma inn samkv. gildandi samningum fyrr en 1. marz, og miðað við það, að launþegar hafa almennt skaðazt á þessum biðtíma, þá get ég ekki betur séð en það hefði verið sanngjarnt og eðlilegt og í samræmi við allt, sem um var samið, að þeir hefðu haft nokkurn hag af því einu sinni, þegar verð lækkar, því að í því tilfelli er hér auðvitað um hag launþegans að ræða, og þess á hann vissulega að njóta, þá sjaldan að það kemur fyrir, að verð á vörum og þjónustu lækkar.

Í öllum þessum viðmiðunum, sem notaðar eru í talnaleik þeirra ríkisstj.-manna, þá er miðað við maígrunn og sagt, að kaupmáttur hafi svo og svo mikið hækkað miðað við kaup í maí. Þetta er billegur leikur, vegna þess að í maí stóð svo á, að launþegar áttu inni rúmlega 3% fyrir verðhækkanir, sem þá höfðu orðið á undanfarandi tímabili, og þær bætur áttu að koma fram í vísitölunni 1. júní, þannig að í öllum þessum leik þeirra verður að sjálfsögðu, ef hann á að vera eitthvað nærri sannleikanum, að draga 3% frá. Það var það raunverulega kaup, sem launþegar áttu þá rétt á, þótt greiðslan væri ekki fallin í gjalddaga fyrr en 1. júní. Viðmiðun við 1. des. verður þess vegna að miða, ef skoðað er út frá ákvæðum samninganna, við 1. júní. Það eru grunnkaupshækkanirnar, sem urðu eftir frávikin, sem síðar hafa orðið, og ef það er gert, þá kemur auðvitað allt annað út úr þeim dæmum, sem ríkisstj.-menn leika sér að setja hérna upp.

Ég vil þá aðeins víkja að einstökum gr. frv. og þeim brtt., sem ég flyt við frv. Ef 1. gr. frv. er athuguð, þá kemur það greinilega í ljós, að þar er ekki um neina bókstaflega verðstöðvun að ræða, enda er frv. ekki einu sinni látið bera það nafn, að það heiti verðstöðvunarfrv. eins og maður hefði þó getað ætlað. Ég er út af fyrir sig ekki að sakfella neinn fyrir það, þótt ekki sé gert ráð fyrir bókstaflegri verðstöðvun, því að ég tel hana naumast raunhæfa, og slík verðstöðvun gæti hæglega á ýmsum sviðum leitt til stöðnunar og jafnvel atvinnuleysis, þannig að ég segi þetta ekki til að sakfella einn eða neinn út af fyrir sig, aðeins til að draga það rétta fram. En ég tel, að ákvæði 1. gr. mættu þó alveg að ósekju og gætu verið miklu nær því að geta kallazt verðstöðvunarákvæði heldur en þau ákvæði eru, eins og þau eru í frv. Þar er fyrst að víkja að því, að í frv. er gert ráð fyrir, að öll erlend vara geti hækkað alveg viðstöðulaust án nokkurra hamla, ef innkaupsverð á vöru hækkar. Og í 2. málsgr. gr. er gert ráð fyrir því, að hið sama gildi um álagninguna, að hún megi haldast í prósentutali. Nú er það staðreynd, að við búum við tímabil, sem gera má ráð fyrir, að yfirleitt sé um að ræða verðhækkunartilhneigingu á erlendum vörum og nærri víst, að þar verður frekar um hækkanir að ræða en lækkanir, en við það, að slíkt verður, þá gerist það samkv. 2. málsgr. frv., að kaupsýslustéttin hefur af því verulegan hagnað, að verðlag fari hækkandi og færir það viðstöðulaust inn í sína álagningarprósentu. Nú er það á hinn bóginn svo, að kostnaður við að dreifa vöru breytist afar lítið við það, að vara hækki í verði. Þar er að vísu um svolítinn hluta kostnaðar að ræða, en hann er algerlega hverfandi, þ. e. a. s. fjármagnskostnað og fyrningu, sem þar er fyrst og fremst um að ræða, en þegar á heildina er litið, er ekki um kostnaðarauka verzlunarinnar af þessum sökum að ræða. Ég tel það þess vegna alveg óhæft, að svo sé ákveðið í frv., að kaupsýslan sé beinlínis verðlaunuð fyrir þær verðhækkanir, sem verða á erlendri vöru og geti hirt í sinn vasa aukinn gróða á tímabili, sem á að kallast verðstöðvunartími. Þetta álít ég þeim mun ósanngjarnara, sem það er augljóst, að verzlunin hefur að undanförnu notið stórkostlegs hagnaðar vegna hækkunar á erlendum vörum, vegna vöruverðshækkunar yfirleitt. Álagningargrunnur verzlunarinnar hefur verið að stórhækka, og það er hald ýmissa þeirra, sem bera vel skyn á verzlunarmál og verðlagsmál, að þessi hagnaður sé orðinn svo mikill á þessu ári, að hann hefði að fullu og öllu getað staðið undir þeirri kostnaðaraukningu, sem kaupsýslan varð fyrir vegna hækkaðra launa verzlunarfólks. Ofan á þetta tel ég algerlega óhæfu að bæta í þessu svokallaða verðstöðvunarfrv. einhverjum verðlaunum til verzlunarinnar, ef hún getur keypt dýrar inn en áður. Ég tel þá ágalla varðandi álagningartakmarkanir, sem eru í okkar verðlagsákvörðunum, vera nógu mikla, þótt þessu sé ekki bætt við á slíku tímabili sem því, sem nú er að fara í hönd. Í samræmi við þetta þá flyt ég brtt. um það, að álagning í krónutölu megi ekki hækka frá því, sem krónutalan var 1. nóv. s. l.

Að undanförnu hafa ýmsar vörur og ýmisleg þjónusta verið frjálsar undan öllum verðlagsákvæðum. Það er í fyrsta lagi sitthvað af þjónustu, sem hefur verið leyst undan verðlagsákvæðum til reynslu af hálfu verðlagsnefndar, og hefur það gefið mjög misjafna raun eins og t. d. ýmisleg viðgerðarþjónusta, bílaverkstæði, varahlutaverzlun bifreiðaumboða o. s. frv., og þar er einnig um að ræða yfirleitt alla íslenzka iðnaðarframleiðslu, sem býr við erlenda samkeppni, hún heyrir ekki undir verðlagsnefnd, heldur hefur verið gefin frjáls og við fulltrúar Alþýðusambandsins og B. S. R. B. í verðlagsnefnd studdum þessar aðgerðir á sínum tíma, vegna þess að við töldum, að í aðalatriðum veitti erlenda varan það harða samkeppni, að það væri rétt, og líka út frá atvinnuástandinu, eins og það þá var, að hafa þessar vörur frjálsar að verði frá verksmiðju, en yrðu hins vegar að lúta venjulegum álagningarreglum að öðru leyti í meðförum verzlunarinnar. Nú hefur það komið mjög greinilega í ljós, frá því að kjarasamningarnir voru gerðir á s. l. sumri, að þrátt fyrir það, að maður hefði getað ætlað, að EFTA-aðildin yki frekar á samkeppnina við þessa innlendu iðnaðarframleiðslu, að þá hefur það komið í ljós, að iðnrekendur hafa verið mjög djarfir að hækka þessar vörur, og vafalaust í mörgum tilfellum gert töluvert meira en að bæta kaupgjaldinu við verðlagið, þó að fyrir liggi ekki neinar fullkomnar upplýsingar um það. En hitt er augljóst, að þeir hala verið mjög djarfir í hækkunum, og miðað við það, að samkv. lögunum, eins og þau eru núna, eru þessar vörur raunverulega komnar undir verðlagsákvæði, vegna þess að þær mega ekki hækka samkv. lögunum, nema að hráefnisverð hækki eða eitthvað því um líkt eftir 1. nóv., þá virðist vera fullkomlega réttmætt miðað við reynsluna að undanförnu að taka þessa framleiðslu alla og verðlagningu á henni til endurskoðunar, og hygg ég, að sú endurskoðun mundi leiða í ljós, að vel væri hægt að færa nokkuð niður verðlag á ýmsum mikilvægum vörutegundum íslenzkrar iðnaðarframleiðslu frá því, sem nú er. Ekki á þetta síður við um þá þætti verðlagsins, sem hafa verið gefnir frjálsir að öðru leyti. Ég held, að þar hafi menn yfirleitt verið djarfir í hækkunum og hafi gengið yfirleitt lengra en ástæður voru til. Um þetta sagði hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins, að það væri sjálfsagt að endurskoða verðlagninguna á þessum vörum, og fagna ég þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðh., en ætlast þá líka til þess, að hann stuðli að því, að ákvæði um slíka endurskoðun verði beinlínis sett inn í 1. gr. l. Það mundi allt vera tryggara og augljósara, hvernig vald hæstv. ríkisstj. í verðlagsnefnd, oddaaðstaða hennar, yrði notuð í sambandi við þennan þátt verðlagningarmálanna. Eins og ég sagði áðan, kemur hér svo fleira til, eins og t. d. bílavarahlutir, sem ég nefni, húsgögn, viðgerðarþjónusta og ýmislegt fleira.

Loks er svo það atriði, sem ég vil, að sett verði sem ný ákvæði í 1. gr. Það er nokkuð auðsætt, að mjög stórfelldar niðurgreiðslur munu hafa áhrif á framleiðslukostnað vissra vara og þjónustu, og við getum að vísu kannske ekki á þessu augnabliki nákvæmlega fullyrt um, hvaða vöru eða þjónustu þar væri helzt um að ræða, vegna þess að við höfum ekki fyrir okkur alveg ætlanir ríkisstj. um það, hvaða vörutegundir verða greiddar niður. En verði t. d. um mjög miklar niðurgreiðslur að ræða; sem eiginlega auðsætt virðist, á landbúnaðarvörum, þá þykir mér sýnt, að t. d. öll þjónusta matsöluhúsa og veitingastaða muni eiga að lækka í verði, ef þessir aðilar eiga ekki að fara með mjög verulegan gróða frá verðstöðvunarákvæðunum. Og varðandi matsöluhúsin mætti kannske hafa það ofurlítið í huga, að verðlag á þeim eru ákaflega ríkir hagsmunir þess hóps manna í þjóðfélaginu, sem teljast einhleypir og sem sáralítið gagn hafa af þeim jákvæðu hliðum, sem eru á þeim aðgerðum, sem nú eru fyrirhugaðar. Þeir fá ekki fjölskyldubætur, þeir njóta ekki beinlínis niðurfærslu á einstökum vörutegundum, nema því aðeins að þar sem þeim eru seldar þær vörur gegnum aðra þjónustu, þá verði hún einnig lækkuð. Fleira gæti komið til greina eins og t. d. unnar kjötvörur, ef auknar verða niðurgreiðslur á kjöti og kannske sitthvað fleira, sem ég tel ekki ástæðu til að nefna og kem kannske ekki að öllu leyti auga á í þessu sambandi. En alla vega virðist það vera sanngirnismál, að þegar um umtalsverða lækkun á framleiðslukostnaði er að ræða vegna niðurgreiðslnanna, þá verði þar einnig um verðlækkun að ræða, ekki aðeins um það, að varan standi í stað.

Við 3. gr. geri ég þá brtt., að hún verði felld niður og sömuleiðis 4. og 5. gr. 3. gr. fjallar um launaskattinn, og hef ég gert hann að umtalsefni, hversu eiginlega fáránlegt það sé, að ríkiskerfið taki að sér að greiða hluta af laununum fyrir atvinnurekendur, og það sé miklu eðlilegra, að kaupið sé þeim mun hærra, sem þessu svarar. Og ég hef ennfremur bent á það, að með þessu er verið raunverulega að hafa af launastéttunum sem heild mjög verulegar upphæðir og lækka heildarlaunin meira en ágóðanum nemur. Ennfremur er þess að gæta, að það er sama um þetta að segja eins og t. d. fjölskyldubæturnar, að þessi ráðstöfun kemur mjög misjafnlega niður. Því er t. d. lýst í bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, að launaskatturinn muni nema meiri kostnaðarauka fyrir útveginn en allar skuldbindingar samkv. samningunum. Atvinnurekendur aðrir hagnast auðvitað á þessu. En ég hélt nú t. d., að það væri kannske sízt útvegurinn, sem ætti að verða fyrir barðinu á slíkum lögum, sú atvinnugreinin, sem hefur orðið að bera allar kostnaðarhækkanir bótalaust að öðru en því, sem við höfum engu um ráðið, að verðlag á erlendum mörkuðum hefur hækkað. Þá sýnist mér líka, að þessi launaskattur hafi það í för með sér, að einyrkjar í ýmiss konar atvinnurekstri verði illa úti og þeir séu raunverulega krafðir um hluta af launum sínum til þess að greiða launin niður. Þar í eru t. d. smáútvegsmenn, sjálfseignarbílstjórar og margir fleiri, sem verða að borga þennan skatt beint af launum sínum. Það er ekki um það að ræða, að atvinnurekendur borgi hann, heldur fólk, sem er í raun og veru bara launamenn. Ég er af þessum ástæðum því eindregið fylgjandi, að kaupið sé þess hærra, sem þessu nemur, og tel, að það sé hagkvæmara fyrir launamenn, þegar á heildina er litið.

4. gr. fjallar um breyttan viðmiðunartíma, sem ég hef vikið að, um það, að tóbak og áfengi sé tekið út úr vísitölunni og tryggingarnar. Því hefur verið haldið fram um tryggingaiðgjöldin, eins og hæstv. fjmrh. hefur sagt hér í hv. d., að það sé fráleitt að hafa þetta inni í vísitölu, vegna þess að því fé, sem með þessu iðgjaldi er aflað, sé varið til velferðarmála. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hér er um eina allra tilfinnanlegustu skattheimtu, sem um getur, og í mörgum tilfellum einhverja ósanngjörnustu skattheimtu, sem við höfum í öllu okkar þokkalega skattkerfi. Þetta gjald verða menn að borga án alls tillits til tekna og möguleika til þess að greiða það. Og í ákaflega mörgum tilvikum, t. d. þeim, þar sem mörg börn eru í framhaldsskólum, þá er þetta skattur, sem heimill í landinu eiga mjög erfitt með að greiða. Hér er heldur ekki um það að ræða, eins og við skattlagningu á vörum eða þjónustu, að menn eigi neitt val. Þetta verða menn að greiða, hvort sem menn hafa til þess möguleika eða ekki. Í þeim tilvikum, að einstaka vörutegundir séu hækkaðar, þá er þó alltaf hægt að benda á það, að menn eiga þar visst val, og geta þannig þeir, sem minnst efnin hafa, e. t. v. breytt eitthvað neyzluvenjum sínum, án þess að stórir hlutir gerist. En hér er ekki um neina miskunn að ræða, jafnvel félausir námsmenn eru eltir uppi af gjaldheimtustofnunum og þeim hótað gjaldþrotaskiptum, ef þessi gjöld eru ekki greidd á réttum tíma. Afstaða mín til þessa nefskatts vegna trygginganna er sú, að ég álít, að hann ætti að hverfa með öllu og það ætti að afla þessara tekna meira eftir efnum og ástæðum eftir öðrum leiðum skattalaga, en meðan það er ekki, tel ég algert lágmark, að það sé tekið fullt tillit til þess við verðlagsuppbætur á laun, hver þessi skattaþungi er. Ég mótmæli því eindregið skoðunum hæstv. fjmrh. og annarra á því, að það sé fráleitt að hafa þessi gjöld inni í vísitölunni, og skiptir þar engu, þó að þessi skattur sé eyrnamarkaður til velferðarmála. Það er hægt að afla hans öðruvísi og það er staðreynd, að þessi iðgjöld hvíla mjög þungt á tekjulágu fólki.

Í 5. gr., sem ég legg til, að verði felld niður, eru ákvæðin um 2 vísitölustigin, sem mest hefur verið rætt um, og það tel ég sjálfsagt, að þau ákvæði og önnur í sömu gr. falli niður. Ég er þeirrar skoðunar, að það kunni nú svo að fara, að hér verði ekki aðeins um þriggja mánaða undanhald hæstv. ríkisstj. að ræða í því efni að ræna þessum stigum af launamönnum. Mér þykir býsna sennilegt, að undanhaldið haldi áfram og þau verði kannske aldrei tekin. En ef það er hugmyndin, þá er auðvitað rétt að ganga hreinlega til verks og taka þetta ákvæði þegar út úr lögunum. Ef það er aftur hugmyndin, að það eigi að taka þessi vísitölustig síðar á þessu svokallaða verðstöðvunartímabili, þá er það sjálfsögð krafa hv. þdm. til þeirra, sem að frv. standa, að gera þeirri spurningu full skil, hvenær þetta eigi að koma inn, þannig að menn viti hér í þessari hv. þd. og hv. Alþ., hvað menn eru að samþykkja, en eigi þar ekki allt undir tilviljunum og duttlungum þeirra, sem með framkvæmdina fara síðar.

Það skal alveg viðurkennt af minni hálfu, að miðað við þær breytingar, sem ég legg til, að gerðar verði á frv., ná endar ekki fullkomlega saman um eyðingu þeirra 7.5 vísitölustiga, sem um var að ræða. Varðandi launaskattinn í því efni vil ég segja það, að ég sé ekki, að það skipti neinu höfuðmáli, hvort kaupið er þessu 1½% hærra eða hvort ríkisstj. gerist milligöngumaður um það að koma þeirri upphæð til skila til launþega. Það er þess vegna auðsætt, að yrðu þessar till. mínar, sem að miklu leyti falla saman við till. hv. 2. minni hl. fjhn., samþykktar, þyrftu að koma til meiri niðurgreiðslur eða niðurfærsla verðlags í einhverju formi, en ég tel, að á því ættu að vera fullir möguleikar í fyrsta lagi gegnum endurskoðun verðlagsákvæða, þar sem áreiðanlega er akur, sem má slá svolítið nær rótinni en gert hefur verið með sparnaði í ríkisrekstri og samsvarandi niðurfærslu verðlags, með niðurgreiðslum á vöruverði eða öðrum beinum ráðstöfunum til verðlagslækkana. Í þriðja lagi með kerfisbreytingum, t. d. með samningum við bændastéttina, sem ég tel, að miðað við það stórkostlega fjármagn, sem til landbúnaðarins er veitt með beinum og óbeinum hætti, væri það a. m. k. líklegt og í öllu falli reynandi að semja við bændur um lækkun á búvöruverði með því að þeir fengju milliliðalaust verulegan hluta eða mestan hluta af því fé, sem til landbúnaðarins er varið með margvíslegum hætti. Ég er sannfærður um það, að slíkir samningar mundu ekki verða mjög torveldir, og veit, að mikill hluti bændastéttarinnar er slíkri kerfisbreytingu fylgjandi.

Þá er loks að minnast á þá varatill., sem ég flyt við þetta frv. Hún byggist á því, að það er mín skoðun, að það sé bæði óréttlátt og raunar fráleitt miðað við allar aðstæður í þjóðfélaginu, eins og það er nú, að lækka kaup lægst launuðu stéttanna. En þó sé enn örlagaríkara atriði þess máls, sem hér ræðir um, að ráðizt er gegn frjálsum samningsrétti verkalýðssamtakanna og rétt gerðir og lögmætir samningar gerðir að engu í veigamiklum atriðum, í grundvallaratriðum. Ég fullyrði það, að öllum, sem stóðu að samningunum s. l. vor, gæti verið það eiður sær, hvar sem væri og hvenær sem væri, að þeir samningar hefðu aldrei verið gerðir, ef sú skerðing á vísitöluákvæðunum, sem hér á að gera, hefði þá blasað við eða verið augljós þeim, sem undirrituðu samningana. Ég fullyrði, að það hefði aldrei komið til mála að gera samninga til nær 1½ árs, sem var alger breyting frá venjum verkalýðshreyfingarinnar, sem yfirleitt hefur aldrei samið lengur en til ársins nema með þeim tryggingum fullgildum, sem fólust í ákvæðunum um verðlagsbætur, og þeim tryggingum, ekki einhvern veginn, heldur eins og þær voru ákveðnar þar í samningunum. Ég skora á hæstv. fjmrh. og hv. 10. þm. Reykv. að svara því skýrt og skilmerkilega, hvort ég muni fara hér með rétt mál eða ekki. Ég veit, að í raun og veru vita þeir þetta jafn vel og ég, að samningarnir hefðu aldrei verið gerðir eins og þeir voru gerðir, hvorki að efni eða til jafnlangs tíma og þeir voru gerðir, nema þetta væri talið fulltryggt, að ákvæðin um vísitöluna og verðlagsbæturnar stæðu, eins og um var samið. Ef það er viðurkennt, að þessi fullyrðing mín sé rétt, þá er þar með líka viðurkennt, að einmitt þetta var grundvöllur samninganna og þar með, að þeim grundvelli sé kippt á brott með ákvæðum þessa frv., ef það verður að lögum. En hvað sem því líður, þá er skilningur og afstaða verkalýðshreyfingarinnar nú í þessu máli staðreynd, sem ekki verður gengið fram hjá og hlýtur að hafa sínar afleiðingar, bæði fyrr og síðar, og hlýtur að marka viðbrögð og stefnu hreyfingarinnar í kjaramálum á næstu tímum. Alþýðusambandið hefur fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar slegið því föstu, að kaupgjaldsákvæði samninganna séu með frv. þessu, ef að lögum verður, upphafin og verkalýðsfélögin séu óbundin af þeim og um þetta ætti raunverulega ekki að þurfa að deila, svo augljóst sem þetta er í raun og veru. Ég held, að það sé öllum, og ég undanskil ekki hæstv. ríkisstj. frá því, fyrir beztu, að þetta sé strax viðurkennt, að ef þau ákvæði frv., sem lúta að breytingum og skerðingu á grundvelli samninganna, verði samþ. hér, þá séu allir samningar í landinu lausir, þá séu samningarnir, sem fyrir þessum ákvæðum gerðu ráð, lausir. Og ég endurtek það, sem ég sagði hér við 1. umr., að ég tel það algert lágmarkssiðgæði í samskiptum ríkisvalds við verkalýðshreyfinguna að viðurkenna þetta og fækka þar með þeim deilumálum, sem út af þessu frv. og þeim ákvæðum, sem það hefur inni að halda um mikilsverð atriði, hafa risið. Mér virðist auðsætt, að þetta frv. boði hættu, sem hæstv. ríkisstj. ber alla ábyrgð á, ábyrgð á því, að deilur magnist á tímabilinu fram að 1. okt. n. k., þ. e. a. s. á fyrirhuguðum samningstíma og jafnvel síðar, og það væri farsælast, að slíkar deilur yrðu settar niður með samningum, þar sem frjálsir aðilar semdu, en annar aðilinn hefði ekki lagavöndinn yfir höfði sér. Ég held, að það að viðurkenna ekki þessa staðreynd, að grundvelli samninganna hefur verið kippt brott og þeir eru því raunverulega upphafnir, mundi auka á viðsjár, magna deilur og torvelda lausn þeirra mála, sem nú blasir við, að menn þurfi að geta samið um. Og ég vil enn í þessu sambandi minna á reynsluna af farmannadeilunni, sem nú er nýafstaðin.

Ég vil svo aðeins segja það að lokum, að ég vil varla trúa öðru en því, að þeir, sem að þessu frv. standa, muni að athuguðu máli, og eins og það nú liggur fyrir, eftir að afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þess er orðin augljós, fallast á að viðurkenna með þeim hætti, sem till. mín gerir ráð fyrir, að samningsaðilar hafi fullan rétt til þess að segja upp samningunum frá 19. júní s. l. og freista nýrrar samningsgerðar með þeim hætti, sem rétt lög og venjur ákveða. Ég held, að með þeim hætti væri þrátt fyrir allt líklegra, að friður gæti tekizt á vinnumarkaðinum, eins og til var stofnað og grundvöllur lagður að með samningunum s. l. sumar. Fyrir slíkri viðurkenningu höfum við fordæmi frá því í des. 1966, þegar grundvelli sjómannakjaranna hafði verið rift með gengisfellingarlögunum, að skynsamir menn komu þá vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. í því efni, að hún setti það ákvæði inn í lögin, að samningarnir skyldu vera lausir. Það er alrangt, sem hæstv. fjmrh. hefur haldið hér fram, að þetta hafi eingöngu stafað af því, að ríkisstj. hafi séð í hendi sér, að þar sem samningar yfirmanna voru að einhverju leyti lausir, en ekki samningar sjómanna almennt, þá hafi hún talið það sjálfsagt, að allir samningar yrðu lausir. Ástæðan var ekki þessi. Mér er vel kunnugt um það, að þetta ákvæði var tekið inn samkv. kröfu sjómannasamtakanna og m. a. vegna þess, að útvegsmenn voru í þessu tilviki það sanngjarnir, að þeir viðurkenndu það, áður en þetta lagaákvæði var sett inn, að þeim væri ekki stætt á öðru en að viðurkenna það, að það bæri að gera nýja samninga, þegar öllum samningsgrundvellinum hafði verið rift og aðstæður höfðu gerbreytzt frá því, að samningarnir voru gerðir. Hér er í raun og veru um nákvæmlega sams konar mál að ræða, og var það í raun og veru viðurkennt af hæstv. fjmrh., þó að niðurstaða hans væri sú um bæði tilfellin, að hvorki hefði samningunum verið raskað við sjómennina 1968, þó að 27% væru tekin af óskiptum aflahlut, m. a. af aflahlut þeirra, og ekki heldur núna, þegar vísitölugrundvellinum er gerbreytt. Ég vil þó taka fram, að hér er aðeins um varatillögu að ræða. Aðaltillaga mín er sú, að skerðingarákvæði frv. verði felld niður og það þannig gert að jákvæðu verðstöðvunarfrv. eða eitthvað í átt við það, og það er auðvitað bezta lausn málsins, en sú næstbezta væri þó sú, að menn viðurkenndu hér staðreyndir, en hættu að lemja höfðinu við steininn.