25.11.1970
Neðri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

9. mál, Iðnlánasjóður

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning, að Iðnþróunarsjóður sé að græða á iðnaðinum — eða Iðnlánasjóður, hvort heldur sem er — með því að taka hærri vexti heldur en æskilegt væri. Þessi uppbygging á vaxtakjörum Iðnþróunarsjóðs eða vaxtaákvörðun — þar er auðvitað miðað við uppbyggingu sjóðsins, að svo miklu leyti sem vextirnir væru lægri, mundi eigið fé sjóðsins bara vaxa hægar og þetta getur auðvitað verið matsatriði á hverjum tíma, hvaða leið á að fara í slíkum efnum — allt kemur þetta í sjálfu sér iðnaðinum í heild til góða, þó að vextirnir séu hærri, því að þeir þýða í framtíðinni meira eigið fé í Iðnþróunarsjóði. Ég minni hins vegar á það, að ég hef sagt hér í þingræðum áður, að ég telji, að það þurfi að fara fram endurmat á aðstöðu iðnaðarins í þjóðfélaginu miðað við aðrar atvinnugreinar, bæði í sambandi við lánsfjáröflun til iðnaðarins og fjárveitingar beint úr ríkissjóði. Og ég held, að þetta endurmat sé einmitt í gangi og það megi kenna mörg merki þess endurmats og aðstaða iðnaðarins nú sé að verulegu leyti allt önnur heldur en hún áður var, en ég tek undir það með hv. 4. þm. Reykv., að þetta endurmat eigi að halda áfram. Mér var það alveg ljóst, að slíku yrði aldrei kippt í liðinn með skjótum hætti, og fyrsta skilyrðið var, að það vaknaði skilningur hjá hv. þm., þingheimi fyrst og fremst, almennt fyrir gildi iðnaðarins, til þess að slíkt endurmat færi fram. En það sýnir sig á margan hátt, að iðnaðurinn hefur aðra aðstóðu nú heldur en hann hafði áður.

Það væri ákaflega æskilegt, ef við gætum — ekki til þess að deila um það og rífast á milli atvinnuveganna, — gert okkur grein fyrir því, ja, ef sjávarútvegurinn á að fá þetta, þá er eðlilegt, að landbúnaðurinn fái þetta og eðlilegt, að iðnaðurinn fái þetta, við skulum segja úr ríkissjóði eða í lánsfjáröflun af opinberri hálfu o. s. frv. Þetta verður seint gert, en hins vegar ætti að vera hægt að vissu marki að byggja á nokkuð sambærilegri aðstöðu þarna á milli. Nú er nokkuð erfitt alltaf fyrir þm. að ræða mál eins og þessi, eins og við höfum lítillega verið að gera nú, úr ræðustól, en ég teldi, að það væri mjög æskilegt, að sú n., sem fær málið til meðferðar, gerði því frekari skil. Ég held, að það væri mjög æskilegt, að n. fengi grg. frá stjórn Iðnþróunarsjóðs, íslenzku framkvæmdastjórninni, sem hér er. Ég veit nú ekki, hvenær næsti sjóðsstjórnarfundur verður, hvort hann verður fyrir jól hér í Reykjavík, en alla vega er formaðurinn hér og getur látið þessari n. í té grg. um það, hvað hefur verið ákvarðað í Iðnþróunarsjóðnum fram að þessu og á hverju hann hefur t. d. byggt ákvarðanir sínar um vexti, sem munu vera misjafnir. Ég sagði 6% til Iðnlánasjóðs. Þeir munu vera hærri af einstökum lánum til einstakra fyrirtækja, sem hann hefur lánað beint, og þetta er auðvitað mjög æskilegt, að menn geti fengið grg. um og n. gæti síðan gert þingheimi grein fyrir því í þskj. Ég skal ekki fara nánar út í þetta, en mér finnst það ósköp eðlilegt og ég skil það vel, þegar þm. vilja hafa vissar skoðanir um aðra uppbyggingu á t. d. sjóðsmyndun, önnur vaxtakjör og önnur ákvæði um gengisáhættu o. s. frv. Það lágu fyrir mér, þegar ég féllst á að flytja þetta, brbl. í júlí, ýmsir útreikningar, eins og ég sagði áðan, sem ég hef ekki með höndum núna, er sýndu, á hverju þetta væri byggt. Það var eðlilega stillt upp einhverjum hugleiðingum um hugsanlegar gengisbreytingar o. s. frv. og hvað svona vaxtabreytingar gætu gefið mikið öryggi í því sambandi. Fyrir þm. finnst mér, að slíkar hugleiðingar eigi ekki að vera neitt leyndarmál og gefi þeim bara styrkari aðstöðu til þess að meta mál til ákvörðunar, þegar það liggur fyrir, eins og þetta mál liggur fyrir nú.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en bæði varðandi rekstrarlánin í iðnaðinum og einnig hlutfall rekstrarlána og skammtímalána, hvort það hefur breytzt t. d. frá þeirri rannsókn, sem prófessor Guðmundur Magnússon gerði að tilhlutan iðnrn. 1969, eða ekki og við skulum segja sambærileg eðlilega talin rekstrarlán, skammtímalán í fyrirtækjum reknum í nágrannalöndunum, þá væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um þetta, sem sennilega er hægt á mjög skömmum tíma, að vissu marki a. m. k., að fá frá þeim aðilum, sem hérna eiga hlut að máli, sem er framkvæmdastjórn norræna iðnþróunarsjóðsins, sem hefur sína sérstöku skrifstofu hér og framkvæmdastjóra, og formaður sameiginlegu sjóðsstjórnarinnar.