19.03.1971
Efri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

262. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Annað, þriðja og fjórða mál á dagskránni eru í reynd um sama efni — og mjög einfalt efni, svo að ég leyfi mér með leyfi hæstv. forseta að mæla þau fáu orð, sem ég mæli, fyrir öllum frv. þremur í einu.

Það, sem í þessum frv. felst, er það, að gerð er breyting á tekjuöflun Menningarsjóðs. Eins og kunnugt er, eru þau ákvæði í gildandi l., að hluti af tekjum Menningarsjóðs er fólginn í sektum fyrir áfengislagabrot og í tekjum af áfengi, sem gert er upptækt. Í þessu frv. felst það, að framvegis skulu tekjur af áfengislagabrotum og áfengi, sem gert hefur verið upptækt, renna í ríkissjóð, en hins vegar gert ráð fyrir því, að framvegis verði tekin á fjárlög upphæð, sem sé ekki minni en sú, sem Menningarsjóður ella mundi hafa fengið af þessum sökum. Gert er ráð fyrir því, að Alþ. meti þá sjálfstætt tekjuþörf Menningarsjóðs og taki fjárveitingar til hans í fjárl., eins og á sér nú stað um aðrar hliðstæðar menningarstofnanir.

Í tengslum við þetta er svo það, að eðlilegt er að létta þeirri byrði af Menningarsjóði, sem nú hvílir á honum, að greiða í Vísindasjóð og til Listasafns Íslands til listaverkakaupa, og gildir það sama um þetta, að þessum stofnunum verður bætt þetta með sérstökum framlögum á fjárl. Þetta er efni frv. þriggja og annað ekki.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.