22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

262. mál, Listasafn Íslands

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við aths., sem hv. frsm. menntmn. gat áðan um sem ábendingu frá mér. Það er rétt, að ég vakti athygli á því, að um leið og sú breyting er lögð til, að áfengissektir hætti að renna til Menningarsjóðs, þá hefði verið rétt að fella jafnframt úr gildi þau ákvæði í áfengislögunum, þar sem segir, að þessar sektir skuli renna þangað; það er í tveimur greinum áfengislaganna. Það er nú að vísu svo, að þessi lög eða breytingar á lögum um Menningarsjóð og menntamálaráð eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót, og það má segja, að það sé svo sem alltaf svigrúm til að breyta því. En ég vildi aðeins leiðrétta það, að ég hafi sagt, að það þyrfti að endurskoða áfengislögin, þar sem ég átti ekki við það þannig í þeirri merkingu, sem maður venjulega leggur í það, því að það mundi maður yfirleitt skilja sem allsherjarendurskoðun á lögunum öllum. En ég lét orð falla um, að það eru viss ákvæði þar, sem viðbúið er, að þurfi að breyta á næsta hausti og mundi þá að sjálfsögðu koma að því að fella niður þessar greinar varðandi áfengissektirnar úr lögunum. Það hefur ekki komið fram nein brtt. Út af fyrir sig mætti bæta þessu inn í gr. um gildistöku í þessu frv., sem reyndar er nú ekki það, sem er til umræðu núna, en bar á góma í sambandi við það, og tekur þá n. þetta til athugunar á milli umr., ef svo sýnist, að rétt væri að setja inn í frv. ákvæði um að fella niður þessa einu málsgrein og eina setningu að auki í áfengislögunum, sem um þetta fjalla.