18.11.1970
Efri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð vegna ræðu hæstv. viðskmrh. hér áðan, þar sem hann tók undir aðra brtt. mína við 1. gr. þessa frv., þ. e. að við gr. bættist það, að hlutaðeigandi verðlagsyfirvöldum væri skylt að endurskoða til lækkunar verð á öllum vörum og þjónustu, þar sem auknar niðurgreiðslur á vöruverði frá 1. nóv. 1970 ættu að einhverju leyti að hafa áhrif á framleiðslukostnað svo sem verðlag matsöluhúsa. Það er nú ekki svo oft, að hæstv. ráðh. komi hér upp í stólinn til þess að taka undir till., sem stjórnarandstæðingar flytja, að ég tel sjálfsagt að lýsa ánægju minni yfir þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. svo langt, sem hún nær, en bendi þó á, að hæstv. ráðh. hætti lestrinum, þar sem byrjaði endirinn á greininni, en þar segir: „Ennfremur er sömu yfirvöldum skylt að endurskoða verðlag á vörum og þjónustu, sem að undanförnu hefur ekki verið háð verðlagsákvæðum.“ Þetta er að sjálfsögðu langþýðingarmesti hluti þessarar brtt. Nú vill að vísu svo vel til, að hæstv. fjmrh. hefur efnislega lýst sig fylgjandi einmitt þessu atriði í minni till. og liggja þá fyrir meðmæli frá þessum hæstv. ráðh. báðum um allt efni þessarar brtt. Nú vil ég gera ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi ekki stigið upp í stólinn og gefið þessa yfirlýsingu í þeim tilgangi að fella till., þar sem hann var að mæla með efni hennar, og væri þá við hæfi að mér finnst, að hv. þd. staðfesti þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar af ráðh. og gerði hreint fyrir sínum dyrum með því að samþykkja þessa till.