01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

263. mál, Menningarsjóður og menntamálaráð

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og var samþ. þar ágreiningslaust, að því er ég ætla, ásamt tveimur öðrum frv., sem eru í tengslum við þetta frv. um breytingu á lögum um Listasafn ríkisins og lögum um Vísindasjóð. Lög um Menningarsjóð og menntamálaráð eru frá 5. júní 1957, nr. 50. Lög um Vísindasjóð eru í tengslum við þau lög, nr. 51 frá 5. júní sama ár. Lög um Listasafn ríkisins eru frá 1961, og safnið er samkv. þeim í fjárhagslegum tengslum við Menningarsjóð. Hér er lagt til, að 1. gr. laganna um Listasafnið verði breytt þannig, að eftirleiðis verði veitt fé til rekstrarkostnaðar Listasafnsins og til listaverkakaupa á fjárlögum, en samkv. gildandi lögum hefur Menningarsjóður verið þar milliliður. Jafnhliða þessu frv. liggur fyrir frv. um breytingu á tekjustofnum Menningarsjóðs á þskj. 519. Og svo er í þriðja lagi frv. um breytingu á lögum um Vísindasjóð, sem nú er gert ráð fyrir, að fái sérstakt framlag á fjárlögum og frá Seðlabanka Íslands, en samkv. lögunum frá 1957 átti hann að fá árlegt framlag úr Menningarsjóði. Sem sjá má af þessu, þá eru mjög náin tengsl milli allra þessara laga, og hér er gert ráð fyrir að breyta þar nokkuð til. Þessar breytingar eru gerðar miðað við fengna reynslu, meðan þessi lög hafa verið í gildi, og til samræmis við breytta tíma og byggðar á athugun nefndar, sem hæstv. menntmrh. skipaði 3. jan. 1968. Ég hef leyft mér að gefa nokkra skýringu á þessum frv. og gildandi lögum þar um í einu lagi vegna þess, hversu þetta er nátengt. Eins og fyrr segir, eru frv. komin frá Ed. og voru þar samþ. shlj.

Á þskj. 736 liggur fyrir álit menntmn. um frv. um Menningarsjóð og menntamálaráð, og mælir n. með frv. einróma.