22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

264. mál, vísindasjóður

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði, þegar ég mælti fyrir frv. um Listasafn Íslands, þá tel ég svo náið samhengi á milli þessara þriggja frv., að það væri ekki ástæða til að hafa sérstaka framsögu fyrir hinum málunum tveimur, og það er einvörðungu vegna ábendinga hæstv. dómsmrh., sem ég taldi rétt að kveðja mér hljóðs. Mér þykir leitt, ef misskilnings hefur gætt á milli okkar um þá endurskoðun á áfengislögunum, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, og er auðvitað sjálfsagt að taka það eitthvað til greina, enda skiptir það ekki máli í sambandi við það mál, sem hér er verið að ræða, að hæstv. ráðh. átti ekki við allsherjarendurskoðun, heldur aðeins endurskoðun á einstökum lagagreinum. En varðandi þá till. hæstv. dómsmrh., að n, taki þetta til athugunar á milli 2. og 3. umr. og setti þá í gr. um gildistöku laganna — það mundi nú eiga við um frv. um Menningarsjóð og menntamálaráð, að ákvæði áfengislaganna um sektir vegna áfengislagabrota rynnu í Menningarsjóð — er auðvitað hægt að gera það, en ég vildi varpa fram þeirri spurningu, hvort slíkt sé nauðsynlegt, bæði með tilliti til þess, að þessi löggjöf tekur ekki gildi fyrr en um næstu áramót, og í öðru lagi hefur það verið upplýst, að fyrir dyrum stendur að gera breytingu á áfengislögunum. Einnig hef ég litið þannig á, að yngri lög hljóti alltaf að breyta ákvæðum eldri laga, sem í bága við þau fara. Með tilliti til þess, að æskilegt er auðvitað að hraða málum sem mest eins og á stendur á hv. Alþ., þá hefði ég litið þannig á, að ef hæstv. forseti af öðrum ástæðum sæi sér fært að afgreiða þessi mál núna við fyrri umr., þá þyrfti ekki — ef ekki koma fram aðrar skoðanir hér í hv. d. — að láta n. fjalla um málið að nýju, en komi einhverjir slíkar skoðanir fram, þá er auðvitað sjálfsagt að virða þær.