19.03.1971
Efri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

283. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, fól heilbr.- og trmrn. Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að semja, og endurskoðaði hann lög nr. 18 frá 1970, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Ég hirði ekki um að rekja aðdraganda þessara l., en tilkoma þessa frv. er sú, að tvö frv. sama efnis höfðu verið flutt í báðum deildum þingsins annars vegar af hv. þm. Birni Jónssyni og hins vegar af Eðvarð Sigurðssyni — í Nd. af Eðvarð Sigurðssyni og Magnúsi Kjartanssyni, en í Ed. af Birni Jónssyni og Jóni Þorsteinssyni. Guðjóni Hansen tryggingafræðingi var síðan falið í samráði við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands að sameina þessi frv., sem voru efnislega mjög lík. Þær höfuðbreytingar frá gildandi l., sem felast í frv. eru:

1. Samkv. núgildandi l. taka þau aðeins til félaga í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, en með tilliti til þess, að 3/4 hlutar útgjalda til eftirlauna eru greiddir úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þá er í frv. gert ráð fyrir rýmkun þessa ákvæðis í þá átt, að sama gildi um aldraða félaga í öðrum stéttarfélögum, enda teljist þau til verkalýðsfélaga samkv. l. um atvinnuleysistryggingar og hafi komið á hjá sér skylduaðild að lífeyrissjóði.

2. Gert er ráð fyrir, að skilyrðið um starf í árslok 1967 falli brott og verði réttur til ellilífeyris bundinn því skilyrði, að hlutaðeigandi hafi starfað a. m. k. 10 ár eftir árslok 1954 og eftir að hann náði 55 ára aldri. Þessi breyting hefur í för með sér mikla fjölgun lífeyrisþega.

3. Samkv. frv. er skilyrðinu um félagsaðild breytt í það horf, að einungis er krafizt, að hlutaðeigandi sé fullgildur félagi, þegar hann sækir um eftirlaun, en samkv. gildandi l. skal aðeins reikna sem réttindatíma þann tíma, sem maðurinn hefur verið fullgildur félagi.

4. Gert er ráð fyrir tengingu við l. um Lífeyrissjóð bænda, sem samþ. voru í árslok 1970, og loks má nefna, að skilyrðið um, að félagi sé hættur starfi, er samkv. frv. fellt niður við 75 ára aldur.

5. Bótaákvæði núgildandi l. eru sniðin eftir þeim ákvæðum um lífeyrisgreiðslur, sem almennt voru í gildi hjá lífeyrissjóðum stéttarfélaga og fyrirtækja vorið 1969, en reglur hinna nýju lífeyrissjóða eru hins vegar ólíkar þessum ákvæðum í grundvallaratriðum. Með þessu frv. er gert ráð fyrir aðlögun að þessum reglum, en sú aðlögun hefur m. a. í för með sér, að ellilífeyrisgreiðslur fyrir stuttan réttindatíma hækka verulega. Þá er í frv. aðeins einn kauptaxti, er hafa skal til viðmiðunar við ákvörðun réttinda fyrir tímabilið 1955–1969, og veldur sú breyting verulegri jöfnun eftirlaunafjárhæða þeim í vil, sem tekið hafa laun samkv. hinum lægri kauptöxtum og fá nú mesta hækkun, ef frv. verður að l. Jafnframt verður öll framkvæmd miklum mun auðveldari, er einungis þarf að hafa einn taxta tiltækan við útreikning eftirlauna.

6. Í frv. er ákvæði um 5 stiga lágmarkseftirlaunarétt. Til þessa lágmarksákvæðis þarf ekki að grípa, nema mjög óverulegar launagreiðslur hafi verið grundvöllur réttindanna. Þess eru hins vegar dæmi, að eftirlaun hafa verið úrskurðuð á grundvelli svo lágra launagreiðslna, að 15 ára iðgjaldagreiðsla til hinna nýrri sjóða af slíkum launum mundi engan rétt veita. Eðlileg afleiðing af hærra lágmarki væri því að setja jafnframt strangari skilyrði um lágmark launagreiðslna, er rétt gætu veitt samkv. l. Þá má og búast við því, að því hærra sem lágmarkið yrði, þeim mun meiri óánægju mætti vænta af hálfu þeirra, sem fengju synjun vegna of skamms réttindatíma, en teldu sig með nokkrum rétti verðugri eftirlauna en ýmsa þá, sem fengju eftirlaun fyrir lítið starf, t. d. ígripavinnu eina.

7. Í núgildandi l. eru engin ákvæði um hækkun eftirlauna, eftir að þau eru úrskurðuð í fyrsta sinn. Í frv. er gert ráð fyrir heimild ráðh. til að ákveða slíkar hækkanir fyrir eitt ár í senn.

8. Í áætlun, sem gerð var vorið 1969, var gert ráð fyrir, að útgjöld til eftirlaunakerfis þess, sem hér um ræðir, mundu nema um 25 millj. kr. árið 1970. Enda þótt ekki séu öll kurl komin til grafar, þá má gera ráð fyrir því, að útgjöldin verði vart nema fjórðungur af hinni áætluðu upphæð, og höfuðástæða þess er stórbætt atvinnuástand.

Í fjárlögum ársins 1971 eru útgjöldin áætluð 36 millj. kr. Það má áætla, að með samþykkt frv. muni eftirlaun umsækjenda, sem þegar hafa verið úrskurðuð eftirlaun, nema um 14 millj. kr. á þessu ári. Auk eðlilegrar fjölgunar eftirlaunafólks á þessu ári bætist við stór hópur manna, sem hætt hafa störfum á árunum 1964 og 1967 og ýmis ákvæði frv. hafa í för með sér nokkra fjölgun. Það er því gert ráð fyrir, að útgjöld á þessu ári geti alls orðið yfir 30 millj. kr., ef þetta frv., sem ég vona og legg áherzlu á ásamt þeim flm., sem upphaflega fluttu frv., verður afgreitt á þessu þingi, en afar ósennilegt er, að útgjöldin fari fram úr fyrrgreindri upphaflegri fjárhæð fjárlaga.

Ég tel svo ekki þörf á því, herra forseti, að rekja nánar, þó að e. t. v. væri tilefni til, efni þessa frv., en það gefst þá væntanlega tækifæri til þess síðar. En till. mín er sú, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.