01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

283. mál, eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Ed., þar sem það hlaut einróma samþykki, og hefur heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. haft það til meðferðar og er sammála um að mæla með því óbreyttu. Eins og fram kemur í grg. frv., þá er frv. samið af Guðjóni Hansen tryggingafræðingi, sem hefur haft samráð við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands. Fulltrúar þessara beggja aðila hafa fylgzt með gangi málsins og eru samþykkir frv., eins og það liggur fyrir. Fyrr á þessu þingi flutti hv. 2. landsk. þm. ásamt hv. 6. þm. Reykv. frv. til laga um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum, og er efni beggja frv. nokkuð svipað að öðru leyti en því, að stjfrv., sem hér er til umr., er ítarlegra. En í sambandi við frv. Eðvarðs Sigurðssonar á þskj. 43 þá bárust heilbr.- og félmn. erindi frá tvennum félagasamtökum, sem þá óskuðu eftir, að þeirra meðlimir féllu undir lögin um eftirlaun aldraðra, en það var Verkstjórasamband Íslands og Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra, sem óskuðu þess sama. Og eins og lögin liggja nú fyrir, þá gera þau ráð fyrir, að þau félög og félagasamtök, sem greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs og hafa stofnað lífeyrissjóð, muni falla undir þessi lög, og eftir því sem ég hafði aðstöðu til að kynna mér, þá hygg ég, að svo sé um Verkstjórasamband Íslands, að það uppfylli þessi skilyrði. Óvissa er aftur með Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra. En eins og ég sagði í upphafi, þá hefur n. haft þetta til athugunar og mælir einróma með, að það verði samþ.