18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Með hinum nýju lögum um stjórnarráð var sú breyting gerð á meðferð skólamála, að ýmsir sérskólar eða ýmis sérskólasvið, sem áður höfðu heyrt undir það rn., voru nú flutt yfir í menntmrn. að málefnum bændaskóla einum undanskildum. Þess vegna urðu fiskvinnsluskólamál — mál sem að menntun á sviði fiskvinnslu lúta — verkefni menntmrn. 1. jan. 1970, og hóf menntmrn. þá þegar könnun á þeim gögnum, sem lutu að stofnun fiskiðnskóla og þeim undirbúningi, sem farið hafði fram vegna hans í sjútvrn., og hélt þeim athugunum áfram.

En 10. júlí s. l. skipaði menntmrn. n. til þess að kanna stöðu tæknimenntunarinnar innan skólakerfisins og eðlileg tengsl hinna ýmsu fræðslustiga og til þess að gera till. um endurbætur í þessum efnum. Formaður þessarar n. var og er Andri Ísaksson, forstöðumaður Skólarannsókna menntmrn., en aðrir, sem í n. eiga sæti, eru Bjarni Kristjánsson, skólastjóri Tækniskólans, Gunnar Bjarnason, skólastjóri Vélskólans, Jóhannes Zoëga verkfræðingur, Magnús Jónsson, skólastjóri Ármúlaskóla, Óskar Hallgrímsson, formaður iðnfræðsluráðs, Stefán Guðjohnsen tæknifræðingur, Þór Sandholt, skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík, og Þorbjörn Sigurgeirsson, deildarforseti verkfræði- og raunvísindadeildar Háskólans.

Fyrir nokkrum mánuðum fól rn. þessari n. alveg sérstaklega að semja lagafrv. um fiskiðnskóla, og átti hún að grundvalla till. sínar að verulegu leyti á þeim sérfræðilegu álitsgerðum, sem fyrir lágu um málið, og þá fyrst og fremst á nál. um fiskiðnskóla á Íslandi, sem n, undir formennsku Hjalta Einarssonar efnaverkfræðings skilaði í desember 1966, og á álitsgerð Sigurðar B. Haraldssonar, efnaverkfræðings hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, en þetta nál. var birt í desember 1970. Ég óskaði þess, að verk- og tæknimenntunarnefndin hraðaði störfum sínum sem allra mest, þannig að unnt yrði að leggja frv. um þetta efni fyrir þetta þing í von um, að það gæti hlotið afgreiðslu, áður en þingi lyki. Verkefni n. reyndist nokkru stærra og flóknara en hún hafði í upphafi reiknað með, og lauk störfum hennar því ekki fyrr en nú fyrir rúmri viku eða um það bil 10 dögum. En ástæðan til þess, að ég lagði svo mikla áherzlu á, að n. lyki störfum nú á þessu þingi, er sú, að eitt brýnasta verkefnið, sem bíður úrlausnar í íslenzkum skólamálum — eitt af mörgum brýnum verkefnum — er einmitt að koma á fót skynsamlegri fræðslu í þágu fiskiðnaðarins, og það er tilgangur þessa frv. að koma á skólastofnun, sem veiti nauðsynlega fræðslu á þessu mjög mikilvæga sviði.

Í skóla þeim, sem gert er ráð fyrir að koma á fót samkv. frv. og nefndur er fiskvinnsluskóli, er gert ráð fyrir að veita fræðslu í vinnslu sjávarafla. Er svo ætlazt til, að tvö fyrstu námsárin í fiskvinnsluskóla ásamt tilheyrandi starfsþjálfun séu hliðstæð iðnnámi, en þriðja árið og framhaldsdeildin, sem gert er ráð fyrir, að rekin verði við skólann, sé hliðstæð sérhæfðu viðbótarnámi fyrir iðnsveina, sem í Tækniskóla Íslands hefur verið nefnt tæknanám, sbr. titilinn raftæknir, en það er tveggja ára nám. Þá má enn fremur minna á, að í iðnskólum fer fram meistarafræðsla, en gert er ráð fyrir því, að menntun í efri deild í fiskvinnsluskólanum verði á hliðstæðu stigi og meistarafræðsla í iðnskólunum. N., sem frv. samdi, taldi mikilvægt, að fiskiðnskólinn einskorðaði starf sitt ekki við menntun þeirra, sem annast munu verkstjórn, eftirlit, leiðbeiningarstarfsemi og rekstur fiskiðjuvera, heldur annist fiskvinnsluskólinn einnig kennslu og þjálfun í handbrögðum og vinnuaðferðum fyrir þá, sem vinna við móttöku og verkun sjávaraflans.

Í 4.gr. frv. er heimildarákvæði um að stofna til framhaldsdeilda við skólann, og er tilgangurinn með starfrækslu framhaldsdeildar, sem yrði 4. bekkur skólans, fyrst og fremst tvíþættur: 1) að veita nemendum aukna þekkingu og gera þá hæfari til fisktæknistarfa, og það á jafnframt að auðvelda aðgang að frekara námi í háskóla, og 2) að gefa nemendum kost á aukinni sérhæfingu í einstökum greinum fiskiðnaðarins, einkum niðursuðu- og fiskmjölsvinnslu. Í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að aðgangur að námi í framhaldsdeild sé eingöngu miðaður við þá, sem áður höfðu lokið prófi frá meistaradeild skólans heldur sé áhugasömu starfsfólki í fiskiðnaði, sem fullnægir tilteknum inntökuskilyrðum, einnig gefinn kostur á námi í deildinni. N. tók ekki afstöðu til þess, hvar skólinn skyldi staðsettur. Menntmrn. ákvað, að skólinn skyldi vera í Reykjavík.

Í 10. gr. frv. er fjallað í einstökum atriðum um námsefni í skólanum. Þar eru ákvæði um, að skólanum skuli skipt í þrjár deildir auk framhaldsdeildar, sem heimilt er að starfrækja, og skuli heildarnámstími í hverri deild vera sem næst 11 mánuðir og námið skiptast annars vegar í bóklegt og verklegt í skólanum, en hins vegar í verklega þjálfun, sem skólinn skipuleggur á vinnustöðunum. Frv. gerir sem sé ráð fyrir fjórum deildum, þremur reglulegum deildum í skólanum, undirbúningsdeild, fiskiðndeild og meistaradeild og síðar framhaldsdeild, sem heimilt er að reka.

Eins og ég sagði áðan, er gert ráð fyrir því, að nám í hverri deild verði tvíþætt, þ. e. annars vegar skólanám, en það er skilgreint sem allt nám bóklegt og verklegt, sem fer fram innan vébanda skólans undir leiðsögn kennara hans, og síðan hins vegar verkleg þjálfun, sem skólanum er ætlað að skipuleggja á vinnustöðum og fyrst og fremst er ætlað að tryggja, að nemendur hafi af eigin raun kynnzt sem flestum þáttum fiskvinnslu í eðlilegu umhverfi á vinnustað. Próf upp úr hverri deild skólans frá og með prófi úr fiskiðndeild eða 2. bekk á að veita að fenginni viðurkenndri tilskilinni starfsþjálfun tiltekin starfsréttindi og heimild til þess að nota ákveðinn titil.

Að því er varðar inntökuskilyrði í skólann, þá varð það niðurstaða n., að nauðsynlegt væri að gera kröfu til gagnfræðaprófs eða landsprófs miðskóla til þess, að nám í undirbúningsdeild skólans eða 1. bekk geti komið nægilega að gagni. Þó er um að ræða heimildarákvæði til undanþágu frá þessu.

Þá er rétt að geta þess að síðustu, að höfð hefur verið hliðsjón af hugsanlegum breytingum í framhaldsdeildum gagnfræðaskólanna eða svokölluðum fjölfræðideildum þeirra, sem starfræktar hafa verið síðan haustið 1969, en n., sem starfar á vegum menntmrn.till. um nýskipun á framhaldsnáminu í gagnfræðaskólunum, hefur gert tilraun með nýtt kjörsvið í framhaldsdeildunum, sem sé miðað við eins árs nám á sviði matvælaiðnaðar. N., sem samdi þetta frv., verk- og tæknimenntunarnefndin, hefur kannað till. hinnar n., kjörsviðsnefndarinnar, um matvælakjörsviðið, og þess vegna er í frv. lagt til, að nemendur, sem staðizt hafa próf að loknu eins árs námi á matvælakjörsviði, geti fengið inngöngu í fiskiðndeild fiskvinnsluskólans að lokinni a. m. k. þriggja mánaða verklegri þjálfun í fiskiðjuveri eftir 15 ára aldur. Er hér um að ræða lið í þeirri viðleitni, sem nú er almennt unnið að í nýskipan skólakerfisins, að auðvelda nemendum að flytja sig milli skólabrauta, milli námsbrauta, ef svo mætti segja, og má hiklaust fullyrða, að hér sé um skynsamlega meginstefnu að ræða, sem þó einnig er gert ráð fyrir í þessu frv., þ. e. milli framhaldsdeildar gagnfræðaskólanna annars vegar og svo fiskvinnsluskólans hins vegar.

Fyrir þessari hv. d. hefur legið frv. til l. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum. Hafa menntmrn. og ríkisstj. verið hlynnt þeirri hugmynd, sem í því frv. felst, og hefur niðurstaðan orðið sú að athuguðu máli, að heppilegast mundi vera að taka ákvæði um fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum inn í þetta frv.

Hv. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, hefur með vitund minni flutt till. um breytingu á 6. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að auk fiskvinnsluskóla í Reykjavík skuli stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara, eins og ég gat um áðan, þ. e. hafi heimild til þess að útskrifa menn upp að 3. bekk og að meðtöldum 3. bekk í fiskvinnsluskólanum, en starfræki hins vegar ekki framhaldsdeild nema að fengnu sérstöku samþykki menntmrn.

Ég vænti þess, að hv. n. taki þessa till. til velviljaðrar athugunar, og læt að síðustu í ljós þá ósk, að hv. menntmn., sem ég mun leggja til, að málinu verði vísað til, — nei, ég ætla að leggja til, að henni verði vísað til hv. menntmn. vegna þess, að það er venja, að hún fjalli um öll skólafrv. — en það, sem ég ætlaði að fara að segja, var það, að ég beini þeirri sérstöku ósk til hennar að hafa samráð við hv. sjútvn., þar sem liggja fyrir tvö frv. um skylt efni, þannig að um sameiginlega afgreiðslu á öllum málunum geti verið að ræða. Þó að frv. liggi í sjútvn., sem flutt hafa verið áður, þá tel ég það að vissu leyti hafa verið mistök, að þeim skyldi hafa verið vísað þangað. Þau eru þar hins vegar og þess vegna eðlilegt og nauðsynlegt, að hv. menntmn. hafi samvinnu við sjútvn. um afgreiðslu málsins.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.