18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef ekki kvatt mér hljóðs til þess að halda hér langa ræðu um þetta efni, en ég vil hins vegar fagna því, að þetta frv. er fram komið, enda er full ástæða til þess að fagna þessu frv. Það er ástæða til þess að fagna því, að ríkisstj. hefur loksins eftir öll þessi ár tekið rögg á sig og markað stefnu sína í fræðslumálum fiskiðnaðarins. Þetta fiskvinnsluskóla- eða fiskiðnskólamál er búið að vera hér á döfinni nú í fullan áratug. Það eru nú um þessar mundir 11 ár, síðan við tveir þm., hv. 2. þm. Reykn. Jón Skaftason og ég, fluttum þáltill. um þetta efni, og síðan héldum við þeim tillöguflutningi áfram líklega á 4–5 þingum, þangað til till. okkar var loksins samþykkt á árinu 1964. Upp úr því var svo kosin fiskiðnskólanefndin, sem svo hefur verið kölluð, sem skilaði áliti eftir ein 2 ár frá því, að hún tók til starfa og tillögum að mjög ítarlegu og glöggu frv. um fiskiðnskóla, sem síðan lá í salti hjá ríkisstj. raunar alla tíð, þangað til nú í byrjun þessa þings, að við þessir sömu þm., hv. 2. þm. Reykn. og ég, tókum þetta frv. upp og fluttum það hér í hv. Nd., og þetta frv. um fiskiðnskóla, flutt af okkur, hefur verið til skoðunar í sjútvn. d. síðan í haust. En ég tel sem sé, að það sé fagnaðarefni, að ríkisstj. hefur ákveðið stefnu sína í málefnum fiskiðnfræðslunnar, og þó að það frv., sem hér er flutt nú af ríkisstj., sé að nokkru leyti öðruvísi en það frv., sem við fluttum í haust, þá tel ég það engan veginn neitt til lýta. Að sumu leyti vil ég segja, að þetta frv., sem hér er nú flutt af ríkisstj., gangi lengra og sé e. t. v. fyllra en það frv., sem fiskiðnskólanefnd undir forustu Hjalta Einarssonar samdi og við hv. 2. þm. Reykn. höfum flutt, þannig að ég er vel til viðtals um það að fylgja þessu frv. og endurtek, að ég fagna því, að þetta mál er fram komið.

Í sambandi við meðferð þessa máls hér í þinginu hefur hæstv. ráðh. lagt það til, að málið fari til menntmn. Það má vel vera, að það sé nú talið formlega rétt. En þó eru að mínum dómi kannske eins mikil rök fyrir því, að málið fari til sjútvn. Þetta er raunar fremur sjávarútvegsmál en hreint menntamál, eins og við höfum venjulegast litið á þau efni. Að vísu urðu um það nokkrar umræður hér í haust, þegar frv. okkar hv. 2. þm. Reykn. var hér til umr., í hvora n. þetta skyldi fara, og niðurstaðan varð þá sú, að málið færi til sjútvn. Og ég vil minna á það, að frv. okkar — og raunar einnig frv. hv. 3. þm. Sunnl. um fiskiðnskóla í Vestmannaeyjum — liggur fyrir sjútvn., þannig að ég teldi nú eðlilegra, að málinu yrði vísað til þeirrar n., og þá fremur, að haft yrði samráð við menntmn., ef þess gerist þörf, því að mér finnst rétt, að þessi mál séu öll skoðuð í sameiningu, og raunar eðlilegast, að það sé gert. En erindi mitt sem sé hingað í ræðustól var fyrst og fremst að fagna því, að þetta frv. skuli vera komið fram. Mér er það persónulega mikið fagnaðarefni, og ég veit, að það mun vera svo um flesta eða alla þá, sem sýnt hafa þessu máli áhuga, að þeir munu geta fellt sig við meginefni þessa frv., og séu í því einhver atriði, sem ástæða er til þess að breyta eða færa til betri vegar, þá hygg ég, að það megi vinna í nefndarstarfi.

Ég er ekki alveg viss um, að ég hafi tekið rétt eftir ræðu hæstv. ráðh., en mig langar að lokum til þess að spyrja hann — og hann ítrekar þá, hafi hann minnzt á það áður — hvort það sé ekki ætlun hans að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Það er að vísu stutt til þingloka, og nokkrar raddir hafa verið uppi um það hér á hv. Alþingi nú að undanförnu, að rétt sé að láta ýmis skólamál bíða til næsta þings, og ég er því samþykkur um flest þeirra, en hins vegar held ég, að það væri mikil ástæða til þess að hraða þessu máli. Þetta er margrætt mál og eitt af þeim málum, sem lengi hafa raunar verið á umræðustigi og á undirbúningsstigi, og ég held, að það sé ekki eftir neinu að bíða með það að lögfesta ákveðnar reglur um starfrækslu fiskvinnslu- eða fiskiðnskóla. Ég mundi því leggja mikla áherzlu á það við þá n., hver sem hún verður, sem fær þetta til skoðunar, að nefndarstarfi verði hraðað hér í þessari d. og málið megi fá fullan framgang í þinginu, áður en því lýkur nú í vor.