18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að loksins er hér komið fram frv. frá ríkisstj. um fiskvinnsluskóla. Því miður kemur frv. seint fram á þessu þingi, og það getur verið vafasamt, að það takist að afgreiða það sem lög að þessu sinni. En ég teldi þó, að það væri mjög nauðsynlegt, að það mætti takast.

Það voru hér örfá atriði, sem ég vildi minnast á í sambandi við þetta frv. hér við 1. umr. Hér hefur nokkuð verið vikið að því, hvar ætti að ætla þessum skóla stað, og á það bent að mínum dómi með réttu, að það sé engan veginn sjálfgefið, að skólastaðurinn eigi að vera bundinn við Reykjavík. Ég tel, að það kæmi vel til mála að ætla skólanum stað á ýmsum öðrum stöðum, þó að ég vilji ekki heldur útiloka það á neinn hátt, að Reykjavík komi ekki einnig til greina. En eins og frv. er upp byggt og gert er ráð fyrir, að þessi skóli verði, þá sýnist mér mjög margt mæla með því, að vissar undirdeildir skólans verði á miklu fleiri stöðum en gert er ráð fyrir í frv. En hins vegar gæti ég vel fallizt á, að framhaldsdeild sú, sem gert er ráð fyrir, að starfi sem æðsta stig við skólann, og jafnvel einnig næstæðsta deildin, svonefnd meistaradeild, yrðu sérstaklega starfræktar hér í Reykjavík, þó að fyrri deildirnar tvær, þ. e. svonefnd undirbúningsdeild og fiskiðndeild, væru hins vegar reknar á miklu fleiri stöðum. Þegar á það er litið, hvað er ætlazt til, að kennt sé í þessum fyrri tveimur deildum, þ. e. í undirbúningsdeild og fiskiðndeild samkv. 2. gr. frv., þá sýnist mér alveg gefið mál, að það sé full ástæða til þess, að skólar, sem hafa slíkt verkefni með höndum, séu starfandi á fleiri stöðum en einum eða tveimur í landinu.

Í 2. gr. frv. segir um kennslu í skólanum, að kennslan skuli miðast við, að: 1. fiskiðnaðarmenn hafi öðlazt nægilega undirstöðuþekkingu, bóklega og verklega, til þess að geta annazt almenna verkstjórn, gæðaflokkun og stjórn fiskvinnsluvéla. Það er einmitt þetta, sem er algerlega nauðsynlegt, að sé í rauninni fyrir hendi alls staðar, þar sem nokkur fiskiðnaður er rekinn, að það séu til svona sæmilega menntaðir verkstjórar, sem geta annazt eðlilega gæðaflokkun og stjórn á þeim vélum og tækjum, sem um er að ræða við fiskvinnslu. Í þessari gr. er hins vegar sagt undir 2. tölul., að svonefndir fiskvinnslumeistarar verði auk þess, sem um getur í 1. tölul., færir um að taka að sér eftirlitsstörf, verkþjálfun, einfalda vinnuhagræðingu og stjórnun. Þarna er hins vegar orðið um allmiklu meiri kunnáttu að ræða, og ég held, að það gæti verið fiskvinnsluskólanum mjög til gagns, að sá skóli, sem t. d. væri rekinn hér í Reykjavík á hinu hærra stigi og styddist þá meira við þær rannsóknastofnanir, sem hér eru fyrir hendi, ætti kost á því að fá nemendur, sem hefðu verið í undirbúningsdeild og í deild, sem fjallar um fyrstu atriði í sambandi við þetta nám, úti í landsfjórðungunum, og það er mín spá, að yrði það skipulag tekið upp, séu miklu meiri líkur til þess, að skólinn í rauninni heppnist og nægilega margir nemendur sæki skólann.

Ég tel alveg sjálfsagt að ákveða það, að a. m. k. í Vestmannaeyjum verði skóli, sem tekur að sér fyrstu 2–3 stigin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og stend því að brtt. á þskj. 560, sem um það fjallar. En ég teldi einnig mjög eðlilegt, að t. d. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi — að ég tali ekki um hér á Suðurnesjum — væri starfandi skóli, sem tæki að sér þessi fyrstu tvö stig, sem fjallað er um í 10. gr. frv. Það er eins og hér hefur verið sagt, að vitanlega er engin ástæða til þess, þegar verið er að setja upp skóla t. d. í grein eins og þessari, að gera ráð fyrir því, að öll þau fræðslustig, sem þar er um að ræða, skuli vera svo að segja í sama húsi og á sama stað og það þurfi að senda menn víðs vegar að af landinu langar leiðir til þess að geta farið þar gegnum fyrstu stig skólanna. Menn tala stundum um það, að það geti verið dýrt að hafa marga skóla eða skóla á mörgum stöðum, en það er eins og þeim komi ekki til hugar, að það geti verið nokkuð dýrt að þurfa að senda nemendur langar leiðir og halda þeim uppi einnig við nám, sem ætti að vera mjög auðvelt að koma við í þeirra heimabyggð. Ég vil leggja á það áherzlu, að þetta sé athugað í sambandi við uppbyggingu skólans, hvort ekki er hægt að koma þessu við á þennan hátt, og held, að sá aukni kostnaður, sem kynni að koma fram í beinu skólahaldi, sparaðist þá nemendunum, sem annars yrðu að leggja á sig þennan kostnað með því að þurfa að dveljast jafnvel í heimavist, eins og hér er talað um í þessu frv., fjarri sínum heimahögum. Ég efast ekkert um það, að það er hægt að fá í öllum landsfjórðungum hæft kennaralið til þess að taka að sér þá kennslu, sem gert er ráð fyrir á fyrstu tveimur stigunum, og öll aðstaða til þess að kenna þar það verklega í náminu er auðvitað fyrir hendi.

Það er hér annað atriði, sem ég vildi líka minnast á strax við þessa 1. umr. Ég tók eftir því, að hæstv. menntmrh. lagði á það nokkra áherzlu, að þessu frv. yrði vísað til menntmn., en aðrar raddir heyrðust hér í salnum um það, hvort ekki væri rétt að vísa þessu frv. til sjútvn. eins og fyrri frv. um þessi mál. Ég legg á það áherzlu fyrir mitt leyti, að þessu frv. verði vísað til sjútvn., af því að ég lít á þetta mál á því stigi, sem það er nú, sem slíkt hagsmunamál sjávarútvegsins og í svo nánum tengslum við sjávarútvegsreksturinn, að það eigi fyrst og fremst heima þar. Ég get vel fallizt á það, að þeir tímar komi, að málefni þessa skóla eins og annarra skóla í landinu færist yfir í það að flokkast undir starfssvið menntmn., en á þessu stigi þá finnst mér eðlilegra, að fjallað sé um málið í sjútvn., og ég mun því leggja til, að þessu frv. verði vísað til sjútvn., og legg á það talsverða áherzlu. Það má auðvitað segja, að það væri bót í máli að fara fram á það við menntmn., að hún hafi samráð við sjútvn. um afgreiðslu málsins, en í rauninni sé ég enga þörf á þeirri krókaleið í þessum efnum og teldi hitt miklu eðlilegra á þessu stigi málsins.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið að þessu sinni, en vona, að það takist að afgreiða málið og m. a. að ná samkomulagi um staðsetningu skólans eða það fyrirkomulag á rekstri skólans, sem allir mega sæmilega við una.