24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég flutti hér brtt. við þetta frv., sem kom til umr., og ég gerði grein fyrir henni við 1. umr. um málið. Sjútvn. tók til athugunar bæði þessa till., sem ég hafði flutt, og einnig till., sem hv. 2. þm. Reykn. hafði flutt við frv., og að því er varðar till. mína, þá hefur hún efnislega verið tekin inn í brtt. hv. sjútvn., sem fram kemur á þskj. 635. Ég tel, að það, sem lagt er til af sjútvn., verði það samþ., nái því marki, sem að var stefnt með till. minni, og tel ég því ekki þörf á, að hún komi til atkvæðis nú, enda kemur fram í nál., að ég muni telja eðlilegt, að hún verði dregin til baka. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta mál skuli þó vera komið á þann rekspöl, sem nú er, þ. e. að samkomulag hefur náðst í sjútvn. um afgreiðslu á málinu, og vænti ég þess, að það fái hér greiða afgreiðslu hjá þessari hv. d. og það nái einnig að verða að l., áður en þingi verður slitið að þessu sinni.