24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðum hv. 2. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Norðurl. e. Þeir spurðu báðir, hvort það væri ekki ætlun sjútvn., að það ætti fortakslaust að undirbúa stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Það kann vel að vera, að ég hafi í framsöguræðu minni hér áðan ekki tekið þetta nógu skýrt fram, en það er að sjálfsögðu ætlun sjútvn. d., að unnið verði að þessum málum, eins og í brtt. segir, þ. e. að undirbúin verði stofnun þessara skóla á árunum 1972–1975. hafi ég sagt, eins og hv. 2. þm. Reykn. vitnaði til áðan: „ef stofnaðir verða,“ þá hef ég aðeins átt við það, að þeir yrðu stofnaðir, ef ekki kæmu í ljós neinir annmarkar á stofnun skólanna við þessa undirbúningsvinnu. Um það er að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða á þessu stigi, en ég endurtek, að það er ætlun sjútvn., að allt verði gert, sem hægt er, til þess að standa að málinu á þann hátt, sem í brtt. segir, á þessum tíma, þ. e. á árunum 1972–1975.

Varðandi staðsetningu fyrsta skólans, sem stofnaður verður samkv. frv., ef að lögum verður, þ. e. hvort hann á að vera hér í Reykjavík eða annars staðar, sé ég ekki ástæðu til að fara út í langar hugleiðingar þrátt fyrir ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. Mér er ljóst, og ég hygg, að það hafi einnig verið skoðun annarra sjútvnm., að hér hlýtur að vera um nokkurt vandaverk að ræða, þar sem stofna á nýjan skóla með nýjum viðfangsefnum og ekki eru til í landinu sérmenntaðir kennarar til að kenna við slíkan skóla. Það, sem að mínu viti ræður m. a. úrslitum um, að fyrsti skólinn, sem stofnaður verður, hlýtur að verða hér í höfuðborginni, er fyrst og fremst það, að hér er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, þar sem starfar fjöldi sérmenntaðra manna í lífefnafræði og öðru, sem að þessu lýtur. Hygg ég, að það hljóti að verða leitað mjög til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins með leiðbeiningar við uppbyggingu skólans og jafnvel það, að hún leggi honum til kennslukrafta.

En þetta eru fyrstu sporin, sem verið er að stíga í þessu efni, og það er ekki svo, að ekki verði síðar hægt að koma við breytingum. Ég gæti ímyndað mér, að þróunin í þessari skólagrein verði sú, að þegar búið er að þjálfa nægilega marga menn til þess að taka að sér kennslu á undirbúningsstigi skólanna, þ. e. á fyrsta og öðru stigi, þá geti svo farið, að alls ekki þurfi að hafa þá kennslu hér í höfuðborginni, heldur fari hún eingöngu fram annars staðar, en framhaldsmenntunin verði síðan hér í höfuðborginni. Ég hygg, að jafnvel þó að víða í fiskiðnaðarbæjum úti á landi sé góð aðstaða til þess að kenna það verklega og handbrögð í sambandi við þetta nám, hljóti þá að taka talsverðan tíma að fá nægilega kennslukrafta til þess að kenna önnur fræði í sambandi við það. Á þessu byggi ég a. m. k. mína afstöðu til þess, að farið verði að till. sjútvn. um staðsetningu fyrsta skólans hér í Reykjavík og jafnhliða honum verði skóli í Vestmannaeyjum fyrir 1. og 2. stig. Síðar meir er svo hugsanlegt, að á þessu verði breytingar í þá átt, sem ég nefndi, þ. e. að undirbúningsnámið og fyrstu bekkirnir í skólanum verði kenndir viðar um landið, en framhaldsnámið fari svo fram í sérstökum skóla hér í höfuðborginni.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, herra forseti, en ég endurtek, að það er vissulega ætlun sjútvn., að unnið verði að því með öllum tiltækum ráðum að koma upp þessum skólum ekki bara hér syðra heldur víðar á landinu.