24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég lýsti afstöðu minni til þessa frv. við 1. umr. og leyfði mér þá að fagna því, að ríkisstj. hefur tekið rögg á sig og markað sér stefnu í þessu mikla máli, sem hér hefur verið á döfinni í fullan áratug. Ég lagði þá einnig fram till. um það, að þessu máli yrði vísað til sjútvn., og undir þá till. var tekið, og ég tel, að það hafi verið til góðs, að sjútvn. fékk þetta mál til afgreiðslu, því að ég sé á vinnubrögðum hennar, að hún hefur tekið þetta mál föstum tökum, og óhætt er að segja, að málið hefur batnað mjög í meðförum n. Og er það vel. Ég tel, að allar þær brtt., sem n. flytur, séu til bóta á þessu frv., og ég mun fylgja þeim, og alveg sérstaklega tel ég, að n. hafi farið inn á rétta braut, þar sem gert er ráð fyrir stofnun fiskvinnsluskóla, a. m. k. á fyrsta og öðru stigi, í landsfjórðungum. Þetta er áreiðanlega rétt stefna, og mig langar í því sambandi að minnast á, að fiskmatsstjóri ríkisins, Bergsteinn Bergsteinsson, hefur áður á opinberum vettvangi hreyft þessari hugmynd og jafnvel ritað Alþ. bréf varðandi þessa hugmynd sína, og ég hygg, að það sé ástæða til þess að geta þess, að hann hefur haft um þetta sínar hugmyndir og sínar till., og er ástæða til þess að geta þess hér í þessu sambandi, og ég fagna því, að hv. sjútvn. hefur tekið þetta mál upp.

Hér hafa orðið talsverðar umræður um staðsetningu skólans, og get ég tekið undir þær hugleiðingar, sem hér hafa farið fram um þau efni hjá ýmsum — ekki sízt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., þar sem hann fór almennum orðum um staðsetningar ríkisstofnana og skóla og benti réttilega á, að þessi mál hafa verið mjög til umræðu — ekki sízt í vetur, og ýmsar yfirlýsingar komið frá mönnum um þessi efni. Ég hef nokkrum sinnum rætt þetta á Alþ., og raunar liggur nú fyrir þinginu enn einu sinni till. frá mér og fleiri þm. um athugun á því að staðsetja skóla, sérskóla, víðar um landið en venjan hefur verið, en við höfum jafnan bent á, að ef slíkt yrði gert, þá verði það að gerast eftir ákveðnum reglum og að vel hugsuðu máli og það þurfi að athuga vel, hvaða skóla sé gerlegt að staðsetja annars staðar en í höfuðborginni. Ég hef þá sannfæringu og við, sem höfum staðið að þessu máli hér á þinginu, að slíkt er gerlegt ekki sízt, þegar um er að ræða nýjar skólastofnanir. En ég skal játa, að ég er engan veginn tilbúinn að gera það að till. minni, að þessi fyrsti fiskiðnskóli verði endilega staðsettur utan Reykjavíkur, þó að ég telji, að vissulega megi að því huga, og ég mun ekki vilja tefja þetta mál með umr. um það efni og ekki gera það að þess háttar efni, sem yrði til þess að tefja framgang þessa máls.

En undir hinar almennu hugleiðingar um þetta efni vil ég taka alveg sérstaklega, og það ber vissulega að hafa það í huga í framtíðinni, þegar nýjar ríkisstofnanir koma til, ekki sízt skólarnir, að þá sé að því hugað, að þeim sé valinn staður annars staðar en hér í höfuðborginni, og ég hef þá alveg sérstaklega í huga tiltekna staði, þar sem rétt sé að koma upp skólamiðstöðvum. Vísir að þeim hefur að vísu orðið til í landinu, en ég tel, að það megi gera enn meira, einkum og sér í lagi held ég, að það sé ástæða til þess að huga að því, að Akureyri verði meiri skólabær en nú þegar er, enda þegar kominn sá vísir að skólamiðstöð þar, sem geti orðið upphaf að því, að þar verði starfandi fleiri skólar og í fleiri greinum en nú er. Hins vegar hef ég ekki hugsað mér að gera það að till. minni nú, að þessi skóli, ef hann verður settur á stofn, verði endilega settur niður þar, en við annað tækifæri væri ástæða til þess að minnast á, hvaða skóla vantar á Akureyri og hvaða skóla mætti stofna þar, sem kæmu að gagni fyrir þjóðina alla, en ekki eingöngu fyrir Norðlendingafjórðung. En ég sé ástæðu til þess að fagna afgreiðslu sjútvn. á þessu máli, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr., að ég vona, að þetta mál fái greiðan gang hér í gegnum þessa hv. þd. og í gegnum Ed. og frv. verði að lögum, áður en þingi lýkur nú í vor.