01.04.1971
Efri deild: 86. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég sé það, þegar ég les nál. um frv. til l. um fiskvinnsluskóla, að svo óheppilega hefur viljað til í öllum þessum hamagangi hér, að hvorugur fulltrúi Framsfl. í n. hefur haft tækifæri til þess að sitja þann fund, sem þetta mál var afgreitt á. Ég hygg þó, að því verði tæpast haldið fram og a. m. k. ekki með rökum, að fjarvist þeirra stafi af áhugaleysi framsóknarmanna á því, að fiskvinnsluskóli verði reistur, því að ég hygg, að á engan hv. þm. sé hallað, þó að frá því sé greint og því haldið fram, að þeir hv. þm. Ingvar Gíslason og Jón Skaftason hafi lengst allra manna flutt till. um það á Alþ., að slíkum skóla yrði komið á fót — eða síðan 1960, og hæstv. sjútvrh. hafa skipað n. — a. m. k. tvær — til þess að ráða fram úr því vandamáli, hvernig þessum skóla verði fyrir komið. Ég sé ástæðu til þess að fagna því sérstaklega, að þetta langþráða mál er nú loksins að nálgast veruleikastigið, og vil gjarnan, að það komi fram hér við þessa umr. málsins.

Ég ætlaði að öðru leyti ekki að lengja umr. að marki. Hv. sjútvn. hefur gert þá breytingu á frv. frá upphaflegu formi, að skólinn skuli vera staðsettur á Suðvesturlandi í stað Reykjavíkur, eins og frv. gerir ráð fyrir. Í upphaflega frv., sem var víst aldrei lagt fram af hæstv. ríkisstj., en einhverjir lögðu þetta frv. þó fram, var einmitt ákveðin staðsetning þessa skóla á Suðvesturlandi. Hæstv. ríkisstj. eða n. sú, sem hún skipaði til þess að kanna þetta mál — verk- og tæknimenntunarnefnd, hygg ég, að hún sé kölluð — hefur lagt til grundvallar sínu starfi frv. fyrri nefndar. Hún hefur breytt í því nokkrum atriðum. Þetta er eitt þeirra. Ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvar þessi skóli sé bezt staðsettur, og það er vissulega alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ástæðulaust er og raunar rangt að hrúga öllum skólastofnunum og menntastofnunum landsins á einn stað — í Reykjavík. En ég bendi á það og hlýt að benda á það, að af einhverjum ástæðum hefur sú n., sem tók fyrra frv. til endurskoðunar, komizt að þeirri niðurstöðu, að skólinn væri þrátt fyrir allt bezt staðsettur í Reykjavík, og ég held þess vegna, að það sé alveg ástæðulaust, að menn séu að túlka væntanlega lagasetningu eða leggja í hana meiri merkingu en orðin segja.

Í brtt. hv. sjútvn. segir, að skólinn skuli staðsettur á Suðvesturlandi. Það hlýtur að verða mat þeirra, sem framkvæmd hafa með höndum að ákveða, hvaða staður verður fyrir valinu á Suðvesturlandi, og þessi breyting, þótt samþykkt verði, útilokar ekki, að skólinn verði staðsettur í Reykjavík, ef það verður niðurstaða þeirra, sem hrinda málinu í framkvæmd. Með þessum skilningi tel ég einsýnt, að allir hv. dm. geti sameinazt um þessa brtt. En það mætti alveg segja mér, án þess að ég vilji neinn dóm um það fella, að verk- og tæknimenntunarnefnd hafi við nánari athugun komizt að því, að hér séu þrátt fyrir allt þeir starfskraftar, sem þessi skóli þarf við að styðjast, fremur en á öðrum stöðum, t. d. rannsóknastofnanir sjávarútvegsins ýmsar, matsstofnanir sjávarútvegsins og sölusamtökin. Hér eru fiskiðjuver með fjölbreyttri fiskvinnslu. Þannig get ég ekki annað séð en Reykjavík uppfylli þessi skilyrði. Það er alveg sjálfsagt að mínu mati að staðsetja skólann annars staðar, ef skilyrði þar eru jafngóð til þess. En umfram allt verðum við þó að fá þennan skóla, sem svo lengi er búið að bíða eftir, settan, þar sem hann gerir mest gagn fyrir sjávarútveginn í landinu. Það verður engin tiltakanleg lyftistöng fyrir Reykjavík, þótt þessi skóli bætist hér við, og ég er ekki að flytja hér mál Reykjavíkur, þó að ég segi þessi orð, heldur fyrst og fremst mál skólans, þannig að það verði tryggt, að hann verði þar niður settur, sem hann hefur mesta möguleika á því að gegna sínu vissulega þýðingarmikla hlutverki fyrir sjávarútveginn í landinu.