22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Ég þykist vita, að það sé rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að hæstv. félmrh. skilji marga hluti persónulegum skilningi, ég a. m. k. vonast til þess. En hitt þætti mér vænna um, að það hefði komið fram, hvernig stendur á því, að það er óskað breytinga á þessu frv. Það stafar nefnilega af því, að sá meiri hl., sem fyrir er í húsnæðismálastjórn, hefur beitt þar valdi sínu — þrátt fyrir raddir frá félmrn. — til þess að koma í veg fyrir, að minni hl. fengi að láta kjósa hlutfallskosningu um menn í þessar stjórnir. Okkur finnst full ástæða til þess, mér og hv. 11. þm. Reykv., sem flytjum þessa brtt., að hér sé látin gilda sú venja í gegnum allt þetta atriði löggjafarinnar, að þar sem hluti húsnæðismálastjórnar er kjörinn hlutfallskosningu af Alþ., þá skuli og þær kosningar, sem fram fara af hálfu húsnæðismálastjórnar í aðrar stjórnir, heimilaðar á sama hátt og það skuli tekið fram í löggjöf, svo að meiri hl. hverju sinni geti ekki borið minni hl. ofurliði. Það ætti miklu frekar að styrkja þessa stofnun, að sem flestir aðilar á stjórnmálasviðinu ættu þarna aðild að, svo að ekki kæmi neitt einokunarbragð af stjórnunum. Það er þess vegna, sem ég óska eftir því, að hv. heilbr.- og félmn. taki mál þetta fyrir og athugi það gaumgæfilega, og það væri full ástæða til þess að kalla fyrir menn úr húsnæðismálastjórn og frá Húsnæðismálastofnun ríkisins til þess að athuga, hvað þar hefur gerzt.