24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér skilst, að það hafi komið hér upp nokkur ágreiningur út af brtt., sem fram hefur verið borin á þskj. 525 þess efnis, að í stað orðanna „þrír eftir tilnefningu húsnæðismálastjórnar“ komi „þrír kjörnir hlutfallskosningu af húsnæðismálastjórn“. Nú er mér engin launung á því, að þetta frv. er fyrst og fremst fram borið vegna þess, að það var í húsnæðismálastjórn ágreiningur um það, hvort þessir menn skyldu kosnir hlutfallskosningu eða ekki, þessir tveir, sem áður var í lögum gert ráð fyrir, að húsnæðismálastjórn skyldi kjósa. Nú gæti það kannske — ég segi kannske — verið álitamál, hvort hlutfallskosning skuli fara fram, þegar aðeins tveir eru í kjöri, en þegar þrír eru, tel ég, að það sé ekki unnt að hafa kosninguna öðruvísi heldur en hlutfallskosningu.

Nú er ég ekki andstæður þessari brtt. þess vegna, vegna þess að ég meina, að það hljóti að fara fram hlutfallskosning, þegar um þrjá menn er að ræða. En mér hefur verið bent á, að þegar svona er og í lögum stendur, að þrír séu tilnefndir af sveitarstjórn og nú í frv. þrír af húsnæðismálastjórn og þessir síðari þrír séu kosnir hlutfallskosningu eftir þeirri breytingu, sem þar hefur komið fram, þá getur hugsazt, að það verði skilið þannig, að hinir þrír, sem kosnir eru af bæjarstjórninni, séu ekki kosnir hlutfallskosningu. Ég er ekki löglærður maður, en mér er sagt, að það sé eitthvað til þar, sem sé gagnkvæmar ályktanir eða ályktanir á móti því, sem tekin er ákvörðun um, þannig að þegar ákveðið er í einu tilfelli, að það skuli vera hlutfallskosning, þá geti menn dregið þá ályktun, að það sé ekki hlutfallskosning við aðrar sambærilegar kosningar, ef það er ekki tekið fram. Þess vegna held ég, að þá þurfi nú ekki í fyrsta lagi að taka fram, að þessir menn séu kosnir hlutfallskosningu, því að ég tel, að það sé sjálfsagt. En ég hræðist svolítið, ef það er tekið fram með þessa menn eina, að það verði til þess, að menn geti dregið andstæða ályktun um þá, sem ekki er ákveðið um, að hlutfallskosning skuli fara fram um. Þó að ég ætti að greiða hér atkv., þá vil ég segja, að ég mundi ekki hika við að greiða atkv. á móti þessari tillögu, sem hér er borin fram, af þessari ástæðu, ekki af því að ég sé efnislega á móti því, sem í tillögunni segir, heldur hinu, að það geti ekki leitt til ályktunar í gagnstæða átt um aðrar kosningar, sem gætu farið fram svipaðar annars staðar. Ég held þess vegna, að ég mundi vilja leggja til, að þessi tillaga á þskj. 525 verði felld, ekki af því að ég sé andstæður henni eða á móti henni, heldur vegna þeirrar gagnstæðu ályktunar, sem mætti draga af því, að hún væri samþykkt.